Tap fyrir Stjörnunni - pistill

Það er góður íslenskur siður að taka vel á móti aðkomufólki.  Við bjóðum því inn úr kuldanum, sæti í stofunni og sjáum til þess að mannskapurinn sé hvorki þyrstur né svangur.  Gestrisni umfram þetta er mjög breytileg á milli manna og í einhverjum tilfellum getur maður sagt að gestrisnin sé meiri en góðu hófi gegni.  Það er a.m.k. skoðun mín á háttalagi Valsstelpna þegar þær fengu stöllur sínar úr Garðabæ í heimsókn á laugardaginn.  Stjarnan á svosem allt gott skilið.  Í liðinu eru stöllur úr landsliðinu og tveir fyrrum leikmenn Vals.  Auk þess sem helmingur þjálfarateymisins er skipað afkomendum okkar ástsæla Gunnsteins Skúlasonar.  En Gunnsteinn var lykilmaður í Valsliðinu fyrir ca. 40 árum.

Frá upphafi voru Stjörnustelpur ákveðnar í því að hefja leikinn af krafti og reyna að koma Valsliðinu í bobba strax í byrjun.  Það gekk eftir þar sem þær náðu fjögurra marka forystu strax eftir um 8 mínútna leik en þar með var tónninn gefinn.  Staðan í hálfleik var 8 - 12 fyrir Stjörnuna.  Valsstelpur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og jöfnuðu þar með leikinn en það kom fyrir lítið þar sem Stjarnan hirti forskot sitt umsvifalaust til baka með fjórum mörkum í röð.  En síðustu 20 mínúturnar náði Valsliðið í þrígang að minnka muninn í eitt mark en Stjarnan sleppti ekki tökunum og innbyrti verðskuldaðan þriggja marka sigur 24 - 27.

Því miður var Valsliðið langt frá sínu besta í þessum leik.  Hrafnhildur bar af í sókninni þrátt fyrir að hafa verið fremur sein í gang (fyrsta mark hennar kom rétt áður en hálfleiksflautið gall).  En í vörninni var Anna Úrsúla sú eina sem var sjálfri sér lík.  Ég hef lengi verið á því að velgengni Valsstelpna byggi öðru fremur á góðum varnarleik.  En hann felst í miklum hreyfanleika þar sem stelpurnar para sig saman gegn þeim sóknarmanni sem er með boltann hverju sinni og að baki þessari vörn hefur Jenný staðið eins og klettur.  En því miður var varnarleikurinn ekki jafn samstilltur og við eigum að venjast.  Þar breytti litlu hvort við spiluðum 5-1 eða 6-0 vörn.  Einhverjir sakna þess að 3-3 vörninni var aldrei beitt í þessum leik en ég efins um að hún hefði nokkru breytt gegn mjög hreyfanlegum sóknarleik Stjörnunnar.  En fyrir utan fremur lélegan varnarleik þá var sóknarleikur okkar mjög dapurlegur.  Lykilmenn voru fjarri sínu besta og ég hef ekki tölu á þeim fjölda skota sem hittu ekki einu sinni á rammann.  En einnig var fáránlega mikið um skottilraunir sem voru andvana fæddar þar sem einbeitingarleysi fékk menn til að reyna markskot án þess að vera í almennilegu færi.

Ég ætla rétt að vona að Valsstelpurnar nái einbeitingunni á rétt ról fyrir næsta leik.  En það er stórleikur Fram og Vals í Safamýrinni fimmtudaginn 31. janúar kl. 19:30.  Þangað skulum við fjölmenna og hvetja stelpurnar til dáða og hirða bæði prikin úr þeim leik.

Helstu tölur:  Jenný varði 16 skot, þar af 1 víti.  Mörk Vals: Hrafnhildur 7, Anna Úrsúla 5, Dagný 4, Karólína 3, Þorgerður 2, Ragnhildur 2, og Íris Ásta 1.

Sigurður Ásbjörnsson