Heimir Guðjónsson tekur að sér þjálfun meistaraflokks Vals í knattspyrnu karla

Stjórn knattspyrnudeildar Vals og Heimir Guðjónsson hafa komist að samkomulagi um að Heimir taki að sér þjálfun meistaraflokks Vals í knattpyrnu karla til næstu fjögurra ára. 

Heimir er einn sigursælasti þjálfari landsins en hann leiddi FH til Íslandsmeistaratitils fimm sinnum á tíu ára ferli sem þjálfari liðsins.  Heimir var kosinn þjálfari ársins í Færeyum á síðasta ári en hann gerði Havnar Bóltfelag af meisturum það sama ár og bikarmeisturum í ár.

Heimir lék 251 leik í efstu deild með KR, ÍA og FH og ríflega 300 meistaraflokksleiki alls á löngum ferli. Hann varð Íslandsmeistari með FH í tvígang sem leikmaður og einu sinni sem aðstoðarþjálfari, einnig lék hann sex A-landsliðsleiki.

"Það er mjög spennandi að koma til Vals á þessum tímapunkti, Valur hefur mikla sigurhefð, hefð sem ég ætla mér að viðhalda og styrkja. Valur er þannig félag að það vill alltaf leika til sigurs í öllum mótum. Það er mjög sterkur kjarni í liði Vals sem ætlar sér að keppa um alla titla á næsta ári." segir Heimir Guðjónsson nýráðinn þjálfari meistaraflokks Vals í knattspyrnu karla.

Stjórn knattspyrnudeildar Vals býður Heimi velkominn til starfa og væntir mikils af starfi hans fyrir félagið.