Öruggur sigur -Pistill

Það er gaman að mæta á handboltaleik þegar þétt er setið.  Einkum þegar er verið að spila leik sem skiptir miklu.  Áhorfendur verða nánast eins og einn maður.  Langdregið "OOOHHH" heyrist þegar boltinn lendir í tréverki andstæðinganna en hvell fagnaðarhróp þegar mark er skorað eða markmaðurinn ver.  Þannig var leikurinn í gærkvöldi, æsilegur barningur á vellinum og mikill hávaði á áhorfendapöllunum.

Það var ljóst strax í upphitun að það var enginn venjulegur leikur framundan heldur baráttuviðureign tveggja liða sem hvorugt ætlaði sér það hlutskipti að falla um deild.  Mosfellingar héldu sýningu fyrir leik þar sem upphitun þeirra fór ekki fram hjá nokkrum manni en hún fólst í marseringu um hálfan völlinn með búkslætti og herópi.  Upphitunarlega var þessi sýning einskis virði enda tilgangurinn fyrst og fremst að senda út stríðsyfirlýsingu:  Við erum mættir og við leggjum allt í sölurnar!

Í síðustu leikjum hafa bæði Valur og Afturelding sýnt að þau geta unnið önnur lið, sama hvar þau eru í töflunni.

Mosfellingar byrjuðu leikinn með miklum gauragangi og skoruðu fyrstu tvö mörkin.  Leikurinn jafnaðist nánast strax og fram yfir miðjan hálfleik munaði aldrei meira en 1 - 2 mörkum á liðunum.  En þá tóku Valsmenn mikinn kipp og náðu fimm marka forystu, 13 - 8.  En Afturelding náði að minnka muninn fyrir hlé en þá var staðan 13 - 11 fyrir Val.  Valsliðið spilaði framliggjandi indjánavörnina sína allan fyrri hálfleikinn.  Ungu mennirnir tóku vel á Mosfellingum og fengu þeir Svenni og Gunnar Malmquist tvær brottvísanir hvor.  En að sama skapi fengu Mosfellingar fjögur víti í hálfleiknum. 

Í hálfleik rifjaðist það upp fyrir mér að ýmsir spekingar höfðu spáð liðunum sigri eða tapi sitt á hvað en þeir höfðu allir sammælst um að rauða spjaldið færi á loft í þessum leik og það jafnvel oftar en einu sinni.  Í lok hálfleiksins mætti þjálfari Aftureldingar á ritaraborðið og bað um að fá að skoða ritaraskýrsluna.  Hann staldraði við þetta atriði að tveir Valsarar höfðu fengið tvær brottvísanir og spurði:  "Hver er hann þessi númer 11?".  Það var auðvitað ekki hægt að halda því leyndu fyrir manninum um hvern væri rætt.  Það var augljóst hver áform Mosfellinga voru.  Það átti auðvitað að vinna í því að fækka í Valsvörninni og koma a.m.k. einum leikmanni í sturtu hið fyrsta.

Mosfellingar byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri á tveimur mörkum og náðu því strax að jafna en við hirtum forystuna strax til baka og létum hana aldrei af hendi eftir þetta.  Leiknum lauk því með sigri Vals 25 - 21.

Það var Valsliðið í heild sem átti þennan sigur í heild sinni sem voru, með dyggum stuðningi áhorfenda, mun betra liðið í leiknum.

Hlynur Morthens varði sex skot í leiknum.  Hlynur byrjaði mjög vel en langar sóknir Mosfellinga virkuðu svæfandi á hann.  Lárus kom því inn á í seinni hálfleik og átti stigvaxandi leik eftir því sem á leið.  Lárus skoraði sigurmarkið eftir að hafa varið síðasta skot Aftureldingar en síðan leit hann fram en sá þá að markvörður þeirra var á leiðinni út úr markinu.  Lalli sendi því ákveðinn bogabolta sem endaði beint í marki Mosfellinga.  Þess utan varði hann 8 skot.

Finnur Ingi átti að venju góðan leik.  Finnur er sennilega stöðugasti leikmaður liðsins.  Hann skoraði 7 mörk úr ýmsum stöðum.  Samherji Finns hægra megin, Svenni, var hálf trylltur í fyrri hálfleik.  Svenni er almennt ekki grimmur í vörn en indjánavörnin felur það í sér að elta sinn mann um langan veg.  Svenni var því gripinn í landhelgi innan línunnar með fangið fullt af Mosfellingi.  Það væri synd að segja að hann hafi verið kátur þegar hann var sendur af velli í seinna skiptið. 

Atli Már kom inn á í seinni hálfleik og setti mark sitt á leikinn.  Atli skoraði tvö mörk en átti í miklum átökum í sókninni þar sem hann "fékk einn á lúðurinn" og var skömmu síðar skellt í gólfið, beint á hnakkann.  Það var gaman að sjá til Atla í leiknum því þrátt fyrir ungan aldur þá finnst mér alltaf að það sé ákveðin yfirvegun yfir ákvörðunum hans.  Það eru ýmsar miður skynsamlegar ákvarðanir sem ég hef séð ungu strákana taka í leikjum eftir áramótin en ég er sannfærður um að Atli myndi aldrei hafa tekið.

Gunni Harðar kom inn á um miðjan seinni hálfleik.  Hann fékk boltann inn á línuna í sinni fyrstu sókn og skoraði af miklu öryggi.  Gunni endurtók síðan leikinn nokkru síðar með sama árangri.

En Valsliðið vann mjög vel og það var mjög gaman að sjá hvað menn stóðu sig vel þegar skipt var út mannskap hvort heldur það var vegna þess að einhvejir urðu fyrir hnjaski eða einfaldlega til að fá inn fríska fætur.  Vel gert strákar og ennbetur gert stuðningsmenn sem fjölmenntu.

Helstu tölur:  Hlynur varði 6 skot, Lárus 8.  Mörk Vals: Finnur Ingi 7, Valdimar Fannar 4, Nikola 2, Svenni 2, Gunni Harðar 2, Atli Már 2, Orri 1, Þorgrímur 1, Vignir 1, Gunnar Malmquist 1, Fannar Þorbjörnsson 1 og Lárus markmaður 1.

En við erum ekki lausir við falldraugin þó svo að við höfum staðist þessa prófraun.  Við erum komnir í umspil en það þýðir að við eigum næst að mæta Gróttu.  En svo lítur umspilið út af heimasíðu HSÍ:

Þri. 9.apr.2013

19.30

Vodafone höllin

Valur - Grótta

Þri. 9.apr.2013

19.30

Mýrin

Stjarnan - Víkingur

Fim. 11.apr.2013

19.30

Hertz höllin

Grótta - Valur

Fim. 11.apr.2013

19.30

Víkin

Víkingur - Stjarnan

Sun. 14.apr.2013

17.00

Vodafone höllin

Valur - Grótta           ef þarf

Sun. 14.apr.2013

19.30

Mýrin

Stjarnan - Víkingur  ef þarf

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson