Ólafur Stefánsson tekur við Val

 

Handknattleiksdeild Vals er mikil ánægja að tilkynna um ráðningu nýs þjálfara, Ólafs Indriða Stefánssonar, fyrir komandi leiktímabil og er samningurinn til tveggja ára.

Ólafur Indriði Stefánsson er uppalinn leikmaður að Hlíðarenda og snýr hann nú heim að loknum 16 ára glæsilegum ferli sem atvinnumaður. Á ferli sínum hefur Ólafur unnið til meistaratitla á Íslandi, í Þýskalandi, á Spáni og Danmörku auk þess að vera margfaldur Evrópumeistari. Þá er landsliðferill Ólafs einstaklega glæsilegur þar sem hann var um árabil fyrirliði landsliðsins og átti afar stóran þátt í velgengi þess á liðnum árum. Ólafur hefur fjórum sinnum verið kjörin íþróttamaður ársins.

Aðalstarf Ólafs verður þjálfun meistaraflokks karla en hann mun einnig koma að þjálfun annarra flokka hjá félaginu sem og uppbyggingu og útbreiðslustarfs í öðrum greinum.

Ólafur hefur mjög ákveðnar hugmyndir um uppeldismál, almenna lýðheilsu og handbolta auk afreksíþrótta og hyggst Valur nýta sér þessa reynslu og áhuga Ólafs á sem breiðustum grunni til uppbyggingar á æskulýðs- og afreksstarfi hjá félaginu.

Ólafur verður öðrum handknattleiksþjálfurum Vals til aðstoðar og er ráðning hans liður í langtíma uppbyggingu hjá félaginu. Valur er með sterkan kjarna ungra leikmanna sem félagið vill byggja upp framtíðarlið í kringum á komandi árum.

Eins og fram hefur komið mun Patrekur Jóhannesson láta af störfum hjá Val að loknu yfirstandandi tímabili. Handknattleiksdeild Vals þakkar Patreki fyrir gott starf í þágufélagsins og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á tímabilinu sem nú stendur sem hæst.

Með vinsemd og virðingu,

stjórn handknattleiksdeildar Vals