Valur - Stjarnan 2 - 0. Sætur sigur

Valur - Stjarnan  2 - 0 (1 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 7. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  sunnudaginn 5. júní 2016, kl. 17:00

Aðstæður: Góðar, hitastig 13°c, sunnangola, 5 m/sek.  Áhorfendur:  1045

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson. Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Smári Stefánsson.

 

Ein breyting var á byrjunarliði Vals frá síðasta leik. Sindri Björnsson tók stöðu Hauks Páls Sigurðssonar sem tók út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda. Það var boðið upp á hörkubaráttu strax frá byrjun í þessum leik. Fyrsta tækifærið leit dagsins ljós strax á fyrstu mínútu þegar Kristinn Freyr lék laglega fram hjá varnamanni og komst í skotfæri inn í vítateig en laust skot hans var auðveldlega varið.

Leikurinn byrjaði nokkuð vel hjá Valsmönnum. Þeir náðu fljótlega góðum tökum á leiknum og byggðu upp ágætar sóknir en Stjörnumenn vörðust vel. Á 6. mínútu voru þó Valsmenn skyndilega hætt komnir þegar Veigar Páll Gunnarsson fékk knöttinn á auðum sjó við hægri vítateigshorn Valsmanna. Hann skaut hörkuskoti á í átt að marki sem small í stöng og út, þar sluppu Valsmenn svo sannarlega með skrekkinn.

Valsmenn létu þetta atvik ekki slá sig út af laginu og héldu sínu striki. Spil þeirra var lipurt á köflum en þó vantaði oftast örlítið upp á síðustu sendinguna til að skapa hættuleg færi. Fyrstu tuttugu mínúturnar skipust liðin nokkuð á að sækja en Valsmenn virtust hafa ívið betur.

Á 21. mínutu skoruðu Valsmenn fyrra markið með laglegri leikfléttu. Þeir fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Stjörnumanna. Guðjón Pétur Lýðsson og Bjarni Ólafur Eiríksson gerðu sig báðir líklega til að taka spyrnuna. Bjarni hljóp að boltanum, hljóp yfir hann og fram hjá varnarveggnum, Guðjón kom í kjölfarið og lyfti boltanum laglega yfir vegginn. Valsmenn voru vel með á nótunum, fylgdu eftir og Nikolaj Hansen náði fyrstur til knattarins og renndi honum viðstöðulaust fram hjá markverðinum. Vel að verki staðið. 1 - 0!  

Valsmenn létu kné fylgja kviði og sóttu áfram hart að marki Stjörnunnar. Aðeins mínútu síðar átti Nikolaj Hansen góðan skalla sem var naumlega varinn eftir góða sendingu inn í teiginn.

Sannkallað dauðafæri féll Valsmönnum í skaut á 25. mínútu þegar Sigurður Lárusson gaf gullfallega sendingu inn í teiginn frá vinstri. Kristinn Ingi kom aðvífandi og virtist varla geta annað en skorað í stöðunni en einhvern veginn náði markvörðurinn að verja.

Valsmenn virtust hafa hreðjatak á Stjörnumönnum þessar mínúturnar. Á 28. mínútu renndi Guðjón Pétur boltanum milli varnarmanna út til vinstri á Sigurð Lárusson sem átti enn eina frábæra sendingu inn í teiginn en Stjörnumenn náðu að bægja hætunni fá á síðustu stundu. Valsmenn sóttu af krafti og voru mun hættulegri, fengu tvær hornspyrnur en uppskáru ekki.

Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik skiptust veður i lofti. Á 34. mínútu ná Stjörnumenn sókn og Guðjón Baldvinsson á fallega hjólhestaspyrnu yfir mark Valsmanna. Stjarnan hélt áfram að sækja og fá sína fyrstu hornspyrnu á 36. mínútu. Veigar Páll átti hættulegan skalla að marki Valsmanna á 38. mínútu.

Valsmenn sem höfðu haft undirtökin í leiknum mest allan fyrri hálfleik, áttu nú í vök að verjast, það sem eftir lifði hálfleiksins. En vörnin var vel á verði og Anton Ari, markvörður, greip ávallt inn í af miklu öryggi ef á þurfti að halda. Valsmenn gengu til hálfleiks með eins marks forystu og var það vel verðskuldað, á heildina litið.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og kræktu sér í hornspyrnu strax á fyrstu mínútu hálfleiksins. En Stjörnumenn voru fljótir að átta sig og tóku hraustlega á móti. Þeir fengu aukaspyrnu á vallarhelmingi Valsmanna á 48. mínútu Veigar Páll gaf fallega sendingu inn í teiginn, Geir Rúnarsson átti góðan skalla sem sveif yfir markið rétt ofan við samskeytin.

Stjarnan náði undirtökunum fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik og pressuðu ákaft en smám saman tókst Valsmönnum aftur að finna taktinn. Eftir rúmlega fimmtán mínútna leik gekk lukkan í lið með Valsmönnum. Kristinn Freyr lék í átt að marki Stjörnunnar og sendi knöttinn inn á vítateiginn, þar var enginn Valsmaður í nánd. En um leið var brotið á Kristni og fengu Valsmenn því aukaspyrnu á góðum stað, rétt utan vítateigs. Kristinn Freyr tók aukaspyrnuna sjálfur, skaut föstu skoti í átt að marki, boltinn lent í varnarveggnum, breytti um stefnu og hafnaði í netinu. 2 - 0!

Í kjölfar seinna marksins gerðu Valsmenn breytingar á liði sínu. Gujón Pétur, sem hafði átt skínandi leik, fór af velli og í hans stað kom Einar Karl Ingvarsson. Valsmenn léku af mikilli yfirvegun sem eftir lifði leiks. Þeir höfðu góð tök á leiknum vörðust vel og sköpuðu sér ágæt færi á milli. Á 75. og 79. mínútu gerði Ólafur breytingar sóknarlínunni, Rolf Toft leysti Kristinn Inga af hólmi á hægri kantinum og Björgvin Stefánsson fór í miðherjastöðuna í stað Nikolaj Hansen, skynsamlegt að setja fríska fætur inn á þegar þarna var komið.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu til að rétta sinn hlut undir lokin en allt kom fyrir ekki. Valsvörnin tók vel á móti og Anton Ari var afbragðsgóður í markinu. Feykilega öruggur í öllum sínum aðgerðum og kórnaði stórleik sinn þegar hann varði glæsilega hörkuskalla Baldurs Sigurðssonar á 86. mímútu.

Sindri Björnsson skilaði hlutverki sínu á miðjunni með stakri prýði. Það er ekki heiglum hent að fylla skarð Hauks Páls Sigurðssonar, fyrirliða Valsmanna, þess mikla barátttujaxls. En Sindri sýndi enn einu sinni að hann er alls trausts verður og er, þrátt fyrir ungan aldur, orðinn gífurlega sterkur leikmaður, með ódrepandi vilja og mikla útsjónarsemi. Sannkallaður happpafengur fyrir Valsmenn.

Kristinn Freyr átti virkilega góðan leik að þessu sinni, duglegur og áræðinn, upphafsmaður margra góðra sókna. Samvinna Bjarna Ólafs og Sigurðar Lárussonar á vinstri vængnum er eitt aðalsmerkið í sóknarleik Valsmanna og unun er að fylgjast með þeim, svo gott auga hafa þeir fyrir samleiknum. Nikolaj Hansen vex með hverjum leik og var barátta hans og dugnaður til fyrirmyndar í þessum leik.  

Valsliðið sýndi að það gefur toppliðum deildarinnar ekkert eftir. Næstur er heimaleikurinn gegn FH sem vermir efsta sætið sem stendur. Úrslitin gegn Stjörnunni gefa góð fyrirheit en ekkert kemur að sjálfu sér. Þó þessi úrslit efli sjálfstraustið í liðinu þá er það ljóst að leikmenn verða að leggja sig hundrað prósent fram gegn FH til að knýja fram sigur og vera með í toppbaráttunnni í sumar. Getan er til staðar svo nú er það aðeins ÁFRAM VALUR!