Valsstúlkur í körfu leika í bleiku í október

Í tilefni átaks Krabbameinsfélagsins í október, Bleiku slaufunnar, hefur kvennalið körfuknattleiksdeildar Vals ákveðið að leggja þessu þarfa málefni lið.  Samhliða undirbúning fyrir komandi keppnistímabil, hafa liðsmenn Vals safnað fé sem rennur til átaksins.  Að auki mun liðið leika í sérhönnuðum bleikum búningum í októbermánuði og þannig með táknrænum hætti koma að því að auka vitund íþróttafólks og annarra á mikilvægi forvarna og heilbrigðis.  Í rúm 100 ár hefur það verið eitt meginhlutverk Vals að auka hreysti hugar og líkama og efla skilning á mikilvægi íþrótta sem forvarna.  Því er það sameiginlegt markmið og verkefni Vals og Krabbameinsfélagsins að stuðla að auknum lífsgæðum og skynsömu líferni.  Það er von okkar Valsmanna og vissa að þessi söfnun og þetta vitundarskref aðstoði Krabbameinsfélagið í mikilvægum verkefnum þess. 

Í þessu samhengi er gott að minnast einkunnarorða Vals: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Ragnar Má Vilhjálmsson frá Íslandsbanka, Ragnheiði Haraldsdóttur formann Krabbameinsfélagsins taka við söfnunarfé frá Valsstúlkunum; Rögnu Margréti Brynjarsdóttir og Lilju Ósk Sigmarsdóttur, nú þegar hefur safnast 420.000 kr. og mun söfnunin halda áfram allan októbermánuð. 

Það er von leikmanna körfuknattleiksdeildar Vals að þetta átak verði hvatning fyrir ungt fólk, stúlkur og pilta, og holl áminning um mikilvægi forvarna.  Þá viljum við þakka styrktaraðila Vals, Íslandsbanka, og þeim fyrirtækjum sem hafa komið að þessu með okkur kærlega fyrir stuðninginn.

Mynd: Siggi Anton

Valskveðja.

Formaður og upplýsingafulltrúi körfuknattleiksdeildar Vals.

Svali H. Björgvinsson