Valur á nýrri öld - Vinnufundur

Vinnufundurinn verður haldinn 12. maí kl. 10:00 - 13:30.

Fjölmargir Valsmenn tóku á einn eða annan hátt þátt í hátíðahöldum í tengslum við 100 ára afmæli Vals á síðasta ári. Hápunkturinn var síðan útgáfa á veglegri afmælisbók "Áfram hærra" þar sem brugðið er upp svipmyndum frá fyrstu 100 árunum í sögu þessa merka íþróttafélags.

Þegar sagan er rifjuð upp, er ljóst að það er ekki tilviljun sem hefur ráðið sigurgöngu Vals í 100 ár, heldur hugsjónir, eldmóður og óeigingjörn vinna og framlag fjölda fólks, jafnt innan vallar sem utan.

Í gegnum tíðina hefur eðlilega oft verið tekist á um ákveðin málefni, lítil sem stór, en sem betur fer hafa menn borið gæfu til þess að fylgja þeirri sýn og þeim hugsjónum sem mörkuð voru í upphafi.

Nú líður að 101 afmælisdegi Vals og stjórn félagsins þykir við hæfi að fagna afmælinu með því að bjóða félagsmönnum og velunnurum Vals að taka þátt í móta stefnuna fyrir næstu öld. Valur á nýrri öld- Hvar viltu sjá Val á næsta árhundraði? er yfirskrift opins fundar sem verður haldinn í Valsheimilinu að Hlíðarenda hinn 12. maí næstkomandi.

Dagskrá fundarins er enn í mótun, en meðal efnis sem unnið verður með er núverandi staða Vals, jafnt félagsleg sem fjárhagsleg, leitað verður svara við spurningum á borð við: fyrir hverja er Valur, hvernig aukum við fjölda iðkenda í yngri flokkum, hvernig styrkjum við stöðu Vals sem hverfafélags, hvernig fjölgum við félagsmönnum og aukum við áhuga þeirra á að koma og starfa fyrir félagið, hvert er hlutverk Vals í tengslum við almenna lýðheilsu, hvernig eflum við tengsl fyrrverandi iðkenda við starfið, hvernig tryggjum við fjárhagslegan grundvöll rekstrarins o.s.frv.

Listinn yfir áhugaverð viðfangsefni er nánast ótæmandi en það er verkefni skipuleggjenda að búa svo um hnútana að verkefnið verði ekki óviðráðanlegt og rúmist innan þess tíma sem fundinum er ætlað. Í lok fundarins verður farið yfir það með fundargestum hvernig úrvinnslu hugmynda og eftirfylgni verður háttað. Markmiðið er að góðar hugmyndir verði sem fyrst að veruleika!

Til að skrá sig á vinnufundinn þarf að senda tölvupóst á valur@valur.is með yfirskriftinni Valur á nýrri öld og verður opnað fyrir skráningu frá 15. apríl.