Snilldarframmistaða, pistill

Við vorum ekkert að burðast með of mikla bjartsýni stuðningsmenn Vals þegar við mættum í Safamýrina í gærkvöldi. Tveir síðustu leikir gáfu a.m.k. ekkert tilefni til þess. Líkamlegt stand á nokkrum lykilmönnum hefur ekki verið upp á það besta. Þá jók það ekki á bjartsýnina að koma í Framheimilið og sjá Önnu Úrsúlu sitja eins og sjóræningja á bekknum með lepp fyrir auga (páfagaukinn vantaði reyndar á öxlina), augljóslega ekki að fara að spila. En það vakti engu að síður smá gleði að sjá Kristínu Guðmunds í hópnum og ekki síður að sjá Heiðdísi öðru vísi klædda en hún hefur verið um langa hríð. Undirritaður er ekki í hlutverki tískulöggunnar að fetta fingur út í fatnað íþróttafólks eða annarra. En þegar íþróttamaður birtist á stuttbuxunum eftir að hafa varið meira en ár í burtu vegna beinbrots og sinaslits þá samgleðst maður innilega.

Eftir að bæði lið höfðu klúðrað nokkrum sóknum í byrjunartaugaveikluninni voru það Valsstelpur sem skoruðu fyrstu tvö mörkin og náðu þægilegri forystu eftir fyrsta korterið, 6 - 2. En þá komu fimm mörk í röð frá Framstelpum sem kom þeim marki yfir, 6 - 7. En þetta var í eina skiptið sem Fram komst yfir í leiknum. Lítið var skorað í fyrri hálfleik en við leiddum með einu marki, 10 - 9.

Í seinni hálfleik byrjuðu Fram stelpurnar á því að jafna leikinn, en síðan ekki söguna meir. Tvær þriggja marka seríur frá Valsstelpum komu liðinu í þægilega sex marka forystu. Þó svo að Framarar hefðu náð að skora þrjú mörk í röð þegar tíu mínútur lifðu af leiknum náðu þær aldrei að minnka muninn niður fyrir þrjú mörk. Leiknum lauk með afar verðskulduðum sigri Vals 27 - 22.

Leikir Fram og Vals hafa verið bæði spennandi og skemmtilegir á undanförnum árum. Þessi leikur var þar engin undantekning. Valsliðið kom mjög skemmtilega til baka eftir að hafa verið í smá lægð í síðustu tveimur leikjum.

Jenný varði eins og berserkur og átti þess utan nokkrar góðar sendingar fram völlinn sem rötuðu beint í lúkurnar á Dagnýju sem skoraði grimmt. Besta dæmið um ákafann og kappsemi Valsliðsins sást á litlu atviki á miðjum velli þar sem Dagný var í baráttu við Frammara um að grípa langan bolta. Hvorug þeirra greip í fyrstu tilraun og boltinn datt á gólfið. Dagný stakk sér á eftir boltanum og Framarinn einnig. Hvorug náði að grípa, en Dagný sló boltann til hliðar en of langt til að ná að halda honum. Þá tók hún það til bragðs að rúlla sér á ógnarhraða eins og kefli þar til hún náði boltanum. Þar sat hún með boltann gaf á næstu Valsstelpu og við á fulla ferð í sókn. Þetta vakti mikla aðdáun okkar stuðningsmanna í stúkunni og fólk reis klappandi á fætur.

Fleiri aðdáunarverð atvik má nefna eins og þegar Íris Ásta fór á ógnarhraða innst inn úr hægra horninu eftir sendingu frá Karólínu. Þetta leist mér ekkert á enda færið fáránlega þröngt. En Íris var ákveðinn að klára sitt færi og bombaði í markið líkt og við sáum Lindberg gera nokkrum sinnum á HM.

En þessi sigur er ekki einasta sigur þeirra stelpna sem ég nafngreindi hér að ofan. Því fer fjarri. Þetta var sigur liðsheildar þar sem samvinnan í vörninni, einbeitingin í allri spilamennsku og kappsemi alls hópsins var til fyrirmyndar. Það sást líka að lundin léttist eftir því sem leið á leikinn og það tók sig upp gamalt bros! Það var gaman að verða vitni að því.

Helstu tölur: Jenný varði 22 skot, þar af 1 víti. Mörk Vals: Dagný 9, Þorgerður 2, Hrafnhildur 4, Ragnhildur 4, Heiða 2, Karólína 1 og Íris Ásta 1.

Næsti leikur stelpnanna er þriðjudaginn 5. febrúar á Selfossi í bikarkeppninni. En áður en að því kemur skulum við fylgjast með og hvetja strákana áfram gegn ÍR í Austurbergi.

Sigurður Ásbjörnsson