Öruggt gegn Gróttu - Pistill

Það er puð að vera diggur stuðningsmaður Vals þessa dagana.  Allir meistaraflokkar félagsins standa í stórræðum þar sem mikið er í húfi.  Stelpurnar í hand- og körfuboltanum eru í titilbaráttu en strákarnir í baráttu um efstu deildar sæti.  Ef einhver Valsari á lausan tíma sem hann veit ekki hvernig skuli varið er heillaráð að skreppa niður á Hlíðarenda því að þar er einhver stórleikur í gangi á hverju kvöldi.

Í gærkvöld voru það handboltastrákarnir sem hófu umspilið um að halda N1-deildar sætinu á næsta tímabili.  Gestir okkar að þessu sinni voru ungu mennirnir af Seltjarnarnesinu.  Í Gróttu liðinu eigum við gamla félaga en Valsliðið er líka skipað strákum sem um tíma léku á Nesinu og þar af er einn uppalinn þar vestra.

Klæðaburður Seltirninganna vakti nokkra athygli í gærkvöldi, einkum fyrir þær sakir að keppnistreyjur þeirra voru ermalausar með öllu.  Ekki kann ég nóg skil á því hvernig þeir piltar eru til fara að öllu jöfnu og því engin leið að segja til um hvort um sérstakt tilfelli var að ræða eða hvort þeir séu svona klæddir í öllum leikjum.  En eftir að hafa ráðfært mig við her manns sem reynt hefur að komast til botns í málinu eru eftirfarandi tilgátur efstar á baugi:

  • Seltirningar eru svo vanir norðan blæstrinum sem kemur út Hvalfjörðinn og leggst yfir allt Seltjarnarnesið að þegar þeir spila annars staðar þá klæða þeir sig í léttari flíkur.
  • Þeir tóku körfuboltatreyjur í misgripum.
  • Þeir héldu að það væri komið sumar en fylgdust ekki með veðurspánni sem boðar enn meiri nepju og svala heldur en það sem hefðbundið er á Nesinu.
  • Búningahönnuður Jesper Nielsen skartgripasala og fyrrum AG mógúls kann að hafa litið við þar vestra.

En nær komumst við ekki.  Ermalausa búningamálið verður okkur ráðgáta enn um sinn og vitaskuld er okkur slétt sama.

En þeir ólmuðust mjög í byrjun Seltirningarnir og skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins.  En það tók okkur um 20 mínútur að ná forystu í leiknum.  Eftir að það tókst létum við hana ekki af hendi.  Í hálfleik var staðan 16 - 12 fyrir Val.

Í seinni hálfleik juku Valsstrákarnir forskotið jafnt og þétt en samhliða virtist móðurinn renna af Gróttumönnum.  Valsliðið hvíldi byrjunarliðið nánast alveg þegar leið á seinni hálfleik en það breytti engu.  Bilið jókst jafnt og þétt og getumunurinn kom betur og betur í ljós eftir því sem á leið.  Leiknum lauk með öruggum sigri Vals, 30 -23.

Hlynur Morthens hefur oft varið fleiri skot heldur en í þessum leik, en sjaldan hef ég séð hann verja annan eins fjölda af dauðafærum.  Hraðaupphlaup, gegnumbrot og línuskot.  Hann varði ógrynni af þeim öllum.

Finnur Ingi átti frábæran leik og skoraði 12 mörk.  Þar af var helmingurinn úr vítum.  En Finnur var með 100% nýtingu úr vítum.  Restina skoraði hann úr hægri skyttunni, ýmist með uppstökkum eða eftir gegnumbrot.

Tilþrif leiksins átti sennilega Vignir sem átti ótrúlegan sprett í leiknum.  Þá hafði einn Gróttuleikmaðurinn skotið í þverslá Valsmarksins.  Boltinn þaut í háum boga af slánni og inn á miðjan völl.  Þar var Gróttuleikmaður sem virtist varla þurfa að stíga nema eitt skref til að teygja sig í boltann.  En Vignir eygði möguleika.  Hann var um 2-3 metrum aftan við Gróttumanninn en tók á sprett.  Kom hendinni í boltann, þaut fram úr Gróttustráknum og var komin um 3 metra inn fyrir hann þegar hann stökk upp og lét vaða á markið algjörlega óverjandi.  Þetta framtak var algjört augnayndi.

Annars var ánægjulegt að sjá alla leikmenn Valsliðsins taka virkan þátt í leiknum bæði í sókn og vörn.

En ég vona að menn geri sér grein fyrir því að það þarf að leggja sig fram í næsta leik gegn Gróttu sem er núna fimmtudagskvöldið 11. apríl.

Helstu tölur:  Hlynur varði 15 skot (þar af 1 víti), Lárus 4 (þar af 1 víti).  Mörk Vals: Finnur Ingi 12, Valdimar Fannar 5, Nikola 3, Gunni Harðar 3, Svenni 2, Vignir 2, Atli Már 1, Hjalti 1 og Þorgrímur 1.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson