Valur - Víkingur Ó. 3 - 1 Valsmenn á sigurbraut

Valur - Víkingur Ólafsvík   3 - 1 (2 - 0)

Íslandsmótið í knattspyrnu, Pepsi-deild karla, 13. umferð.  Valsvöllurinn að Hlíðarenda,  miðvikudaginn 3. ágúst 2016, kl. 20:00

Aðstæður: Góðar, hitastig  13°c,  norðvestan  gola, 5  m/sek.  Áhorfendur: 822

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. Aðstoðardómarar: Oddur Helgi Guðmundsson og Eðvarð Eðvarðsson.

 

Valsmenn  hófu leikinn með sömu liðsskipan og í sigurleiknum gegn Selfyssingum í síðustu viku. Anton Ari var á sínum stað í markinu, bakverðir voru Andreas Albech  og Bjarni Ólafur og í miðvörninni stóðu Orri og Raumus Christiansen. Haukur Páll, Kristian Garde  voru inni á miðjunni og Sigurður Egill og Andri Adólfsson á köntunum, Kristinn Freyr var í holunni og fremstur lék Kristinn Ingi.

Ólafsvíkingar hófu leikinn og sóttu fast, unnu strax innkast, köstuðu langt inn í teig Valsmanna  sem náu  að bægja hættunni frá, léku laglega upp miðjuna, Kristian Garde  komst upp hægra megin, sendi knöttinn inn á teiginn á Kristinn Inga sem lagði hann út en þar var enginn til að ljúka fallegri sókninni. Valsmenn  voru sérlega frískir í upphafi leiks, léku við hvern sinn fingur og sköpuðu sér ágæt færi á fyrstu mínútunum. Þetta var besta byrjun sem liðið hefur sýnt í sumar. Spilið var ákaflega lipurt, boltinn gekk hratt á milli manna með nákvæmum sendingum og sóknarleikurinn oft á tíðum hugmyndaríkur.

Á sjöundu mínútu urðu Kristni Frey á mistök í sókninni, tapaði boltanum og Ólafsvíkingar óðu upp og unnu hornspyrnu. Ekkert varð úr henni og  Valsmenn  náðu aftur vopnum sínum og aðeins mínútu síðar bætti Kristinn Freyr fyrir mistökin með frábærri sendingu á nafna sinn Kristinn Inga sem gaf góða sendingu á fjarstöngina, þar rak Sigurður Egill endahnútinn á glæsilega sókn með góðu skoti sem þandi út netmöskvana, 1 -0!

Næstu mínútur sóttu  Valsmenn  af miklum þunga án þess þó að uppskera. Sigurður Egill átti hörkuskot á 12. mínútu sem fór af varnarmanni í horn og á 14.  mínútu  skall hurð nærri hælum við Víkingsmarkið þegar þungri sókn  Valsmanna  lauk með skoti Kristians  Garde  í stöng. Það er óhætt að segja að fyrsta stundarfjórðungs þessa leiks hafi  Valsmenn  haft umtalsverða yfirburði. Næstu mínúturnar dalaði nokkuð ákefð  Valsmanna  og við það jafnaðist leikurinn.

En á 22. mínútu sá annað mark  Valsmanna  dagsins ljós. Há sending kom fá hægri inn í vítateig Víkinga, Kristinn Ingi ætlaði að skalla að marki Varnarmaður klifraði upp á bak hans og hindraði hann. Augljós vítaspyrna. Kristinn Freyr fór á punktinn. Markvörðurinn  hálfvarði  en dugði ekki til, knötturinn lak inn og  Valsmenn  voru komnir í 2 - 0. Markið hafði góð áhrif á leik  Valsmanna  þeir náðu aftur sínum fyrri vopnum og voru mun snarpari næstu mínúturnar og réðu Víkingar lítt við hraða þeirra. Víkingar komu þó til baka þegar síga fór á á seinni hluta hálfleiksins en  Valsmenn  náðu að að halda sínum hlut og áttu síðasta færið í fyrri hálfleik þegar Kristian  Garde  spilaði Sigurð Egil  frían, Sigurður lék í átt að marki og skaut en  markvörður  Víkinga varði skot hans.

Það var engu líkara en  Valsliðið  hefði fengið sér "Sleepytime" te í hálfleiknum. Leikur þeirra í byrjun hálfleiksins var allur annar en í þeim fyrri, mun hægari og deyfðarlegri. Ákefðin og hraðinn sem einkenndi leik þeirra í upphafi virtist hafa orðið eftir inni í búningsklefanum. Ekki kunni þetta góðri lukku að stýra og Ólafsvíkingar gengu á lagið. Og þar kom að því að  Valsmenn  þyrftu að gjalda fyrir áhugaleysi sitt í byrjun seinni hálfleiks, það var dýrt, kostaði mark. Á 65. mínútu skoruðu Víkingar gott skallamark og minnkuðu muninn, 2 -1.

Í kjölfarið, á 67. Mínútu, fór Andri Adolfsson af velli vegna meiðsla og Rolf  Toft  kom inn á.  Valsmenn  hristu af sér slenið og á 70. mínútu svöruðu þeir fyrir sig með góðu marki. Eftir fallega sókn, þar sem  Valsmenn  prjónuðu sig laglega gegnum Víkingsvörnina, fékk Kristinn Freyr boltann vinstra megin í teignum, lagði hann vel fyrir sig og sendi   hann í hægra hornið 3 - 1.  Valsmenn  hresstust verulega við markið og í kjölfarið sýndu oft góð tilþrif. Kristinn Freyr fór af velli fyrir Guðjón Pétur á 72. mínútu og á þeirri 75. leysti Andri Fannar Hauk Pál af hólmi. Síðasta stundarfjórðunginn náðu  Valsmenn  að stjórna ferðinni að mestu og áttu ekki í teljandi  vandræðum  með að landa þessum tveggja marka sigri.

Valsliðið átti góðan dag þó segja mætti að leikurinn hafi verið nokkuð  kaflaskiptur. Var fyrri hálfleikurinn mun betur leikinn af hálfu  Valsmanna  og hefði í raun átt að skila fleiri mörkum. Danirnir sem komu í sumar, þeir Andreas  Albech  og Kristian  Garde, hafa fallið vel inn í leikskipulagið og styrkja liðið. Hópurinn er orðinn allþéttur, eins og sjá má þegar litið er yfir varamannabekkinn. Er það góðs viti þegar litið er til baráttunnar sem  fram undan  er í seinni hluta mótsins þar sem erfiðan  bikarúrslitaleik ber hæst nú seinna í ágúst. Mér sýnist allt vera á réttri leið og Valsliðið komið á sigurbraut.

ÁFRAM VALUR!