Valur - Fylkir 2 - 0. Sanngjarn sigur.

Valur - Fylkir  2 - 0  (1- 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 3. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  fimmtudaginn 12. maí 2016, kl. 19:15

Aðstæður: Góðar, hitastig 8°c, gola af suð-vestan, 4 m/sek.  Áhorfendur:  Rúmlega 900

Dómari: Þóroddur Hjaltalín. Aðstoðardómarar: Gunnar Sverrir Gunnarsson og Smári Stefánsson.

 

Valsmenn unnu sanngjarnan sigur gegn Fylki á Valsvellinum að Hlíðarenda í kvöld. Þetta var öllum mikill léttir. Það var nefnilega þungbært að þurfa að kingja tveimur ósigrum í röð í mótsbyrjun þrátt fyrir að vera betri aðilinn í báðum leikjum. Það sem öðru fremur skóp sigurinn í kvöld var sterkur varnarleikur og örugg markvarsla. Fram á við er Valsliðið öflugt. Oft á tíðum bregður fyrir hröðum og liprum samleik og góðar sendingar berast frá vængjunum in í vítateig andstæðinganna, þó ekki skili þær alltaf árangri. Í kvöld réðu Valsmenn lengst af lögum og lofum á vellinum, skoruðu tvö góð mörk og hrintu öllum árásum Fylkismanna. Það er engum blöðum um það að fletta að þetta var besti leikur Valsmanna í vor.

Tvær breytingar voru á liðsskipan frá því í leiknum við Víkinga Ólafsvík. Markvarðarstaðan var nú skipuð Antoni Ara Einarssyni sem kom í stað Ingvars Kale. Anton leysti hlutverkið sannarlega vel af hendi, var öryggið uppmálað í öllum sínum aðgerðum, gaf það varnarleiknum meiri festu en áður. Eins var hann oft fljótur að koma boltanum í leik með velheppnuðum útköstum á fría samherja, eftir að hafa gripið inn í sóknir Fylkismanna. Fyrirliðinn, Haukur Páll Sigurðsson, sem kominn kominn til baka úr meiðslum,  styrkti að sjálfsögðu liðið með sínum gífurlega dugnaði og hvetjandi baráttugleði.     

Frískleg byrjun Valsmanna gaf tóninn. Þeir náðu góðri sókn strax á fyrstu mínútu en markvöður Fylkismanna náði að verja. Á 5. mínútu fékk Rolf Toft, miðherji Vals, ákjósanlegt marktækifæri þegar hann fékk góða sendingu á vítateigslínu. Markvörður Fykismanna átti misheppnað úthlaup og var Rolf í lófa lagið að leika fram hjá honum og senda knöttinn í autt markið en reyndi þess í stað skot sem fór beint í fæturna á markverðinum. Fór þar gott færi forgörðum.

Valsmenn héldu áfram að sækja en Fylkisvörnin var þétt fyrir og náði að bægja allri hættu frá. Á 9. mínútu töpuðu Valsmenn klaufalega boltanum á vallarhelmingi Fylkismanna sem komust í skyndisókn , fjórir gegn þremur, og uppskáru aukaspyrnu á hægra vítateigshorni Valsmanna. Upp úr aukaspyrnunni fengu þeir hornspynu en vörn Valsmanna stóðst áhlaupið.

Þá fylgdi góður leikkafli Valsliðsins, sérlega var góð samvinna þeirra Bjarna Ólafs og Sigurðar Lárussonar á vinstri kantinum. Einnig mátti sjá góða spretti hægra megin hjá þeim Andra Fannari og Kristni Inga. Miðjumennirnir létu boltann ganga vel út á kantana og fyrirgjöfum var dælt inn í teig Fylkismanna en þar var eins og endahnútinn vantaði. Næst því að skora komst Bjarni Ólafur eftir góða sókn en fast skot hans small í stönginni.

Mark Valsmanna á 12. mínútu var verðskuldað þótt heppnin hafi að einhverju leyti gengið í lið. Gott skot Guðjóns Péturs fyrir utan vítateig lenti á Fylkismanni, breytti stefnu og hafnaði í hægra horninu, gjörsamlega óverjandi fyrir markvörðinn. Það hitnaði heldur betur í  Valsliðinu, eftir að hafa náð forystu. Hver sóknaraldan rak aðra og virtust Valsmenn mun líklegri að auka við forystu sína en Fykismenn að jafna. En oft er skammt á milli feigs og ófeigs, því á 44. mínútu ná Fylkismenn góðri sókn og Víðir Þorvarðarson virtist felldur inni í teig en ekkert var dæmt og sluppu Valsmenn þar með skrekkinn. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fengu Fylkismenn aukaspyrnu rétt utan teigs en Valsvörnin var vandanum vaxin og bægði hættunni frá.

Seinni hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. Valsmenn voru með völdin á vellinum og juku við forystuna á 54. mínútu, þegar Haukur Páll skallaði inn góða hornspyrnu Sigurðar Lárussonar. Þrátt fyrir mannabreytingar höfðu Valsmenn góð tök á leiknum allt til loka. Kristinn Ingi tognaði á 52. mínútu og Andri Adolfsson kom í hans stað. Rolf Toft var skipt út af á 70. mínútu, og inn kom Björgvin Stefánsson. Björgvin hefði kannski að ósekju mátt fá meiri spilatíma í þessum leik. Sindri Björnsson leysti Guðjón Pétursson af hólmi á 78. mínútu og gerði það vel. Varmannabekkur Vals er vel skipaður og sýnir hversu góð breidd er komin í liðið. Valsmenn stýrðu þessum sigri í höfn af miklu öryggi og gefur sigurinn vonir um gott framhald. ÁFRAM VALUR!