Tæpt á Nesinu - Pistill

Undirritaður elti Valsstelpurnar vestur á Seltjarnarnes á laugardag til að fylgjast með þeim í leik gegn Gróttu.  Fyrirfram var reiknað með fremur öruggum sigri Vals þar sem liðið hefur spilað mjög vel að undanförnu en Grótta er um miðja deild og þykir ekki líklegt til afreka.

Til að byrja með virtust Valsstelpur ætla að fylgja spám þar sem þær náðu strax undirtökunum og voru komnar með fimm marka forystu í hálfleik, 11 - 16.  Seinni hálfleik hófu þær á fullri ferð og komust í sjö marka forystu.  En þá tóku Gróttustelpur við sér og skoruðu sex af næstu sjö mörkum og skyndilega var leikurinn orðinn spennandi þar sem staðan var 19 - 17.  Barningurinn og spennan héldu allt til leiksloka en því er ekki að neita að við Valsarar í stúkunni vorum komnir með gæsahúð í lokinn þar sem Grótta skoraði tvö síðustu mörkin og munurinn kominn niður í eitt mark.  Gróttustelpur eygðu von um að krækja í stig og börðust eins og ljón en Valsvörnin kom í veg fyrir að þeim tækist það ætlunarverk sitt.  Leiknum lauk því 23 - 24 fyrir Valsstelpum.

Það var margt sem fór úrskeiðis hjá Valsstelpunum í þessum leik.  Anna Úrsúla spilaði ekki í þessum leik og það munar vitaskuld um það þegar langbesti varnarmaður deildarinnar er fjarri góðu gamni.  En Heiða (Aðalheiður Hreinsdóttir) tók við hlutverki hennar í vörn og sókn og stóð sig óaðfinnanlega.  Það er búið að vera virkilega gaman að fylgjast með því hversu Heiða hefur vaxið sem leikmaður, sérstaklega í vörn.  En líkt og tölurnar benda til þá var mýmargt sem fór úrskeiðis hjá okkur.  Það var mikið um langar sendingar sem rötuðu ekki í réttar hendur þegar við brunuðum í hraðaupphlaup.  Við fengum sex víti en skoruðum ekki úr fyrstu fjórum, en Grótta var með 100 % nýtingu úr sínum fimm vítum.  Ragnhildur Rósa sem hefur verið mjög vaxandi og nýtin í sóknarleiknum í byrjun árs átti fjögur eða fimm skot úr uppstökkum í þverslá og þaðan fór boltinn upp í rjáfur.  Mörkin sín skoraði hún úr undirhandarskotum.  Þorgerður Anna var tekin úr umferð frá fyrstu sókn Valsstelpna og skoraði hún ekki eitt einasta mark í leiknum.  En þó svo að Valsliðið hafi verið langt frá sínu besta þá er engin ástæða til að gera lítið úr frammistöðu Gróttustelpna.  Í þeirra hópi hafði Íris Björk Símonardóttir algjöra yfirburði þar sem hún átti mjög góðan leik í markinu og varði 17 skot.  Mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé í fyrsta skipti í tvö ár þar sem undirritaður verður vitni að því að markmaður andstæðinganna ver meira en Valsmarkmaður í leik.

En vonandi er þessi leikur viðvörun til Valsstelpna um að værukærð má ekki eiga sér stað.  Leikirnir vinna sig ekki sjálfir.  Ef við erum ekki einbeittar þá getum við hæglega tapað fyrir flestum liðum deildarinnar.  Ég ætla rétt að vona að við náum fullri einbeitingu fyrir leikinn gegn Stjörnunni sem er á dagskrá næsta laugardag 26. janúar kl. 13:30.  Ég minni á að lykilmenn Stjörnunnar hafa verið að ná sér á strik eftir meiðsli og veikindi.  Við verðum því allar að vera á tánum til að klára þann leik með sæmd.

Helstu tölur:  Jenný varði 12 skot.  Mörk Vals: Hrafnhildur 8, Dagný 6, Karólína 4,  Ragnhildur 3 og Aðalheiður 3.

Sigurður Ásbjörnsson