Tap í Mýrinni - Pistill

Undirritaður hafði orð á því eftir síðasta leik Vals og Stjörnunnar að Valsliðið virkaði fremur værukært á meðan Stjörnustelpur væru baráttuglaðar og ákveðnar í því að gera okkur gramt í geði. Sunnudagsleikurinn skoðast í því ljósi.

Þegar komið var á leikstað í votlendi garðabæjar barst út fyrir húsið einræður flaumósa vallarþular.  En Garðbæingar höfðu dregið á flot mesta stuðbolta sveitarfélagsins.  Sá var heldur en ekki karl í krapinu og var með allt á hreinu.  Látum vera að hann vildi að við keyptum pönnslur og skúffukökur af handknattleiksdeild Stjörnunnar.  Það er sjálfsagt mál að fá sér bita um miðjan dag á sólbjörtum sunnudegi þegar maður hefur látið sig hafa það að skreppa út á land til að styðja sitt lið.  En við fengum að vita eitt og annað sem var okkur misjafnlega framandi.  En þulurinn sagði okkur að við "þyrftum að ná stemningu í húsinu eftir erfiða helgi."  Nokkru seinna fengum við að vita að það væri "þvílík barátta í stúkunni".  Og vitaskuld var full ástæða til að leiðrétta faðerni nokkurra Valsara.  Stefán þjálfari verður að láta sig hafa það að vera Árnason í Garðabænum  og Karólína getur tæpast verið Lárudóttir og þulurinn breytti því í Lárusdóttir.  Og þið hélduð að mannanafnanefnd væri með stæla!

Hann fór ljómandi vel af stað leikurinn frá okkar hendi.  Við náðum þriggja marka forystu strax í byrjun þegar þær Dagný og Karólína sýndu hvað í þeim býr.  Við Valsmenn í stúkunni kættumst mjög þar sem hornkerlingarnar byrjuðu svo vel, en það gaf okkur fullt tilefni til bjartsýni þar sem ógnunin yrði út í gegn horna á milli.  En Stjörnustelpur voru á öðru máli og svöruðu með fimm marka runu og ört vaxandi sjálfstrausti.  Þrátt fyrir fína spretti máttum við vel við una að missa þær ekki langt fram úr okkur fyrir hlé.  Staðan í hálfleik var 11 - 10 fyrir Stjörnuna.

Seinni hálfleikur byrjaði með miklum látum og leit í sjálfu sér ekki illa út fyrir okkur Valsmenn þar sem við náðum að jafna 12 - 12 eftir þrjár mínútur.  En þá skildu leiðir.  Stjarnan náði yfirhöndinni með þriggja marka spretti og eftir það vorum við í sífelldum eltingarleik.  Við náðum aldrei að minnka muninn niður fyrir tvö mörk og þegar yfir lauk máttum við játa okkur sigraðar með fjórum mörkum, 24 - 28.

En hvað fór úrskeiðis?  Er Stjarnan með betra lið en Valur?  Eru þær á uppleið en við að hníga niður?  Hvað Stjörnuna varðar þá er það á hreinu að það hefur vakið hjá þeim vonir að vinna okkur í vetur og þær geta hugsað til þess að hafa verið eina liðið sem lagði okkur í deildinni (fyrir utan ÍBV eftir að við vorum búnar að tryggja okkur titilinn).  Það er augljóst að lykilmenn Stjörnunnar eru að komast í sitt allra besta form eftir að hafa verið hálfgerðir lazarusar megnið af tímabilinu. 

En hvað með okkur?  Erum við að gera upp á bak?  Sprungnar á limminu?  Og kannski mettar eftir alla titlana á undanförnum misserum?  Nei, ekki alveg.  En við vorum að spila langt undir getu.  Jenný var sú eina sem var sjálfri sér lík og varði samtals 18 skot.  Við erum vanar að skora mikið úr hraðaupphlaupum en fáum yfirleitt ekki mikið af mörkum gegn okkur í hraðaupphlaupum.  Í gær var þessu öfugt farið.  Við skoruðum að vísu tvö mörk úr hraðaupphlaupum en fengum mun fleiri á okkur eftir að hafa tapað boltanum og verið alltof seinar til baka.  Stundum vorum við komnar langleiðina til baka í vörnina þegar Stjörnustelpur geystust fram úr okkur með boltann og skoruðu.  Slíkt lýsir öðru fremur afleitri einbeitingu sem menn geta ekki leyft sér þegar spilað er í úrslitakeppni.  Það þarf að leggja sig 100 % fram og standa sína vakt frá upphafi til enda.  Það á t.a.m. ekki að sjást að menn komi lullandi í vörnina og séu þangað komnir til að hvíla sig fyrir næstu sókn.  Okkar styrkur hefur lengstum verið öflug vörn, markvarsla og hraðaupphlaup.  En ég ætla ekki að eyða tíma mínum eða annarra í að fara í allsherjar sparðatíning á því sem aflaga fór.  Það er verkefni þjálfaranna að berja í brestina og koma liðinu í gang fyrir næsta leik.

Í kjölfar stóryrða Hrafnhildar í sjónvarpsviðtali strax eftir leik hafa Valsmenn skipst á skoðunum um réttmæti slíkra yfirlýsinga.  Hafa ber í huga að Stjarnan var búin að auglýsa þennan viðburð sem sérstakan handboltadag í Mýrinni þar sem bæði lið félagsins væru að spila mjög mikilvæga leiki.  Það var því óvenjugóð mæting Stjörnumegin í húsinu, en ég leyfi mér að fullyrða að við Valsmenn vorum fleiri en heimamenn þegar við spiluðum síðast í Mýrinni.  En nú átti karlalið félagsins að spila strax á eftir okkur og því var búið að smala vel í Garðabænum.  En það breytir ekki því að við verðum að standa miklu betur á bak við stelpurnar okkar.  Kjarninn í þessum hópi er búinn að leggja sitt af mörkum við að landa ítrekað öllum þeim titlum sem í boði eru í íslenskum kvennahandbolta.  Þeir vinnast ekki af sjálfu sér titlarnir.  Ef við höfum virkilega og einlæga löngun til að sjá félagið okkar taka fleiri titla þá verðum við að efla stuðninginn við stelpurnar.  Þær eru virkilega búnar að vinna fyrir því að fá hvatningu frá okkur Valsmönnum og því má ekki gleyma að kjarninn í Valsliðinu er jafnframt máttarstólpar í landsliðinu sem hefur á undanförnum árum verið að skrifa nýjan kafla í handboltasögu þjóðarinnar með því að tryggja sér keppnisrétt á hverju stórmótinu á fætur öðru. 

Látum ekki ítrekað skamma okkur í beinni.  Tökum gagnrýni Hrafnhildar sem hvatningu og fylkjum liði að baki stelpunum sem eiga að spila næst gegn Stjörnunni í Vodafonehöllinni á næsta miðvikudag kl. 19:30.

 Helstu tölur:  Jenný varði 18 skot.  Mörk Vals: Þorgerður 9, Hrafnhildur 4, Dagný 4, Karólína 3, Ragnhildur 2, Sonata 1  og Drífa 1.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson