Öruggt gegn Haukum

Valsstelpurnar hafa byrjað nýja árið á fljúgandi ferð.  Það hófst með því að Fylkisstúlkur voru kafsigldar og síðan voru bláklæddu grannarnir úr Safamýrinni teknir í bakaríið um síðustu helgi. 

Í gærkvöld litu þær við stöllur okkar úr systurfélaginu sunnan úr Hafnarfirði.  En hið unga lið Hauka er í áttunda sæti N1 deildarinnar.  Í Valsliðinu hefur orðið smá breyting á hópnum.  Rebekka Rut hefur dregið sig í hlé, a.m.k. í bili, en Drífa systir hennar er komin til liðs við hópinn eftir nærri fjögurra ára hlé frá handbolta. 

Haukastelpur voru greinilega ákveðnar í því að láta Íslandsmeistarana hafa fyrir hlutunum og fyrstu mínúturnar virtust þær ætla að hanga í Valsliðinu.  En um miðjan fyrri hálfleik skoruðu Valsstelpurnar 7 mörk gegn 1 marki Hauka.  Þar með komust Valsstelpurnar í þægilega forystu sem þær héldu allt til loka.  Sami munur var á liðunum í hálfleik (18 - 12) og í leikslok (32 - 26) en þegar líða tók á leikinn var obbinn af byrjunarliðinu kominn á bekkinn en restin af liðinu bar uppi spil liðsins.

Athygli vakti að þær Ragnhildur Rósa, Anna Úrsúla, Hrafnhildur, Þorgerður, Heiða og Dagný stöðvuðu beint 21 skottilraun Hauka ýmist með hávörn, fyrirstöðu á skothendi eða skrokk Haukastelpna.  En öftustu varnarmennirnir (oft kallaðir markmenn) vörðu 20 skot.  En Jenný spilaði í 50 mínútur en Sigríður í 10.  Þar af varði Jenný annað af tveimur vítum Hauka.

Líkt og að ofan var getið var Drífa að spila sinn fyrsta handboltaleik eftir langt hlé.  Það er hins vegar augljóst mál að hún hefur ekki legið hreyfingarlaus á meltunni í hléinu.  Hún er greinilega í góðu líkamlegu standi.  Spilar vörnina eins og góður danskur varnarmaður sem fjaðrar á fótunum og er á sífelldri ferð inn og út úr vörninni og kom með því miklu hiki á sóknarleik andstæðinganna.  Drífa þarf vissulega að þjálfa upp boltameðferðina en ef marka má það sem til hennar sást í gær þá verður hún fljót að því.  Í stuttu spjalli eftir leikinn sagðist hún hafa verið dugleg að hlaupa eftir að hún hætti að spila handbolta. 

Dagný sýndi í gærkvöldi ótrúleg tilþrif þegar hún skoraði tvö sirkusmörk á sömu mínútunni í fyrri hálfleik.  Vörnin vann boltann og Dagný rauk eins og flugeldur fram völlinn, stökk upp og inn í teig Hauka.  Þar greip hún boltann í loftinu (sem virtist í fyrstu mislukkuð sending), skaut og skoraði.  Sóknirnar voru nánast eins, og þeim lauk báðum með glæsilegu marki.

Þá var það sérstaklega ánægjulegt að sjá 16 ára stelpu úr þriðja flokki þreyta frumraun sína á vellinum með meistaraflokki.  En Vigdís Birna Þorsteinsdóttir spilaði síðustu mínútur leiksins bæði í vörn og sókn.  Vigdís er harður nagli sem á örugglega eftir að láta mikið að sér kveða á handboltavellinum í framtíðinni.  En þær Guðrún Lilja og Bryndís Wöhler sem einnig eru í þriðja flokki spiluðu líka síðustu mínútur leiksins.

Helstu tölur:  Jenný varði 19 skot og Sigríður 1.  Mörk Vals: Hrafnhildur 10, Þorgerður 7, Dagný 5, Ragnhildur 3, Anna Úrsúla 2, Íris Ásta 2, Karólína 1, Aðalheiður 1 og Drífa 1.

Næst leika Valsstelpur gegn Gróttu vestur á Nesi á laugardaginn.  Þangað skulum við mæta og styðja þær til sigurs.

Sigurður Ásbjörnsson