Sigur á FH í Kaplakrika - Pistill

Viðureign Valsstelpna gegn FH fer vísast ekki í bækurnar sem snilldarleikur.  En það er gæðamerki að vinna þrátt fyrir að eiga fremur dapran dag.  Mér varð það ljóst þegar stelpurnar spiluðu gegn Selfossi að FH liðið ætlaði sér að leggja okkur í næsta leik.  Það var a.m.k. augljóst að þær voru ekki mættar með þjálfara sínum til að fylgjast með okkur spila vegna þess að þær höfðu ekkert betra fyrir stafni þessa kvöldstund.

Í upphafi virtist lífið og leikurinn ganga dásamlega fyrir FH stelpurnar.  Frumkvæðið var þeirra og þær náðu strax forystu og útlitið bjart fyrir þeirra hönd þegar þær leiddu 5 - 2 eftir 10 mínútur.  Valsliðið var alls ekki með einbeitinguna í lagi og liðið spilaði með hangandi hendi í vörninni.  En það tók Valsliðið nánast allan fyrri hálfleik að komast yfir.  FH leiddi 12 - 11 þegar um 6 mínútur voru til hálfleiks en við skoruðum fjögur síðustu mörkin og vorum með þriggja marka forystu í hálfleik, 15 - 12.

Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Valsliðsins.  Vörnin batnaði til muna og Jenný sýndi sitt rétta andlit og varði m.a. tvö víti.  Nú var komið að Valsliðinu að taka frumkvæði og það gerðu stelpurnar með afgerandi hætti.  Hverju marki FH var svarað með tveimur til þremur Valsmörkum í röð og munurinn á liðunum óx hægt og bítandi.  Mestur varð munurinn 10 mörk en leiknum lauk með níu marka sigri Vals, 32 - 23.

Eins og ég gat um að ofan var þessi leikur lítið fyrir augað.  Fyrri hálfleikur var með þeim verri sem við höfum séð til Valsstelpnanna.  Vörnin virtist sofandi og marvarslan af sömu gæðum.  Mikið var af mislukkuðum sendingum í sókninni, t.d. til raunir til að senda á línuna enduðu sem dauðir boltar inni í vítateig FH-inga.  En við verðum að gæta að því að við erum góðu vön.  Valsliðið er frábært og það er búið að vera algjör dásemd að sjá þær spila.  Við fyrirgefum því einn slappan hálfleik ekki síst þegar niðurstaðan er engu að síður níu marka sigur.  Þær mega líka eiga það Valsstelpurnar að þær glöddu okkur þegar leið á leikinn.  Við fengum t.d. að sjá fallegt sirkusmark þegar Ragnhildur sendi háan bolta inn í teig og Dagný tók flugið, greip og skoraði.  Ekki var að sjá mörg trix í fórum FH liðsins en þær mega eiga það að þær byrjuðu af krafti og virtust hafa trú á því að þær gætu strítt okkur.  Þá var Hrafnhildur alltaf sett í gæsluvarðhald þegar við stilltum upp kerfum.  Hún var ekki bara með gæslumann heldur voru allar tilraunir hennar til að spila sig fría stoppaðar með fangbrögðum.

Helstu tölur:  Jenný varði 17 skot, þar af 2 víti, Sigríður kom inn á þegar skammt var eftir og varði 2 skot.  Mörk Vals: Ragnhildur 7, Þorgerður 6, Hrafnhildur 6, Dagný 6, Karólína 4,  Heiða 2 og Drífa 1.  

Næsti leikur stelpnanna er sunnudaginn 3. mars á Hlíðarenda gegn HK.  En strákarnir spila gegn ÍR í Austurbergi á mánudagskvöldið. 

Sigurður Ásbjörnsson