Valsarar á KSÍ VI þjálfaranámskeið í Noregi

2.-18. október síðastliðinn fór fram KSÍ VI þjálfaranámskeið í Noregi. Námskeiðið var einstakt að því leiti að einungis kvennkyns þjálfarar voru þátttakendur en UEFA er þessi misserin með aðgerðir til að fjölga konum í þjálfun og var þetta námskeið liður í því verkefni. Í hópnum voru þrír starfandi þjálfarar hjá Val þær Margrét Magnúsdóttir, Soffía Ámundadóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir.  Auk þeirra voru Sigríður Baxter fyrrum þjálfari hjá Val, Bára Rúnarsdóttir fyrrum leikmaður Vals og Eva Björk Ægisdóttir fyrrum þjálfari Vals. 

Á námskeiðinu var lögð áhersla á leikgreiningu og áætlanagerð. Í raun hófst námskeiðið í september með helgarnámskeiði í leikgreiningu á tveimur leikjum í Pepsi-deild kvenna. Námskeiðinu lýkur ekki fyrr en í desember þegar þjálfararnir skila verkefni í áætlanagerð.

Í Noregi fékk hópurinn gott aðgengi að bæði kvennaliði Stabæk og kvennaliði Lilleström. Hjá Stabæk er Vanja Stefanovic aðstoðarþjálfari en Vanja lék fimm tímabil við mjög góðan orðstír hér á landi með Fjölni, KR, Breiðablik og Val. Hjá Lilleström er Íris Björk Eysteinsdóttir í þjálfarateymi U19 ára liðsins. 

Fálkarnir styrktu starfandi þjálfara barna og unglingasviðs í ferðinni og komum við á framfæri bestu þökkum frá stelpunum sem tóku þátt.