Freyr Alexandersson lætur af störfum

Knattspyrnudeild Vals og Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari mfl. karla og yfirþjálfari yngri flokka, hafa komist að samkomulagi um starfslok þess síðarnefnda hjá félaginu.

Freyr hefur undanfarin ár unnið gott starf fyrir Knattspyrnufélagið Val sem þjálfari mfl kvenna, yfirþjálfari yngri flokka og nú síðast sem aðstoðarþjálfari mfl karla. Aðilar urðu sammála um það á núverandi tímapunkti að slíta samstarfinu og eru Frey færðar þakkir fyrir gott starf í þágu félagsins undanfarin ár. Jafnframt er honum óskað velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Freyr mun á næstu dögum aðstoða við yfirfærslu þeirra verkefna sem hann hefur verið með og snúa að yngri flokka starfi, en hann hefur ásamt ofangreindu sinnt þjálfun 7. flokks karla. Nánari upplýsingar um arftaka hans í þeim störfum verða settar inn á allra næstu dögum.

Freyr vill koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri til allra Valsmanna:

"Ég vil nýta tækifærið og þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með síðastliðin sex ár. Það hafa verið forréttindi að kynnast, vinna með og læra af því góða fólki sem ég hef verið í kringum á tíma mínum hjá Val. Ég vil þakka fyrir þau tækifæri sem Knattspyrnufélagið Valur hefur gefið mér á þessum tíma, mér var treyst fyrir stórum og krefjandi verkefnum sem ég trúi að ég hafi leyst með sóma.

Leikmönnum vil ég þakka fyrir skemmtilega tíma og óska ég þeim öllum velfarnaðar og gæfuríkrar framtíðar.

Ég get ekki sagt skilið við félagið án þess að þakka mínu nánasta starfsfólki fyrir samstarfið, það hefur gefið mér einstaklega mikið að starfa með Betu, Óskari Bjarna, Kristjáni, Gunna, Orra og Þórði Jenssyni . Miklir fagmenn sem skilja mikið eftir sig hjá mér."

Knattspyrnudeild Vals og Freyr Alexandersson.