Fimmta jafnteflið

Það er enginn leikur auðveldur og hvorki unninn eða tapaður fyrirfram í N1-deild karla. Ef einhver leikmaður heldur að úrslitin séu ráðinn fyrirfram þá vildi ég ekki sjá þann leikmann í mínu liði. Leikur Valsstráka gegn HK á fimmtudagskvöldið var gott dæmi um spennuna sem er í hverjum einasta leik.

Okkar ástkæri Þorbjörn Jensson var með Heimi Ríkharðssyni við stjórn liðsins öðru sinni. En það fer ekki á milli mála að nýjir menn hafa lagt sitt handbragð á spil liðsins.

Valsliðið mætti kappsfullt til leiks og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins. Staðan var því 4 - 1 eftir fimm mínútur en þegar upp var staðið reyndist þetta mesti munur á liðunum í leiknum. Kópavogsstrákar jöfnuðu og þegar haldið var til búningsherbergja í leikhléi var staðan 11 - 11. Staðan segir allt sem segja þarf um hálfleikinn. Hann var hnífjafn, spennandi og einkenndist af löngum sóknum og öflugum varnarleik beggja liða.

Sama stríðið hélt áfram í seinni hálfleik. Liðin skiptust á að skora eitt til tvö mörk í senn þar sem þau skiptust á frumkvæðinu og munurinn var aldrei meiri en tvö mörk. Síðustu sjö mínúturnar voru æsispennandi þar sem við vorum marki yfir en fengum síðan á okkur tvö og taugarnar algjörlega titrandi. Við skorum. HK skorar. Fimm sekúndur eftir við eigum fríkast. Atli Már kominn inn á sem sjöundi maður í sókn. Hvað eru þjálfararnir að hugsa? Á að senda ískaldan mann til að klára leikinn? Atli hafði ekki komið inn á fyrr en í lokin. Hvaða bull er í gangi? Fríkastið tekið, strákarnir láta boltann ganga eins og þetta sé fríkast í miðjum leik og nægur tími til stefnu. Við erum að tapa þessu hugsaði undirritaður. En þá kemur Finnur á fleygiferð, fær boltann hleypur langt til vinstri vel fyrir utan HK vörnina, stekkur upp og bombar efst í hægra hornið. Um leið og glamrið heyrist í innri stönginni glymur lokaflautið og framlengist síðan í gleðiöskri leikmanna og stuðningsmanna. Vel gert Finnur.

En þessar lokasekúndur leiða hugann að leik okkar gegn ÍR í Austurbergi þar sem ÍR-ingar skoruðu sitt sigurmark með svipuðum hætti gegn okkur. En næsta verkefni okkar er einmitt gegn ÍR í Austurbergi á mánudagskvöldið. Við þurfum á öllu okkar að halda í þeim leik og verðum að halda út allan leikinn og ekki láta slá okkur niður með flautumarki.

Margir Valsmenn voru mjög ósáttir við dómarana í lokin og töldu að þeir hefður átt að dæma tvígrip á HK. Um það atvik var sagt í sjónvarpsfréttum "og höfðu Valsmenn talsvert til síns máls."

Undirritaður ætlar ekki að blanda sér í þá umræðu en bendir á að það er skynsamlega að eyða orkunni í þá hluti sem maður getur sjálfur breytt, fremur en að láta hluti sem maður hefur enga stjórn á sjálfur setja sig út af laginu.

Þessu til áréttingar bendi ég neikvæð atvik í leik okkar Valsmanna:

  • Hornamenn okkar fóru á sömu mínútunni í tvígang inn úr sitt hvoru horninu og skutu framhjá, án þess að það færi í markmann eða svo mikið sem stöng.
  • Þrisvar var blússað inn úr hægra horninu og skotið á sama stað á markmann HK sem varði í öll skiptin.
  • Tvisvar var skotið úr dauðafæri í fastafótinn á HK markmanninum (fasti fóturinn er vitaskuld sá fótur sem staðið er í).
  • Sóknarmaður HK fékk þriðjung af teignum til að athafnasig þegar við vorum einum fleiri.

En ekki ætla ég að mála skrattann á vegginn því Valsliðið á skilið hrós fyrir ýmislegt:

  • Svenni tók sex víti og skoraði úr öllum!
  • Varnarleikurinn er flottur. Menn eru mjög hreyfanlegir og duglegir að elta mennina sem mæta á þá í vörninni. Áður voru menn mjög staðir.
  • Skottæknistrákarnir þeir Nikola og Valdimar Fannar voru flottir í sókninni.
  • Orri kemur mjög á óvart með því að geta spilað svo framarlega í 4 - 2 vörninni. Ég hef alltaf litið á Orra sem klett á línunni en hann á margt fleira í pokahorninu.
  • Lokamark eins og það sem Finnur skoraði einkennir mann sem er með viðhorfið á réttu róli.

Helstu tölur: Hlynur varði 3 skot, Lárus 13. Mörk Vals: Nikola 6, Svenni 6, Valdimar Fannar 4, Finnur Ingi 3, Orri 3, Þorgrímur 2, Gunnar Malmquist 1 og Fannar Þorbjörnss. 1.

Sjáumst í Austurbergi á mánudagskvöld.
Sigurður Ásbjörnsson