Tap fyrir HK eftir jafnan fyrri hálfleik

Íslandsmótið í handbolta er hafið.  N1 deild karla hófst í gærkvöldi með heilli umferð.  Það kom í hlut okkar Valsmanna að sækja Íslandsmeistarana í HK heim í fyrsta leik. 

Valsliðið hefur breyst nokkuð frá síðasta keppnistímabili.  Við höfum séð á bak nokkrum öflugum leikmönnum, meðal þeirra eru: Anton Rúnarsson, Orri Freyr Gíslason, Ingvar Guðmundsson, Sturla Ásgeirsson og Arnar Daði Arnarson.  Þá er ekki ljóst hvort Magnús Einarsson verði með okkur í vetur en auk þess eru Sveinn Aron Sveinsson og Sigfús Sigurðsson að jafna sig á meiðslum, en hvorugur þeirra spilaði með í gærkvöldi.  En við höfum fengið nýja menn til liðs við okkur.  Þeir Lárus Helgi Ólafsson markvörður, Þorgrímur Smári Ólafsson vinstri skytta, Vignir Stefánsson vinstra horn, Ágúst Birgisson lína og Adam Seferovic miðja hafa gengið til liðs við okkur í sumar og haust.  Þess utan eru margir mjög efnilegir strákar úr 2. og 3. flokki farnir að banka þéttingsfast á dyrnar.  Auk fyrrgreindra breytinga í leikmannahópnum er nýr maður í brúnni en hárprúði austurríski landsliðsþjálfarinn, Patrekur Jóhannesson, sem stýrir liðinu í samstarfi við Heimi Ríkharðsson.

Fyrirfram vissi maður ekki hvers var að vænta í fyrsta leik.  Valsstrákum hefur gengið upp og ofan í undirbúningsleikjunum.  Þeir sigruðu á mótinu á Akureyri, urðu í fimmta sæti á Selfossi og tóku silfrið í Reykjavíkurmótinu.  HK liðinu var af einhverjum undarlegum ástæðum spáð falli.  En þeir sýndu það með sex marka sigri á Haukum í meistarakeppni HSÍ að þeir eru til alls annars líklegir en að falla um deild.

Valsmenn skoruðu fyrsta mark leiksins en HK svaraði fljótlega með þremur mörkum í röð.  Fyrri hálfleikur var fremur jafn og munaði sjaldan meira en einu til tveimur mörkum á liðunum.  HK strákar voru yfirleitt fyrri til að skora en Valsmenn jöfnuðu ítrekað.  Það var því í fullu samræmi við gang leiksins að í hálfleik stóð á jöfnu 13-13.

Seinni hálfleikur hófst með sínu markinu frá hvoru liði en þá tók við 10 mínútna kafli sem hafði afgerandi áhrif á úrslit leiksins.  HK liðið skoraði sex mörk í röð án þess að Valsmenn fengu við neitt ráðið.  Patrekur breytti þá í sjö manna sókn sem er fáséð hérlendis um miðjan hálfleik.  Valdimar lék þá í "grímubúningi" yfir treyjunni sinni en Hlynur markvörður mátti bíða á bekknum í sókninni.  Undirritaður fékk léttan hroll við tilhugsunina um tapaða bolta og autt mark.  En merkilegt nokk þá virtist þetta skila einhverju að vísu gerðist það einu sinni að Arnór markmaður HK varði og skaut umsvifalaust yfir allan völlinn og skoraði í autt Valsmarkið.  En þetta virtist samt sem áður auka varkárni Valsstrákanna í sókninni.  Þegar um 10 mínútur voru til leiksloka fékk Þorgrímur í tvígang högg á trýnið sem reitti hann til reiði.  Þá reiði nýtti Þorgrímur sér í leiknum og skoraði fimm af sex síðustu mörkum Vals.  Vel gert!  Fyrir vikið fórum við Valsmenn heim með eitthvað jákvætt til að hugsa um.  En leiknum lauk með öruggum sigri HK 29-23.

Undirritaður er á því að það sé enginn munur á þessum liðum.  HK menn gerðu færri tæknimistök heldur en við og á bak við ágæta vörn þeirra var Arnór Freyr í banastuði og varði yfir 20 skot, af þeim voru nokkuð mörg einn á móti manni.  Það sem var hins vegar dapurlegt að sjá við Valsliðið var aragrúi tæknifeila á borð við mislukkaðar sendingar.  Valsliðið á helling inni og þarf að ná af sér þessum hráa haustbrag hið fyrsta.  Við verðum að átta okkur á því að mótið er hafið og ef við ætlum okkur í úrslitakeppnina verðum við að taka hvern einasta leik alvarlega frá upphafi.

Helstu tölur: Hlynur varði 12 skot, Lárus 4.  Mörk Vals: Þorgrímur 8, Finnur 5, Agnar 4, Valdimar 2, Hjálmar 2, Adam 1 og Gunnar Malmquist 1.

Næsti leikur strákanna er í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda á fimmtudag en þá tökum við á móti FH.  Þangað skulum við fjölmenna og styðja strákana til sigurs.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson

25. september 2012