Mikið um að vera hjá yngri flokkum Vals

5.flokkur kvenna fór á Pæjumótið í Eyjum fyrir nokkru með þrjú lið og stóðu þau sig öll með stakri prýði. Sérlega glæsilegur var sigur A liðsins á mótinu en B og C liðin stóðu sig einnig vel og spilaði B liðið meðal annars um þriðja sætið.

Stór hópur stráka fór á Norðurálsmótið á Akranesi en þar skipta úrslitin ekki öllu máli en árangur Valsstrákanna var samt sem áður mjög góður á knattspyrnuvellinum. Strákarnir þóttu líka standa sig einstaklega vel utan vallar og voru sjálfum sér og foreldrum sínum til mikillar fyrirmyndar.

6.flokkur karla og kvenna tóku þátt í Hnátu- og Pollamóti KSÍ og komst A lið stelpnanna í úrslit og A, C og D lið strákanna einnig. Þess má geta að leikmenn mfl.karla og þjálfarar sáu um riðil Vals í C og D liðum og alla dómgæslu og mæltist þetta mjög vel fyrir.

6.flokkur karla fór svo á Shellmótið í Eyjum í morgun með um 35 leikmenn og stóran hóp af foreldrum og verður gaman að fylgjast með gengi þeirra þar. Um aðra helgi fer svo N1 mót 5.fl. karla fram á Akureyri.