Tap eftir háspennuleik

N1-deild karla er aftur komin af stað eftir sjö vikna hlé vegna Heimsmeistaramótsins í handbolta. Valsliðið hefur tekið nokkrum breytingum frá því að við sáum til þeirra í síðasta leik á aðventunni. Orri Freyr er kominn heim frá Viborg, Fannar Þorbjörns sótti æfingadótið sitt inn í geymslu og til liðs við okkur er kominn 29 ára gamall Serbi, Nikola Dokic. Það hefur verið nokkur eftirvænting í okkar hópi til þessa stráks. Hann minnir í fljótu bragði á króatíska snillinginn Ivano Balic með hrafnsvart, alskegg og axlarsítt hár, rúmlega meðalmaður á hæð og þreklega vaxinn. Handboltamenn sem líta þannig út auka umsvifalaust á væntingar áhorfenda. Verkefni dagsins var viðureign gegn ÍR í Austurbergi.

Fyrstu mínútur leiksins virtust sem allar væntingar okkar Valsmanna væru á leið út í veður og vind. ÍR-ingar skoruðu fyrstu þrjú mörkin en það var Nikola sem kom okkur á blað en þeir Valdi og Svenni fylgdu í kjölfarið og jöfnuðu leikinn. Þannig hélt leikurinn áfram til hálfleiks, liðin skiptust á að skora ýmist eitt eða tvö mörk. En alltaf voru ÍR-ingar fyrri til að skora. Í hálfleik stóð jafnt, 13 - 13.

Seinni hálfleikur hófst rétt eins og sá fyrri með frumkvæði ÍR-inga sem skoruðu fyrstu tvö mörkin. En áfram hélt baráttan og eftir ca. 10 mínútna leik skoruðu Valsmenn þrjú mörk í röð og komust í fyrsta skipti yfir í leiknum, 18 - 17. Þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum hófst annar flottur kafli Valsstráka þar sem þeir skoruðu fjögur mörk í röð. Staðan var orðin 24 - 22 fyrir Val og rétt rúmar 3 mínútur til leiksloka. En þá hófst mikill darraðadans. Við þurftum að horfa á bak Valda og Nikola sem fengu brottvísun fyrir að því er virtist fremur litlar sakir. En ÍR-ingar skoruðu þrjú síðustu mörkin þegar við fórum fremur illa út úr síðustu sóknum okkar en þeir örvhentu félagar Aggi og Svenni fengu dæmdan á sig ruðning. Það verður ekki tekið af Björgvini Hólmgeirssyni að lokamarkið sem hann skoraði fyrir ÍR var mjög glæsilegt en þá slapp hann úr gæslu okkar, hljóp út á hægri vænginn, stökk hátt upp og bombaði óverjandi í vinkilinn fjær.

Þó svo að Björgvin hafi reynst ÍR drjúgur á lokasekúndunum þá er ég á því að munurinn á liðunum hafi ráðist af tvennu öðru. Annars vegar frábærri frammistöðu Sebastians Alexanderssonar í marki ÍR. En hann varði m.a. tvö víti og fjölda af skotum þar sem sóknarmenn Vals voru einir á móti markmanni. Hitt atriðið er samhæfing lykilmanna í Valsliðinu, þ.e. einkum þeirra Nikola á miðjunni og Orra á línunni, en þeir eru eins og ég gat um í upphafi nýkomnir til liðs við liðið og eiga eftir að ná samhæfingu við restina af liðinu. Þó svo að Orri sé uppalinn í okkar herbúðum og hafi leikið með okkur fram til síðasta vors þá hefur Valsliðið tekið það miklum breytingum að það þarf meiri tíma til að ganga í takt við liðið eins og það er skipað núna. Hæfileikarnir eru til staðar hjá þeim sem og Fannari varnarkappa. Nikola er flottur sóknarmaður, skottæknin er fjölbreytt, hann er skrattanum skotfastari, mjög lipur í hreyfingum og á allan hátt heillandi sóknarmaður. Ungir strákar úr fjórða flokki sem sátu við hlið mér supu hveljur þegar Nikola sneri baki í vörnina en sendi blinda bakhandarsendingu á Gunna Malmquist inn á línunni og Gunni skoraði. Sendingin töfrum líkust og glæsilega klárað hjá Gunna.

Liðið á eingöngu eftir að bæta sig en það verður að fá hvatningu og stuðning frá okkur stuðningsmönnunum. Við verðum að sýna þeim þolinmæði en jafnframt að halda þeim við efnið.

Helstu tölur: Hlynur varði 6 skot, Lárus 11 og þar af 1 víti. Mörk Vals: Valdimar Fannar 6, Nikola 6, Finnur Ingi 2, Gunnar Malmquist 2, Vignir 2, Sveinn 2, Agnar 1, Gunni Harðar 1, Þorgrímur 1 og Orri 1.

Næsti leikur strákanna er í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda gegn Akureyri fimmtudaginn 7. febrúar kl. 18:00 en fyrst spila stelpurnar þriðjudaginn 5. febrúar á og gegn Selfossi í bikarkeppninni.

Sigurður Ásbjörnsson