Endurtekið efni í Austurbergi

Það var hart barist í Austurbergi í gærkvöld þegar við Valsmenn litum í heimsókn í annað sinn á rúmum þremur vikum.  Síðasta viðureign liðanna var gríðarlega spennandi og lyktaði með eins marks sigri ÍR eftir mark á loka sekúndum.

Í kvöld var algjört jafnræði með liðunum fyrstu 10 mínútur leiksins en þá skoruðum við fjögur mörk í röð og komumst í 9 - 5.  En eftir fjögurra marka sprett ÍR-inga undir lok hálfleiksins náðu þeir að minnka muninn í eitt mark.  Staðan í hálfleik var því 15 - 14 fyrir Val.

Í seinni hálfleik leit þetta lengst af ljómandi vel út.  Valsmenn unnu í því hægt og bítandi að auka forskotið og þegar rúmar 16 mínútur voru liðnar af hálfleiknum var staðan 21 - 18 fyrir Val.  En þá hrundi sóknarleikur liðsins.  Það sem eftirlifði leiks skoraði Valsliðið eingöngu tvö mörk en fékk á sig sjö.  Þar af fékk sami leikmaður ÍR, Davíð Georgsson, sem ekkert hafði komið við sögu í leiknum að fara í gegnum Valsvörnina á sama stað fjórum sinnum í röð og skoraði hann í öll skiptin.  Leiknum lauk því með sigri ÍR, 25 - 23.

En hvernig stendur á því að við náum ekki að klára leikinn?  Voru menn orðnir svona þreyttir?  Það var mjög lítil sköpun í gangi í sókninni í lokin.  Við horfðum ítrekað upp á andvana fædd einstaklingsframtök og skoruðum ekki úr dauðafærum þá sjaldan að þau fengust.  Við notuðum níu útispilara í leiknum.  Agnar, Atli og Magnús komu ekkert við sögu.  Nánast allan leikinn spiluðum við 3-3 vörn.  En hún er mjög krefjandi þar sem langt bil er á milli varnarmanna og þeir verða að vera mjög einbeittir og vera á miklu meiri hreyfingu heldur en í flatri vörn.  En það fór ekkert á milli mála að eftir leikinn voru allir leikmenn beggja liða orðnir uppgefnir.  Margir stuðningsmanna Vals urðu menn snemma pirraðir út í Nikola fyrir þrjár mislukkaðar sendingar og misgrip (hann greip ekki sendingu) á fyrsta korteri leiksins.  En á sama tíma átti hann þrjár sendingar inn á línuna og skoraði sjálfur tvö mörk.  Úrslitunum verður ekki klínt á hann.

En Valsliðið verður að sýna fram á að það geti klárað leiki.  Það er óþolandi að horfa upp á andstæðinga okkar stela ýmist einu eða tveimur stigum í lok hvers einasta leiks.

Helstu tölur:  Hlynur varði 18 skot.  Mörk Vals: Orri 6, Finnur Ingi 4, Nikola 4, Valdimar Fannar 3, Svenni 2, Agnar 1, Þorgrímur 2, Gunnar Malmquist 1 og Fannar Þorbjörnsson 1.

Næsti leikur strákanna er í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda gegn Fram fimmtudaginn 28. febrúar kl. 19:30. 

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson