Dion Acoff skrifar undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Vals

Knattspyrnudeild Vals og Knattspyrnudeild Þróttar hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Dions Jeremy Acoff úr Þrótti yfir í Val. Dion Acoff var besti erlendi leikmaðurinn í efstu deild karla árið 2016, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins. Hann fékk 16 M í 20 leikjum og var valin í úrvalslið deildarinnar.  Dion gerir 3ja ára samning við Val eða út tímabilið 2019.

Dion á að baki 45 leiki með Þrótturum auk þess að skora 9 mörk í deild og bikar. Þessi 25 ára gamli kantmaður kom til Þróttar fyrir tímabilið 2015 og hefur síðan þá verið lykilmaður í sóknarleik liðsins.

Dion er væntanlegur til Íslands um miðjan janúar og mun viðtal við kappann birtast á valur.is og ValFótbolta á fésbókinni fyrst fjölmiðla.

Valur.is býður Dion hjartanlega velkomin til félagsins og óskar honum góðs gengis.