Valur á nýrri öld -hollusta í garð félagsins!

Á þessum tímamótum þegar sumarvertíðinni í knattspyrnu er að ljúka og vetrarstarfið í handbolta og körfubolta að fara á fullt er ekki úr vegi að staldra aðeins við og horfa inn á við. Allir þeir sem koma á einhvern hátt að starfinu hér á Hlíðarenda hafa eðlilega ýmislegt til málanna að leggja - og er það vel. Það sáum við vel á frábæru málefnaþingi sem við kölluðum Valur á nýrri öld. Þar lögðust allir á eitt til að finna lausnir, ný sóknarfæri og betri grundvöll fyrir starfið innan Vals, með það markmið að Valur geti enn betur sinnt skyldum sínum við iðkendur og félagsmenn. Nú er verið að vinna úr þeim ótal góðu hugmyndum sem fram komu og á næstu misserum komum við til með að kynna fyrir félagsmönnum afraksturinn. Jafnframt verður kallað eftir kröftum sem flestra Valsmanna sem eru tilbúnir að koma að því að hrinda í framkvæmd  ótal mörgum jákvæðum og uppbyggilegum hugmyndum. Því langar mig í þessum fáu orðum að hvetja okkur öll til að sýna félaginu, sögu þess og starfinu í dag hollustu og vera tilbúin til starfa; sem er í raun skylda okkar Valsmanna ef við viljum gera gott félag betra.

En við hvað er átt með orðinu hollusta? Við sem erum félagsmenn í Knattspyrnufélaginu Val eigum að sýna félaginu og því starfi sem hér fer fram hollustu eða tryggð. Hér á ég við tryggð félagsmanna í garð hvers annars, hvort sem þeir eru iðkendur eða  keppendur, starfsmenn eða  foreldrar enda róum við öll í sömu átt. Með því að nefna hollustu og tryggð er ég ekki að mælast til þess að við horfum ekki gagnrýnum augum á það starf sem hér fer fram. Auðvitað eigum við á hverjum degi að hugsa hvernig hægt er að gera Val að enn betra félagi.  En það skiptir máli hvernig við komum athugasemdum okkar á framfæri. Því hef ég miklar væntingar til vinnunnar sem brátt fer af stað og ég nefndi hér í upphafi. Nýtum okkur þær boðleiðir sem til eru innan félagsins, setjum okkur í samband við framkvæmdastjóra, íþróttafulltrúa, formenn deilda, foreldraráð,  stjórn félagsins eða formann.  Þannig verða  ábendingar okkar uppbyggilegar og félaginu til framdráttar sem er auðvitað okkar markmið og er jafnframt árangursríkasta leiðin til að ná árangri, jafnt meðal keppenda sem og í grasrótinni. Ég hlakka til starfsins á Hlíðarenda í vetur og vil að lokum þakka öllum þeim sem lagt hafa starfinu lið nú í sumar sem endranær.

Valskveðja,

Hörður Gunnarsson

formaður Knattspyrnufélagsins Vals.