Mosfellingar teknir í bakaríið - pistill

Það reikna flestir með auðveldum sigri toppliðsins þegar það fær liðið í 10. sæti í heimsókn. En það er ekki á vísan á róa og slíkar viðureignir verða helst spennandi ef toppliðið vanmetur andstæðinga sína algjörlega eða missir einbeitinguna. Dæmigerður leikur af slíkum toga hefst með flugeldasýningu toppliðsins sem nær öruggri forystu í fyrri hálfleik en slakar á í þeim seinni, hvílir kanónurnar en leyfir lítt reyndum leikmönnum að spila stærstan hluta seinni hálfleiks. Leikur kvöldsins gegn Aftureldingu var ekki alveg samkvæmt þeirri uppskrift.

Stelpurnar úr Aftureldingu náðu forystu í upphafi leiks með því að skora fyrsta markið. En Valsstelpur ætluðu sér ekki að vekja hjá þeim neinar falsvonir og svöruðu því með fjórum mörkum í röð. Nokkurn veginn með þeim mun spilaðist fyrri hálfleikur til enda og Valur leiddi 14 - 10 í hálfleik.

Fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiks voru á svipuðum nótum. Valsstelpur með frumkvæðið og juku lítillega við forskotið. En þá tók við 19 mínútna kafli sem var algjörlega í eigu Valsstelpna. Við skoruðum 15 mörk í röð án þess að Mosfellingar næðu að svara. Það sem er enn ótrúlegra er að við vorum tveimur mönnum færri um tíma. Það var ekki fyrr en á 25. mínútu sem Afturelding náði að skora en þá var munurinn orðinn 20 mörk! En það sem eftir lifði náðum við að bæta enn í sóknina og leiknum lauk 37 - 16.

Í kvöld var það Ragnhildur Rósa sem fór hamförum í sókninni. Hún skoraði 10 mörk auk þess sem hún spilaði vel í vörninni og var alltaf opin fyrir línuspili. Ég gaf mér nokkurn tíma í kvöld til að bera þær saman Hrafnhildi og Ragnhildi. Þær eru báðar gæddar þeim hæfileikum að vera mjög góðar skyttur, opnar fyrir línuspili (báðar áttu þrjár stoðsendingar í kvöld) og síðan eru þær kröftugar návígisvarnarmenn. Með því á ég við að þær fara sjaldnast í stökkkeppni við andstæðinga sína þegar þær spila vörn eða eru á fleygiferð í framliggjandi vörn. Þeirra styrkleiki er öðru fremur að takast á við andstæðingana í návígi. Þar eru þær sterkar og báðar eru mjög duglegar að hjálpa næsta manni í vörninni. Það er því gott að spila með þeim báðum. Engu að síður eru þær nokkuð ólíkar sóknarlega. Hrafnhildur er mun hraðari og uppstökkari en Ragnhildur en Ragnhildur er með mun fjölbreyttari skotstíl, með sín undirhandar- og stöðuskot að viðbættum uppstökkunum. Helst finn ég það að Ragnhildi að hún hefur verið fullárásargjörn við markslárnar í síðustu leikjum. Saman eru þær einfaldlega frábærar. En í kvöld var fleira sem gladdi okkur í stúkunni. Heiða spilaði afar vel allan leikinn. Í fyrri hálfleik spilaði hún línu og skoraði 2 mörk en í þeim seinni spilaði hún í hægra horninu og skoraði 4 mörk. Þess utan er Heiða ört vaxandi varnarmaður, bæði kvik í hreyfingum þar sem hún les andstæðingana afar vel auk þess sem hún er sífellt öflugri í návígum. En síðan voru þær frábærar í markinu báðar tvær, Jenný og Sigríður. Jenný spilaði megnið af leiknum en Sigríður reyndist Mosfellingum ekkert lamb að leika við þessar mínútur sem hún spilaði. Nýi leikmaðurinn okkar, Sonata Viunajte, er mjög líkamlega sterk en á eftir að komast í betra leikform. Hún skoraði eitt mark og tók hressilega á andstæðingum okkar í vörninni. Þá var ánægjulegt að sjá þær Bryndísis og Morgan koma inná undir lok leiksins og skora tvö mörk hvor, en þær eru báðar að spila með þriðja flokki Vals.

Það óhapp varð í leiknum í kvöld að Íris lenti í samstuði við leikmann Aftureldingar og varð að fara af velli með krambúlerað hné. Við vonum vitaskuld að ekkert alvarlegt hafi gerst og að Íris nái fullri heilsu sem fyrst og óskum henni því góðs bata.

Helstu tölur: Jenný varði 18 skot, þar af 2 (bæði) víti(n sem Afturelding fékk), Sigríður kom inn á þegar skammt var eftir og varði 3 skot. Mörk Vals: Ragnhildur 10, Heiða 7, Hrafnhildur 6, Dagný 5, Karólína 3, Morgan 2, Bryndís 2, Drífa 1 og Sonata 1.

Næsti leikur stelpnanna er ekki fyrr en þriðjudaginn 19. febrúar á Hlíðarenda gegn Selfossi. En ástæða þessa hlés er sú að Valur situr hjá í næstu umferð í deildinni.

Sigurður Ásbjörnsson