Baráttu sigur - Pistill

Það vita það allir íþróttaunnendur að Haukar og Valur eiga margt annað sameiginleg heldur en litinn á keppnistreyjunni.  T.d. eiga bæði félögin sömu rætur þ.e. séra Friðrik stóð á bak við stofnun þeirra beggja.  Mér varð hugsað til þessa kristilega uppruna á Ásvöllum í gærkvöldi undir einræðu vallarþularins.  Þulurinn má eiga það að hann nafngreinir helstu afrek leikmanna beggja liða eftir því sem liðin skora eða verja.  En síðan gengur hann öllu lengra í lýsingum heldur en maður á að venjast.  Vallarþulum er alveg óhætt að gera ráð fyrir því að þeir sem eru mættir til að fylgjast með leik kunni á honum nokkur skil og ekki skal útiloka að áhorfendur séu jafnvel að fylgjast með leiknum sem þeir borguðu sig inná.  Að minnsta kosti gerir undirritaður það þegar hann mætir á leiki.  En þulurinn á Ásvöllum vill vera viss um að allir fylgist með öllu sem gerist á leiknum og því lýsir hann leiknum í hljóðkerfi hússins.  Þess vegna glymur í salnum að "Bergur hafi átt sendinguna", "sendingin var glæsileg", "það þarf að þurrka gólfið vegna þess að sveittir leikmenn skilja eftir sig bleytu þegar þeir lenda í gólfinu", en þegar líður á leikinn eru strákarnir á moppunum iðulega á vellinum og við fáum að vita að "það þarf að þurrka voða mikið", en einnig fáum við að vita að "vörn Valsliðsins sé gríðarlega kröftug".  Þulurinn finnur ávallt eitthvað til að segja okkur hvort sem það snertir leikmenn eða starfsfólkið í húsinu.  Ég þekki fólk sem myndi láta þessar lýsingar fara í taugarnar á sér, en þakka fyrir það augljósa að vera ekki í þeirra hópi. 

Hún var ólík staða liðanna fyrir leikinn í gærkvöldi.  Valur á botninum en litli bróðir á toppnum.  En eins og allir vita sem fylgist með handboltanum þá er nánast enginn munur á liðunum í deildinni.  Það voru ákafir Valsmenn sem skoruðu fyrsta markið en Sigurbergur Sveinsson var allt í öllu í sóknarleik Hauka og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum þeirra.  Fyrri hálfleikur var algjörlega í járnum og þar sem liðin skiptust á frumkvæðinu en í hálfleik var staðan 11 - 11.

Það fór um okkur Valsmenn í byrjun seinni hálfleiks þegar Haukar skoruðu þrjú fyrstu mörk hálfleiksins án þess að við næðum að svara.  En Valsstrákarnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn og voru fram í miðjan hálfleik að ná að jafna leikinn.  Eftir það kom berlega í ljós einbeitt viðhorf Valsliðsins til þessa verkefnis. Menn ætluðu sér að hirða bæði stigin úr leiknum.  Varnarleikur liðsins og markvarsla var alveg til fyrirmyndar síðustu tíu mínútur leiksins.  En á þeim tíma skoruðu Haukar aðeins eitt mark á meðan Valsliðið skoraði fjögur.  Leiknum lauk því með verðskulduðum sigri Vals, 22 - 19.

Í gærkvöldi spiluðu Valsmenn dreifðu injánavörnina allan leikinn (nema þegar við vorum manni færri).  Vörnin var gríðarlega öflug allan leikinn og augljóst að úthald liðsins til að spila þessa vörn hefur aukist til muna.  En þessi vörn er ofboðslega orkufrek.  Hver varnarmaður er með stórt svæði til að passa og ef menn dorma í augnablik þá hrynur kerfið. 

Að baki Valsvörninni stóð Hlynur í markinu og varði eins og hann gerir best.  Haukar fengu fimm víti í leiknum, Hlynur varði fjögur og eitt fór í þverslá.  Þess utan varði hann á mjög mikilvægum augnablikum og iðulega þar sem skytturnar voru komnar í gegn.  Aldrei reyni ég að útnefna mann leiksins en kæri Hlynur ég held að þú hafir unnið fyrir því að fá þér flot út á soðninguna.

Helstu tölur:  Hlynur varði 19 skot, þar af 4 víti.  Mörk Vals: Svenni 6, Finnur Ingi 5, Nikola 4, Valdimar Fannar 2, Gunnar Malmquist 2, Þorgrímur 1,  Gunni Harðar 1 og Orri 1.

Næsti leikur strákanna er í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda gegn Aftureldingu næsta mánudag 25. mars kl. 19:30.  Í þeim leik er gríðarmikið í húfi.  Liðið sem tapar fellur í 1. deild en liðið sem vinnur lendir í umspili við lið úr 1. deild.

Við ætlum því að fjölmenna á leikinn og hvetja Valsliðið til sigurs.  Ég vil minna Valsmenn á viðtal við Heimi Ríkharðsson í mbl.is en þar er haft eftir Heimi: "Ég biðla til Valsmanna allra um að mæta og fylla höllina. Þeir eru búnir að berjast í allan vetur, búnir að vera óheppnir en það hefur ekki bugað þá. Þeir eru komnir til baka og við ætlum að vinna þennan leik."

Heimir sagði það sjálfgefið að bæði lið myndu spila til sigurs, hvað annað? "Þetta verður aðalleikurinn í næstu umferð. Hann verður væntanlega svakalegur."

Ég hvet því alla Valsara til að hlýða kalli Heimis og fjölmenna á leikinn á mánudagskvöldið.  Áfram Valur!

 

Sigurður Ásbjörnsson