Bikarúrslit framundan - Pistill

Það er allra veðra von í bikarkeppni. Allar fyrri ályktanir um getu liða 
og leikmanna eiga það til að fara fyrir lítið þegar bikarleikir eru annars vegar. 
Gott dæmi um þetta er sú staðreynd að það voru tvö 2. deildarlið að spila í 
undanúrslitum hjá körlunum og annað þeirra er komið í úrslit keppninnar. 
En einmitt þessi staða, að bikarkeppnin er nýtt mót með öðru fyrirkomulagi 
gerir keppnina spennandi. Það er allt eða ekkert í hverjum einasta leik.
Eyjastelpur ætluðu sér augljóslega að fá nokkuð fyrir sinn snúð. Þær byrjuðu
kröftuglega en það gerði Jenný líka í markinu og það var henni að þakka 
að við lentum ekki undir strax í byrjun. En Eyjastelpur komust yfir í fyrsta og 
eina skiptið í leiknum þegar staðan var 3 - 2 fyrir þær. En því svöruðu 
Valsstelpurnar með fimm marka spretti. 
Leikhlé Eyjastelpna skilaði þeim tveimur mörkum áður en við svöruðum með þremur. 
Hér voru það Valsstelpur sem voru með tögl og hagldir á leiknum. Stelpurnar héldu til
hlés með örugga forystu 16 - 9.

Eyjastelpur áttu öfluga byrjun í seinni hálfleik og skoruðu fimm af fyrstu sex 
mörkum leiksins. Staðan var því orðin 17 - 14 fyrir Val og Eyjastelpur komnar 
til leiks á ný. En það sem eftir lifði leiksins svöruðu Valsstelpurnar hverju marki 
sem þær fengu á sig með tveimur. Bilið jókst því jafnt og þétt og vinnslan í liðinu 
breyttist ekkert við það að stærstur hluti byrjunarliðsins var látinn hvíla og aðrir 
fengu að bera spilið uppi. Þær Bryndís, Heiðdís og Sonata sýndu fram á hvers þær 
eru megnugar og kláruðu leikinn með glæsibrag. Leiknum lauk með öruggum Valssigri, 27 - 19.

Valsliðinu verður bara hrósað fyrir leik sinn í dag. Karólína sem hefur verið mjög vaxandi í síðustu leikjum átti sennilega sinn besta leik á 
tímabilinu í dag. Bæði var hún gríðarlega vinnusöm í vörninni þar sem hún lokaði nánast 
allan leikinn á þátttöku Guðbjargar í horni Eyjastelpna. Þá átti Karólína frábærlega tímasett 
hlaup inn á línuna þar sem hún skapaði sér frábær færi. Karólína skoraði 5 mörk úr 6 tilraunum
sem er frábært.
Jenný varði eins og hún gerir best í leiknum. Það er vitað að öflugasti leikmaður Eyjaliðsins er 
Flora í markinu en í leikslok var greint frá því að Jenný hefði verið valinn maður leiksins
með 25 skot. Ég skipti mér ekki að því þegar einhverjum dettur í hug að velja mann leiksins en 
ég fullyrði að Jenný varði 28 skot. Þegar við skoðum tölurnar betur þá kemur í ljós að Jenný varði 
28 af 47 skotum sem hún fékk á sig. Það er hvorki meira né minna en 60 % markvarsla. 
Svona gera bara snillingar og það í toppleikjum.
Þorgerður var markahæst Valsstelpna en Flora varði nokkuð af boltum frá henni. Þorgerður lét það 
ekki setja sig út af laginu heldur lagði sem fyrst aftur gegn henni og skaut þá annars staðar á 
markið en í fyrri tilraunum. Þess háttar hegðun kallast að vaxa með viðfangsefnum sínum.
Það væri freistandi og auðvelt að verja nokkrum tíma að fjalla um hvern og einn leikmann sem tók 
þátt í leiknum en til þess vinnst ekki tími. En allt liðið stóð sig vel og enginn leikmaður lék undir getu.
Helstu tölur: Jenný varði 28 skot, þar af 1 víti. Mörk Vals: Þorgerður 7, Dagný 7, Karólína 5, 
Hrafnhildur 4, Sonata 2, Heiða1 og Heiðdís 1.
Næsta verkefni er úrslitaleikur bikarkeppninnar kl. 16 á morgun. En þar mætum við Fram í 
enn einni titilrimmunni.Sjáumst tímanlega í höllinni. Leikur hefst kl. 16 sunnudaginn 10. mars.
Áfram Valur!
Sigurður Ásbjörnsson