Jafntefli í háspennuleik

Jafntefli í háspennuleik

Pistlahöfundur var hóflega bjartsýnn fyrir leik Vals og ÍR í gærkvöldi.  Lykilmenn okkar hafa verið meiddir undanfarna daga og síðasta viðureign okkar við ÍR í Reykjavíkurmótinu í haust var ekkert sérstaklega ánægjuleg.  Það var ekki fyrr en komið var langt af stað í upphitun að ljóst var að Valdimar Fannar og Þorgrímur myndu vera á leiksskýrslu.   Leikurinn byrjaði heldur ekki sérstaklega vel fyrir okkur þar sem ÍR-ingar komust í 3-0 og það var ekki fyrr en á 8. mínútu sem Valsmenn komust á blað þegar Magnús Einarsson braust í gegnum ÍR vörnina og bombaði í markið.  Við máttum hafa okkur alla við að halda í við ÍR og vorum í sífelldum eltingaleik þar til um 8 mínútur lifðu af fyrri hálfleik.  Þá skoruðum við fjögur mörk í röð og komumst marki yfir en ÍR náði að jafna fyrir leikhlé og staðan var 12 - 12 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst með Valsmarki en ÍR svöruðu með þremur en við drógum á þá og um miðjan hálfleikinn kom mjög góður kafli hjá Valsliðinu sem skoraði 4 mörk í röð.  Á þessum kafla vorum við Valsmenn farnir að gera okkur vonir um að hirða öll stigin þar sem við höfðum þriggja marka forystu.  En því miður gekk það ekki eftir þar sem ÍR-ingar jöfnuðu með þremur mörkum og liðin skiptust á að skora tvö mörk hvort áður en flautað var til leiksloka.  Leiknum lauk því með jafntefli 22 - 22.

Það var mjög margt jákvætt við leik Valsliðsins í þessum leik og augljóst að liðið er á réttri leið.  Þeir Valdimar og Þorgrímur sem áttu jafnvel ekki að spila skoruðu saman 10 mörk og munar um minna.  Hlynur varði frábærlega og Lárus leysti hann af í tveimur vítum og varði annað þeirra.  Gunnar Malmquist byrjaði í vörninni sem indjáni fyrir utan í 5-1 vörn.  Þar stóð hann, hallaði sér fram með opinn faðminn svo ekki var ljóst hvort hann ætlaði að leggja til ÍR-inganna í Súmó-glímu eða stubbaknúsi.  Það er frábært að fylgjast með þessum unga strák úr þriðja flokki með sína frábæru fótavinnu og árvekni.  Fúsi átti sennilega sinn besta leik í haust, algjör klettur í vörninni eins og við þekkjum hann þegar hann er í sínu besta standi.  Þá voru fengu þeir Agnar Smári og Finnur Ingi það hlutverk að taka Björgvin Hólmgeirs úr umferð og leystu þeir það með prýði.  Enda fullt tilefni til því það verður að játa að Björgvin hefur átt glimrandi byrjun í haust.  Agnar Smári er annar strákur sem er að taka miklum framförum.  Aggi er í 2. flokki en hefur fengið að spila mikið með meistaraflokki í haust.  Patrekur virðist vera að vinna vel með Agnar því hann er nú þegar orðinn mun agaðari leikmaður heldur en fyrstu haustleikjunum.

Næsti leikur Valsstrákanna er gegn Akureyri fyrir norðan þann 8. nóvember.  Það eru því um tvær vikur til stefnu og veitir ekki af hvíldinni til að fækka á sjúkralistanum.

En sem fyrr segir þá er Valsliðið ótvírætt að bæta leik sinn og því verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum.

Helstu tölur: Hlynur varði 18 skot, Lárus 1 víti.  Mörk Vals: Þorgrímur 6, Agnar 4, Valdimar 4, Finnur Ingi 3, Atli 2, Gunni Harðar 1, Vignir 1 og Magnús 1.

Áfram Valur!

 

Sigurður Ásbjörnsson

26. október 2012