Magnús Gylfason ráðinn þjálfari meistaraflokks karla

Knattspyrnufélagið Valur réð í dag Magnús Gylfason sem þjálfara mfl karla í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Magnús hefur mikla reynslu af þjálfun og hefur náð góðum árangri með þau lið sem hann hefur þjálfað. Þjálfaraferill  Magnúsar hófst árið 2003 og var hann nálægt því að gera lið ÍBV að Íslandsmeisturum árið 2004 en endaði með liðið í 2.sæti það árið. Magnús Gylfason tók við ÍBV öðru sinni haustið 2011 en hætti óvænt með liðið í sumar þegar liðið var í 2.sæti Pepsídeildarinnar.

Valur varð Íslandsmeistari árið 2007, en síðan þá hefur árangurinn verið nokkuð brokkgengur. Liðið endaði í 8.sæti Pepsídeildarinnar árið 2012 eftir að hafa lent í 5.sæti árið þar á undan. Valur er félag með ríka hefð, mikinn metnað,aga og sigurvilja.  Metnaður Vals hefur ávallt verið að koma sér í þá stöðu að keppa um titla og taka þátt í Evrópukeppni.  Í þá átt verður stefnt á næstu tveimur árum.

Á næstu dögum mun Magnús ásamt stjórn knattspyrnudeildar kanna leiðir til að styrkja leikmannahópinn, en stefnt er að því að ná í þrjá til fjóra góða leikmenn og endurheimta unga Valsmenn sem hafa öðlast reynslu hjá öðrum liðum. Á sama tíma og miklar vonir eru bundnar við komu Magnúsar til Vals og sigurvilji og metnaður ráða för er gott að hafa einkunnarorð séra Friðriks að leiðarljósi.  ,,Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði"

 ,,Að fá Magga Gylfa inn á þessum tímapunkti sem þjálfara Vals er mjög sterkt. Maggi er ákveðinn, með mikla ástríðu fyrir leiknum og er ég sannfærður um að hann nái góðum árangri með Valsliðið"   Þorgrímur Þráinsson fyrrum fyrirliði Vals

,,Maggi Gylfa er kraftmikill og ástríðufullur þjálfari sem ég bind miklar vonir við, gott að fá inn metnaðarfullan þjálfara sem fer með okkur aftur á toppinn"  Jón Gretar Jónsson fyrrum fyrirliði Vals

Áfram Valur