Björgólfur Takefusa gengur til liðs við Val

Björgólfur Takefusa gekk til liðs við Valsmenn í dag og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Björgólfur sem var samningsbundin Víkingum út næsta tímabil komst að samkomulagi við þá um að losna undan samningi þar sem metnaður hans er að spila í Pepsi deildinni.

Björgólfur sem á þrjá A- landsleiki að baki er einn af allra bestu framherjum á Íslandi á síðari tímum og markaskorari af guðs náð. Hann hefur skorað 111 mörk í 225 leikjum eða mark í nánast öðrum hverjum leik og eru þá ekki taldir leikir í Reykjavíkurmóti eða Lengjubikar. Björgólfur sem hefur skorað ófá mörkin á Vodafonevellinum, og ætlar að halda því áfram, varð markakóngur í deildinni árið 2009 með 16 mörk. Seinustu þrjú tímabil hefur Björgólfur skorað 20 mörk í deild og bikar þrátt fyrir að hafa verið nokkuð frá vegna meiðsla.

Nokkuð mörg lið höfðu áhuga á því að fá Björgólf til liðs við sig, en eftir fund með Magnúsi Gylfasyni þjálfara liðsins þar sem farið var yfir liðið, umgjörð, þjálfun og fleira varð ákvörðunin mjög auðveld.

Með tilkomu Björgólfs kemur í Valsliðið leikmaður sem býr yfir mikilli reynslu sem á eftir að nýtast félaginu og hinum mörgu ungu leikmönnum Vals vel á komandi leiktíð.