Afgerandi sigur á Haukum - Pistill

Þá er úrslitakeppnin hafin í N1-deild kvenna.  Landsleikjahléinu er lokið og átta efstu liðin í deildinni keppa innbyrðis í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.  Þar sem Valsstelpurnar urðu efstar í deildinni þá tryggir það þeim heimavallarrétt sem þýðir að ef Valur þarf oddaleiki til að komast áfram þá fara þeir leikir fram á Hlíðarenda.  Umfang úrslitakeppninnar er meira hjá stelpunum en við höfum átt að venjast undanfarin ár.  En átta af ellefu liðum deildarinnar taka þátt í úrslitakeppninni.

Fyrsta rimma Valsstelpna er gegn Haukum og fór fyrsti leikurinn fram í gærkvöldi.  Getumunur liðanna er öllum ljós en vonir Hauka felast helst í því að Valsstelpurnar vanmeti eða gerist værukærar gegn minni spámönnum á borð við Hauka.  Valsstelpurnar byrjuðu af krafti og skoruðu 6 af fyrstu 7 mörkum leiksins.  En á fyrstu 20 mínútum leiksins skoruðu Valsstelpurnar eingöngu mörk af línunni eða úr hornunum.  Staðan í hálfleik var 15 - 10 fyrir Val.  Athygli vakti að skytturnar áttu eingöngu fjórðung marka liðsins í fyrri hálfleik og komst t.a.m. Hrafnhildur ekki á blað fyrr en á síðustu sekúndum hálfleiksins.  En þó svo að þær hafi haft hægt um sig í markaskorun þá voru þær mjög örlátar við línuna hvort heldur Sónötu sem spilaði allan fyrri hálfleik á línunni eða á Dagnýju og Karólínu sem leystu inn á línuna í gríð og erg.

Í upphafi seinni hálfleiks voru það skyttur Valsliðsins sem mættu með hlaðnar byssur og skoruðu hvert markið á fætur öðru.  Um miðjan leik var munurinn á liðunum orðinn 10 mörk.  Sá munur hélst að mestu til leiksloka og leiknum lauk 27 - 18 fyrir Val.

Markvarsla Jennýjar og Sigríðar var frábær allan leikinn.  Jenný spilaði fyrstu 50 mínútur leiksins og varði 24 skot en Sigríður spilaði síðustu 10 mínúturnar og varði 5 skot.  Athygli vekur að miðað við leiktíma þá er árangur beggja markvarða mjög svipaður.  En það verður að hrósa Sigríði sérstaklega fyrir ótrúlega innkomu á síðustu 10 mínútum leiksins og taka þar við af Jennýju sem hafði átt virkilega góðan leik.

En leikmenn Vals áttu í nokkru basli með að línuna í leiknum.  En aldrei hef ég orðið vitni að því að Valsliðið fái dæmt á sig línu jafn oft og gerðist í gærkvöldi.  Ekki taldi ég sérstaklega hversu oft þetta gerðist en tilfinningin er sú að þetta hafi gerst nærri tíu sinnum.  Það var ekki eins og það væri sami leikmaðurinn sem væri í of stórum skóm heldur virtust leikmenn úr flestum stöðum fá dæmda á sig línu.

Það vakti sérstaka ánægju í gær að sjá Kristínu Guðmundsdóttur koma inn á undir lok leiksins og skora sitt fyrsta mark eftir nærri árs fjarveru vegna barnsburðar.  Vel gert Kristín og velkomin til baka!

Helstu tölur:  Jenný varði 24 skot, Sigríður 5.  Mörk Vals: Dagný 6, Þorgerður 6, Karólína 4, Hrafnhildur 3, Sónata 3, Ragnhildur 2, Heiðdís 1, Kristín 1 og Heiða 1.

Næsti leikur stelpnanna er gegn Haukum á Ásvöllum á laugardaginn kl. 16.  Vinni Valur þann leik þá þarf ekki oddaleik og við erum komnar í næstu umferð.  Að öðrum kosti verður oddaleikurinn á Hlíðarenda á mánudagskvöldið.

Sigurður Ásbjörnsson