Valur deildarbikarmeistari

Sigur og titill í húsi

Það er lítið eftir af deildarkeppninni í handbolta.  Næst síðustu umferðinni lauk um kvöldmatarleytið í gær þegar Valsstelpur fengu HK í heimsókn.  Fyrir leik kvisaðist það út að HSÍ myndi senda mannskap með bikar á svæðið og við myndum fá hann afhentan ef við sigruðum.  Þó svo að einn leikur væri eftir þá væri frammistaða okkar svo góð í innbyrðis leikjum gegn Fram að sigur í næstsíðasta leik tryggði okkur deildarmeistaratitilinn hvernig sem síðasti leikur færi.  Deildarmeistaratitillinn er vitaskuld langhlaupið á tímabilinu en er fremur lítill gaumur gefinn nema fyrir það helst að hann tryggir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

HK stelpurnar mættu kappsfullar til leiks í gærkvöldi og sýndu nokkurt frumkvæði í upphafi leiksins.  En fjögur mörk Valsstelpna á þriggja mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik kom Val í gott forskot sem hélst fram í hálfleik en þá var staðan 17 - 13 fyrir Val.

Seinni hálfleikur hófst með miklum látum af hálfu Valsstelpna.  Fjögur mörk í röð og það sást glampa á silfurslegið ílát á bak við ritaraborðið og sams konar glampi var kominn í augu okkar Valsara, bæði leikmanna sem og okkar stuðningsmannanna í stúkunni.  En HK stelpur ætluðu sér ekki að færa okkur neitt á silfurfati og héldu baráttunni áfram og náðu að draga aðeins úr forskotinu.  En þeim var aldrei hleypt alveg inn á gafl.  Lokatölur urðu 33 - 28 fyrir Valsstelpur sem lönduðu þar með sínum 18. sigri í 19 deildarleikjum á tímabilinu.  Vel gert stelpur.

Í leiknum í gærkvöldi var ýmislegt að sjá sem gladdi augað eins og ávallt þegar Valsstelpurnar spila.  Þetta bar hæst:

  • Fjörfiskarnir í hornunum, þær Dagný og Karólína, áttu afar góðan leik báðar tvær.  Nokkrum sinnum í leiknum í gær voru þær komnar nánast samsíða í hraðaupphlaupum en af rausnarskap og skynsemi sendu boltann á þá sem var í örlítið betra færi í stað þess að reyna að skora sjálfar.
  • Íris Ásta kom inn í liðið eftir meiðsli og skoraði og fiskaði víti á tiltölulega skömmum tíma.
  • Þorgerður skoraði 6 mörk og öll í seinni hálfleik.  Hún meiddist fljótlega og héldum við að hún yrði ekki meira með en hún dúkkaði aftur upp eftir nokkra mínútna hvíld og skoraði grimmt.
  • Hrafnhildur og Ragnhildur voru á pari bæði í markaskorun og stoðsendingum.  Einu sinni þykknaði verulega í Hrafnhildi þar sem dómararnir flautuðu þegar hún hafði losað sig úr broti og var komin í dauðafæri.  Hún svaraði mótlætinu með þeim hætti sem ber að gera og skoraði beint úr fríkastinu með því að þruma beint innundir markvinkilinn.  Vel gert.
  • Jenný hafði fremur hægt um sig í markinu en varði m.a. víti.  Sigríður kom inn á og átti flottan sprett og varði 5 skot á skömmum  tíma.

Ótíðindi gærkvöldsins eru tvímælalaust af Sonötu sem fór sárþjáð af velli um miðjan seinni hálfleik.  Við sáum hana halda um framhandlegginn og óttuðumst hið versta.  Eftir leik bárust af því fréttir að hún hefði farið úr lið.  Hún er spelkuð og ólíklegt að hún fari í boltaleik á næstu dögum.  En við óskum henni góðs bata.

En eftir leik fengu Valsstelpur afhentan bikar þar sem þær voru að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í fjórða skiptið í röð.  Við samfögnum þeim vitaskuld og óskum þeim innilega til hamingju með afrekið.  Þetta var verðskuldað.

Helstu tölur:  Jenný varði 11 skot, þar af 1 víti, Sigríður varði 5.  Mörk Vals: Dagný 7, Karólína 7, Þorgerður 6, Hrafnhildur 5, Ragnhildur 5, Sonata 2 og Íris Ásta 1.

Næsta verkefni stelpnanna er bikarkeppnin sem verður í Laugardalshöllinni um næstu helgi.  Valsstelpur eiga að spila gegn ÍBV kl. 13:30 á laugardaginn 9. mars en úrslitaleikurinn er á sunnudaginn 10. mars kl. 16.  Við fjölmennum vitaskuld og hvetjum stelpurnar áfram á laugardaginn. 

Valsmenn eru hvattir til að kaupa miða í forsölu á Hlíðarenda vegna þess að þar er eini tekjumöguleiki Vals af miðasölu.  Miðaverð á undanúrslit: 1000 kr. fyrir 13 ára og eldri.  Miðaverð á úrslitaleik: 1500 kr. fyrir 13 ára og eldri.

Sjáumst í Höllinni nestuð af miðum sem við keyptum á Hlíðarenda. 

 

Sigurður Ásbjörnsson