Seiglusigur á Stjörnunni - Pistill

Ýmsir eiga það til að vera fremur værðarlegir á föstudagskvöldum.  Vinnuvikan er á enda og auðvelt að hlamma sér í sófann og láta mata sig á einhverju áreynslulausu á borð við Barnaby ræður gátuna.  Það var einmitt þannig sem mér fannst Valsliðið koma til leiks í fyrsta leik undanúrslitakeppninnar í kvöld.  En það hafðist að ræsa mannskapinn áður en í óefni var komið.

Stjarnan spilaði fyrri hálfleikinn af miklum krafti.  Þær voru með viðhorfið í góðu lagi.  Einbeiting þeirra var til fyrirmyndar og þær virtust hafa tröllatrú á því að þær gætu gert Valsstelpum skráveifu.  Ef ekki hefði verið fyrir frábæra markvörslu Jennýjar og sókndirfsku Þorgerðar þá hefði getað farið verulega illa í fyrri hálfleik.  Stjörnustelpur voru mun betri og náðu í tvígang fjögurra marka forystu en Valsstelpum tókst að minnka muninn í eitt mark fyrir hlé, en þá stóð 12 - 13 fyrir Stjörnuna.

Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Valsliðsins.  Það vakti athygli að Valsliðið tók sér óvenjulega langan fundartíma í klefanum í leikhléinu.  Og það var augljóst að það skilaði sér í leik liðsins.

Stelpurnar jöfnuðu leikinn í einum grænum en það tók engu að síður rúmar tíu mínútur að festa forystuna þannig að Garðbæingar næðu ekki að jafna leikinn inn á milli.  Munurinn á liðunum varð mestur sex mörk en leiknum lauk með fjögurra marka sigri Vals, 27 - 23. 

Það verður að segjast eins og er að þessi leikur hefði getað farið illa.  Stjarnan er með gott lið og það vissum við fyrir enda töpuðum við fyrir þeim á heimavelli.  Við verðum að mæta með 100 % einbeitingu frá upphafi ef við ætlum að leggja þær í Mýrinni á sunnudaginn.  Það gengur ekki að menn séu hálfdormandi fram í miðjan leik.

En þrátt fyrir að aðfinnslurnar og skætinginn hér að ofan þá unnum við Stjörnuna og það var vitaskuld eitt og annað sem var virkilega lofsvert hjá okkur.

Þorgerður átti frábæran leik og var langmarkahæst með níu mörk.  Hún byrjaði leikinn með stæl og skoraði t.a.m. fyrstu fjögur mörk Valsliðsins en tók sér í raun aldrei hvíld því hún var að jafnt og þétt í gegnum allan leikinn.

Sonata var að spila einn af sínum betri leikjum.  Oft hefur mér fundist nýtingin vera fremur slöpp hjá henni en því var ekki að heilsa í kvöld.  Hún stóð sig mjög vel og nýtti vel bæði stuttan tíma og lítið pláss þegar hún fékk boltann inn á línunni.  Fyrir framan ritaraborðið var boðið upp á smá skemmtun þegar Sonata festi harpixklístraða fingur í hárinu á Rakel Bragadóttur.  Það var enginn sérstakur gleðisvipur á Rakel þegar Sonata kippti fingrunum í burtu.  En ekki vildi hún þiggja klippingu á ritaraborðinu en fékk lagningu hjá Sunnevu markverði í staðinn.

Jenný varði frá upphafi mjög vel og hún lét stelpurnar óspart heyra það og hvatti þær áfram frá upphafi til loka.  Svo skemmtilega vildi til að um leið og Jenný varði tuttugasta skotið sem hún fékk á sig þá gall lokaflautið.

Þær stöllur Hrafnhildur og Ragnhildur voru fremur köflóttar í sóknarleik sínum.  Þær áttu fína spretti en þess á milli fannst manni þær halda aftur af sér við að láta vaða á markið.

En við verðum að vera miklu ákveðnari þegar við mætum í Mýrina kl. 16 á sunnudaginn.  Við vitum að þær eru að bæta varnarleik sinn en það þýðir að við verðum að spila á fullum krafti í fullar 60 mínútur.  Ef við gerum það þá vinnum við Stjörnuna og ljúkum þessari rimmu fljótt og örugglega.

Helstu tölur:  Jenný varði 20 skot.  Mörk Vals: Þorgerður 9, Hrafnhildur 5, Ragnhildur 4, Sonata 4, Dagný 4 og Karólína 1.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson