Valsstelpur á siglingu..

Valsstelpurnar hafa byrjað haustið á fljúgandi fart.

Æfingamót Errea var tekið með fullu húsi. Í kjölfar þess lögðu Valsstelpurnar stöllur sínar úr Fram í tvígang, fyrst í Reykjavíkurmótinu og síðan í meistarakeppni HSÍ. Þær eru því jafn ötular og á síðustu misserum við að safna verðlaunum í hús.

Fyrstu þrír leikir N1 deildarinnar eru að baki með öruggum sigrum gegn Fylki, Haukum og Gróttu. Ýmislegt bendir þó til þess að þetta keppnistímabil verði mun jafnara heldur en síðustu tvö þó svo að flestir telji að Fram og Valur muni einu sinni enn takast á um titlana. Valsliðið hefur tekið verulegum breytingum frá síðasta tímabili. Sjö leikmenn frá síðasta tímabili spila ekki með okkur í vetur. Nataly Sæunn Valencia, Arndís María Erlingsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Þórunn Friðriksdóttir, Ágústa Edda Björnsdóttir og Sunneva Einarsdóttir hafa gengið til liðs við önnur lið. Kristín Guðmundsdóttir verður ekki með í vetur. En okkar ástsæla og örvhenta Íris Ásta Pétursdóttir er komin til liðs við okkur að nýju eftir vetrarvist hjá Gjövik í Noregi.

Af þeim sex leikmönnum sem hafa gengið til liðs við önnur lið þá hafa fimm fundið sér lið innanlands en Hildigunnur spilar með Tertnes í Björgvin í Noregi. Þó svo að Valsliðið haldi að mestu byrjunarliði sínu þá er ljóst að brotthvarf þessara leikmanna rýrir hópinn töluvert og breiddin er ekki sú sama og í fyrra. En á móti kemur að einhverjar af stelpunum í þriðja flokki munu fá að "smakka" á meistaraflokksverkefnunum í vetur. En auk þess sem leikmannahópurinn hefur breyst nokkuð þá er kominn nýr maður í þjálfarateymið. En Atli Hilmarsson hefur nýverið samþykkt að starfa með Stefáni að þjálfun liðsins. Þar er kominn margreyndur handboltamaður í hæsta klassa, bæði sem þjálfari og áður sem leikmaður.

Verkefni laugardagsins var að mæta liði Stjörnunnar í Garðabæ. Í liði Stjörnunnar eru nú þær Sunneva og Ágústa Edda sem spiluðu með okkur í fyrra. En Rakel Dögg Bragadóttir var að spila sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarin misseri. Stjörnustelpur hófu leikinn með látum og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Fram í miðjan fyrri hálfleik virtust þær eiga í fullu tré við Valsstelpurnar og voru fyrri til að skora. En þá hrökk Valsliðið í gang og raðaði inn 5 mörkum í röð. Leikur liðsins slípaðist til eftir því sem leið á hálfleikinn og Stjörnustelpurnar voru sannast sagna hálf vandræðalegar þegar Stefán fyrirskipaði indjána-vörnina sem gengur undir heitinu 3-3. Sú vörn gengur út á það að helmingur varnarmanna spilar langt utan punktalínu og eru þar mjög hreyfanlegir.

Stjörnustelpur áttu erfitt með að mæta þessari vörn en til að gera það sómasamlega þurfa sóknarmenn að vera mjög hreyfanlegir og færa sig úr föstum stöðum. En þeir sem eru að skríða saman eftir langvinn meiðsli líkt og a.m.k. tveir leikmenn Stjörnunnar áttu afar erfitt með mæta vörninni í þessum ham. Valsstelpur hertu því tökin og sýndu á köflum alveg ótrúlega flott tilþrif t.d. þegar þær Anna Úrsúla og Dagný geystust í hraðaupphlaup og gripu bæði og sendu boltann á meðan þær voru í loftinu en þeim sirkus lauk með glæsilegu marki frá Dagnýju. Valsstelpur leiddu með fjórum mörkum, 14-10 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst með látum Valsstelpna sem skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Þar með gáfust Stjörnustelpur upp. Valsstelpur skoruðu að jafnaði tvö mörk gegn hverju marki Stjörnunnar og að endingu lauk leiknum með 11 marka sigri Vals, 32-21. Það var gríðarlegur stígandi í leik Vals en að sama skapi fjaraði undan leik Stjörnustelpna. Við spiluðum að venju margvíslega vörn og Jenný var sem klettur að baki varnarinnar og átti oft góðar sendingar fram á Dagnýju sem kláraði færin sín vel.

Helstu tölur: Jenný varði 16 skot og Sigríður 2. Mörk Vals: Þorgerður 11, Dagný 7, Anna Úrsúla 5, Hrafnhildur 3, Rebekka 2, Ragnhildur 2, Karólína 1 og Aðalheiður 1. Næst leika Valsstelpur tvo Evrópuleiki gegn Valencia á Spáni. Við óskum þeim góðs gengis þar syðra og hlökkum til að fá fregnir af því ævintýri. Sigurður Ásbjörnsson