Keppnisferð 3.flokks kk og kv til Keele

Nú í lok júlí hélt 3.flokk kk. og kvk. í sameiginlega keppnisferð til Englands. Ferðinni var heitið til Keele, sem er rétt fyrir utan Stoke on
Trent. Ferðin gekk vel og veðrið lék við ferðalanga 22-26°C hiti. Á öðrum degi var farið til Manchester þar sem krakkarnir dressuðu sig upp og eyddu sumarhýrunni í Trafford Center.  Stúlkurnar fengu auka frídag og skelltu sér því á leiki í knattspyrnu kvenna á Olympíuleikunum. Fyrst sáu þær leik Japans og Canada og síðan leikur Svíþjóðar og Suður-Afríku.  Á þeim leik ráku stelpurnar augun í kunnuglegt andlit frá Hlíðarenda - engin önnur en Beta þjálfari var mætt á staðinn.  

Útsendarar frá mörgum breskum liðum voru á mótinu og voru nokkrir sem tóku eftir okkar drengjum. Það varð til þess að öllum hópnum var boðið í heimskókn á æfingasvæði Stoke City. Eftir að fótboltamótinu lauk var svo farið í skemmtigarðinn Alton Towers þar sem reynt var á hjarta, taugar og maga í hinum ýmsu rússibönum.

3.flokkur karla fór út með 22 drengi og tvö lið og því strax ljóst að mikið álag yrði á drengjunum.  Í fyrsta leik á móti liði frá Kenya fóru þó að renna tvær grímur á menn þar sem staðan í hálfleik var 14-1 okkar mönnum í vil. Því var brugðið á það ráð að skipta liðunum upp og ungmennafélagsandinn hafður í fyrirrúmi í seinni hálfleik. Stoltir og hrærðir fararstjórar urðu vitni að því að Valsmenn létu ekki kappið bera fegurðina ofurliði. Aðrir leikir A liðsins voru hins vegar hörkuleikir, en okkar drengir sýndu hvað í þeim bjó, stigu upp og sigruðu alla. Lokaniðurstaða eftir riðlakeppninvar sú að Valur var með fullt hús stiga og sigurvegarar í riðlinum. Á laugardeginum var svo spilað í undanúrslitum á móti Cambridge City FC og lauk þeim leik með 1-0 sigri okkar manna.  Úrslitaleikurinn tapaðist svo naumlega gegn sterku liði Stockport Select 2-1. Niðurstaðan var því að A liðið endaði í 2.sæti mótsins, sem telst frábær árangur. B-lið drengjanna stóðu sig ekki síður vel á mótinu, komust alla leið í úrslitaleik og töpuðu í bráðabana vítaspyrnukeppni gegn sterku liði Higfield Rangers. Það voru því stoltir þjálfarar og fararstjóri sem leiddu hópana heim eftir frekar viðburðarríkan dag. Það má með sanni segja að þeir Þór og Jón þjálfarar drengjanna hafi náð stórkostlegum árangri með þessa drengi og eigum við eflaust eftir að sjá marga þeirra spila undir merkjum Vals í framtíðinni.


3.flokkur kvenna fór með 16 stelpur í sínum hóp og spiluðu þær 6 hörkuleiki á þremur dögum. Það má til gamans geta að stelpurnar okkar vöktu mikla athygli með gleði, söng og fyrirmyndarframkomu. Liðsmenn annarra félaga komu gagngert til þeirra til að læra þeirra upphitunarsöng og dans. Allir þeirra leikir voru hörkuleikir, en þrátt fyrir það stóðu okkar stelpur uppi sem sigurvegarar með fullt hús stiga og voru krýndar KEELECUP meistarar 2012 í sínum flokki. Bikarinn sem þær komu með heim má sjá í nýja verðlaunaskápnum á Hlíðarenda. Stelpurnar fengu að láni snillingana Möggu og Birki sem þjálfara í ferðinni. Þau eru svo sem ekkert ný af nálinni og þekkja stelpurnar vel enda sást það vel á því hversu vel þau náðu til þeirra og má segja að árangurinn tali sínu máli. Frábær árangur hjá þessum flotta hópi stelpna sem eiga eflaust margar eftir að spila undir merkjum Vals í framtíðinni.