Gróttan kláruð - Pistill

Íþróttafréttaritarinn safnaði kjarki til að yfirgefa blíðuna í Skólavörðuholtinu og skellti sér vestur á Nes þar sem lognið er ámóta algengt og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.  Þegar þangað kom var hægur andvari eins og þeir kalla það þar vestra eða um 15 m/s norðanátt og lofthiti nokkuð fyrir neðan frostmark.  Þegar komið var í hús var strax skimað eftir klæðaburði heimamanna til að fá frekari botn í ermalausa búningamálið en ekki var að sjá annað en að heimamenn væru í sama klæðnaði og á miðvikudaginn.

Undirritaður var nokkuð uggandi fyrir þennan leik þar sem Grótta byrjaði af svo miklum krafti síðast.  Var mögulegt að þeir gætu spilað af slíkum krafti heilan leik?  Og þá jafnvel lagt okkur að velli og fengið brjálaðan úrslitaleik í lokin?  Maður getur víst aldrei verið viss.

Að þessu sinni var það Valsliðið sem byrjaði með látum og skoraði fyrstu þrjú mörkin áður en Grótta komst á blað.  En einbeitni Valsliðsins var frá upphafi miklum mun betri heldur en í fyrri leiknum.  Að þessu sinni hleyptum við Gróttu aldrei framúr okkur.  Í hálfleik var staðan 17 - 9 fyrir Val og leiknum lauk með afgerandi 12 marka sigri, 34 - 22.  Valur er einfaldlega deild betri heldur en Grótta það sýndi sig í þessum tveimur leikjum.

Allir leikmenn Valsliðsins stóðu sig vel og tóku mjög virkan þátt í leiknum.

Hlynur spilaði í markinu í fyrri hálfleik.  Hann varði 7 skot af 16 sem liðið fékk á sig.  En Lárus spilaði seinni hálfleik og varði 6 skot.

Finnur átti enn á ný frábæran leik og skoraði 10 mörk og aftur var helmingurinn úr vítum.

Þorgrímur átti mjög góðan leik í vörninni í fyrri hálfleik en spilaði meira í sókninni í seinni hálfleik.  Þar átti hann m.a. skemmtileg tilþrif þegar okkur stuðningsmönnunum sýndist hann vera að skjóta á markið en boltinn stefndi beint í andlitið á Orra inn á línunni.  Til allrar hamingju var Orri ekki með opinn munninn því annars er viðbúið að boltinn hefði hrokkið ofan í hann.  En þess í stað greip Orri lét sig svífa aftur á bak inn í teiginn, sneri upp á sig í loftinu og þrumaði boltanum rétt við hálsakotið á markmanninum og í netið.

Vignir átti líka flott tilþrif þegar hann náði að stela boltanum í tvígang og skora tvö mörk á 15 sekúndum.  Það verður ekki svo glatt leikið eftir.  Það er mjög gaman að fylgjast með spretthörðum leikmönnum taka á rás.  Við getum nefnt sem dæmi Gunna Malmquist, Svenna og Finn Inga.  En Vignir átti ítrekað geysilega spretti í leiknum en hann nýtur þess að vera í senn með langar lappir og vera þess megnugur að hreyfa þær hratt.

Í gær minntist ég á að það eru tengsl milli leikmanna beggja liða.  En í kvöld voru þeir Gunnar Harðarson og Atli Már að atast eitthvað í Kristjáni Karlssyni leikmanni Gróttu sem á sér fortíð á Hlíðarenda.  Kristján fékk óvæntan stuðning frá Valsmönnum í stúkunni en svaraði þeim Atla og Gunna með þeim hætti sem íþróttamenn gera best.  Hann reif sig lausan þegar hann fékk boltann stökk upp fyrir framan Valsvörnina og þrumaði í netið, en sendi um leið fyrrum félögum sínum liðuga grettu.  Ég hef það ekki fyrir sið að lofsama leikmenn keppinautanna en þetta fannst mér aðdáunarvert.

Eins og stundum áður var eitt og annað sem kom manni til að brosa.  Strax við innganginn mætti ég foreldrum Finns Inga sem voru í tvískiptum treyjum, þ.e. helmingurinn Gróttu- og hinn hlutinn Valstreyja.  Enda spilar yngri bróðir Finns Inga, Júlíus Þórir Stefánsson, með Gróttu.  Sá spilar í vinstra horni og er einnig númer 4 líkt og Finnur.  Það þýðir að þeir eru að berjast á sama bletti vallarins bæði í sókn og vörn.

Orri varð fyrir því að fá byltu í átökum við leikmann Gróttu.  Þeim lauk með því að báðir lágu á gólfinu en í bjálfalegri stellingu því Gróttustrákurinn var með andlitið klesst í handarkrikanum á Orra.  Þar öskraði hann (Gróttinn) af lífs og sálar kröftum svo ókunnugir hefðu getað haldið að Orri hefði annað hvort ekki farið í sturtu eftir síðasta leik eða að hann notaðist við piparúða sem svitalyktareyði.  En við vitum betur Orri er pjattrófa og Gróttugaurinn var að reyna að fá brottvísun á Orra.

Helstu tölur:  Hlynur varði 7 skot (þar af 1 víti), Lárus 6.  Mörk Vals: Finnur Ingi 10, Vignir 6, Orri 5, Svenni 4, Valdimar Fannar 2, Nikola 2, Þorgrímur 2, Atli 2 og Gunni Harðar 1.

Næstu verkefni okkar Valsara á Hlíðarenda er sem hér segir:

Föstud. 12. apríl  kl. 19:30 Valur - Stjarnan í úrslitakeppni kvenna í handbolta.

Laugardag 13. apríl kl. 16 Valur - Keflavík í úrslitakeppni kvennakörfu.

Ekki er ljóst hver verður síðasti andstæðingur handboltastrákanna þar sem Stjarnan og Víkingur eiga eftir oddaleik.  En við vitum að Valur spilar við annað hvort liðið á Hlíðarenda á föstudaginn 19. apríl kl. 19:30 þ.e. eftir viku.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson