Helena Sverrisdóttir Körfuknattleikskona ársins 2019

Helena Sverrisdóttir hefur verið valin körfuknattleikskona ársins 2019 af KKÍ en þetta er í 12 sinn á síðustu 15 árum sem Helena hefur hlotið nafnbótina. Þetta er í 22. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998. 

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn, starfsmönnum, afreksnefnd og landsliðsþjálfurum allra landsliða KKÍ í verkefnum á árinu 2019.

Helena hefur verið valin "Körfuknattleikskona árins" 12 sinnum og hefur hlotið nafnbótina lang oftast kvenna á Íslandi. Helena var lykilleikmaður Vals á síðustu leiktíð og leiddi lið sitt til deildarmeistaratitils, Íslandsmeistaratitils sl. vor eftir úrslitakeppnina og Bikarmeistaratitils í febrúar, en þetta voru fyrstu stóru titlar kvennakörfunnar í Val.

Helena lauk tímabilinu með því að vera kjörin besti leikmaðurinn í deildinni á lokahófi KKÍ. Í ár er hún sá íslenski leikmaður sem hefur að meðaltali skorað mest, tekið flest fráköst og skilar hæðsta framlaginu í deildinni. Með íslenska landsliðinu hefur Helena eins og á undanförnum árum leikið mjög vel, bæði í síðustu undankeppni þar sem hún fór fyrir liðinu í helstu tölfræðiþáttum sem og í nýhafinni undankeppni FIBA Europe þar sem hún leiðir liðið í tölfræðiþáttum yfir stig skoruð, fráköstum og er önnur yfir flestar stoðsendingar.