Bikar í húsi - Pistill

Stórleikir byrja gjarnan með klaufalegum mistökum og taugaveiklun.  Þegar mikið er í húfi og taugarnar hafa verið þandar til hins ítrasta þá verður eitthvað undan að láta.  Þannig hófst viðureign Vals og Fram í bikarúrslitum kvenna í dag.  Það voru liðnar um fimm mínútur af leiknum loksins þegar tókst að koma boltanum í netið. Illu heilli voru það Fram stelpurnar sem skoruðu fyrsta markið en Jenný var búin að verja tvisvar.  En varnir beggja liða voru mjög öflugar í byrjun.  Valsstelpurnar spiluðu mjög flata vörn en Framararnir spiluðu mjög beitta 4 - 2 vörn allt í þeim tilgangi að drepa niður spil milli útileikmanna liðsins.  Og það tókst þeim nær allan fyrri hálfleik.  Valsstelpur virkuðu þreyttar þar sem þær biðu kyrrar eftir boltanum og voru strax farnar að rekja boltann um leið og þær fengu sendingu.  Valsstelpurnar voru því mjög hægar í sóknartilburðum sínum og virtust fremur þreyttar eftir átök gærdagsins gegn Eyjastelpum.  Við vorum því gjörsamlega gripnar í landhelgi og eftir því var útlitið afleitt.   Það hreinlega dróg fyrir sólu í stúkunni hjá okkur stuðningsmönnum Vals þegar staðan var 6 - 11 fyrir Fram.  Það þarf nú að leita lengi í gömlum bókum til að finna viðlíka yfirburði Fram gegn okkur.  En staðan í hálfleik var 12 - 8 fyrir Fram.

En kosturinn við það að eiga afleitan leik er sá að þá getur spilið bara batnað.  Valsliðið nýtti leikhléið mjög vel, a.m.k. var spilamennskan allt önnur og miklu betri í seinni hálfleik.  Ragnhildur reið á vaðið með tveimur mörkum en allt liðið var í öðrum og hraðari gír heldur en í fyrri hálfleik.  Það tók Valsstelpurnar sjö mínútur að éta upp muninn og tvær í viðbót til að ná yfirhöndinni en hana höfðum við síðast á 8. mínútu leiksins.  Nú vorum við skyndilega komnar í bílstjórasætið og héldum því til leiksloka en Framarar náðu að jafna í tvígang, 18 - 18 og 20 - 20.  En því svöruðum við umsvifalaust með marki.  Seinni hálfleikinn unnum við 17 10 og leikinn því 25 - 22.  En það verður að teljast einhver glæsilegasti viðsnúningur í úrslitaleik á síðari misserum.

Hrafnhildur sýndi fyrirmyndar leiðtogahæfileika sína með flottri spilamennsku, dugnaði í vörn og drífandi flottum sóknarleik án þess þó að vera að raða inn mörkum sjálf.

Þorgerður var markahæst og óx allan leikinn frá því að skjóta langt framhjá úr vonlausum færum í byrjun leiks yfir í það að vera með nærri "holu í höggi" undir lok leiksins. 

Dagný tók fjögur víti og skoraði úr þeim öllum.  En Framarar gættu þess að hún fengi ekki boltann í hraðaupphlaupum og það tókst þeim allt þar til skammt var til leiksloka.  Þá skoraði Dagný tvö mörk eftir flotta spretti fram völlinn.

Ragnhildur átti frábæra innkomu í seinni hálfleik eftir að hafa verið týnd og tröllum gefin í þeim fyrri.  Ragnhildur skoraði og spilaði uppi félaga sína og leysti inn á línu og var gríðarlega öflug í seinni hálfleik.

Sonata var sennilega að spila sinn besta leik fyrir okkur.  Innkoma hennar vakti nokkra athygli þar sem hún meiddist illa í síðasta deildarleik fyrir nokkru.  Sonata er mjög sterk og lét finna vel fyrir sér á línunni.  Hún skoraði fjögur mörk og átti góðan leik í vörninni þegar Framarar reyndu augljóslega og ítrekað að fá hana rekna af velli.

En vitaskuld er það allt liðið, þjálfarateymið og baklandið allt sem á sinn skerf í þessum titli.  En vitaskuld eru það stelpurnar sem við lítum upp til eftir frábæra frammistöðu.  Þær eru búnar að vera frábærar og vinna hörðum höndum að því að hesthúsa hvern titilinn á fætur öðrum.  Vel gert stelpur!  Nú fáum við nýtt ártal á vegginn í anddyrinu á Hlíðarenda og samgleðjumst vitaskuld öll á þessari gleðistundu.

Helstu tölur:  Jenný varði 14 skot, þar af 1 víti.  Mörk Vals: Þorgerður 7, Dagný 6, Sonata 4, Karólína 3, Hrafnhildur 3 og Ragnhildur 2.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson