Frank Aron Booker í Val

KKD Vals hefur gert samning við Frank Aron Booker um að leika með Val í vetur. Samningur þess efnis var undirritaður í Origo höllinni á Hlíðarenda í vikunni. Hann spilaði 4 tímabil í bandaríska háskólaboltanum með eftirfarandi liðum: Oklahoma háskólanum, Suður Karólínu og Florida Atlantic.

Hann hóf atvinnumannaferil sinn í Frakklandi í fyrra með ALM  Évreux í 2. deildinni hvar hann spilaði að meðaltali 21,6 mínútur í leik og skoraði 8,7 stig í leik. Frank Aron var valinn í íslenska landsliðshópin nú í sumar og spilaði sínar fyrstu mínútur fyrir Íslands hönd.

Þess ber að geta að Frank Alonzo Booker, faðir Franks Arons, átti farsælan körfuboltaferil á Íslandi á 10. áratugnum og spilaði m.a. í þrjú tímabil með Val.

Valur hefur undanfarin ár verið að byggja upp körfuboltann innan félagsins. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt sl. misseri og í dag eru virkir körfuboltaiðkendur yfir 300 í félaginu. Öflugir þjálfarar hafa verið ráðnir til að sinna starfinu í yngri flokkunum. Það er mikilvægt að hafa öfluga meistaraflokka innan félagsins sem hvatningu fyrir unga iðkendur sem stefna hátt.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Frank Aron og Ágúst Björgvinsson þjálfara Vals við undirritun í Origohöllinni í gær.