Ekki fyrir hjartveika – pistill

Eftir því sem árin líða þá lærist manni hægt og bítandi að maður fær almennt í lífinu það sem maður á skilið.  Og þegar maður er orðinn miðaldra foreldri þá nálgast maður þetta sem staðreynd sem maður beitir óspart sem foreldri og hvarvetna sem maður telur sig þurfa að hvetja ungt fólk til að leggja harðar að sér.  En nú þykist ég viss um að handboltastrákarnir í Valsliðinu séu reiðubúnir með handfylli af dæmum úr leikjum tímabilsins sem sýni þvert á móti að þeir hafi ítrekað tapað leikjum eða misst af sigrum en hafi verðskuldað að bera meira úr býtum.  Strákarnir hafa rétt fyrir sér.  Lukkan hefur sjaldnast verið á okkar bandi.  En kannski áttum við eitthvað inni einhvers staðar af ónotuðu láni og jafnvel lítilræði af réttlæti.

Eða hvernig er annars hægt að skilja þau endaskipti sem urðu á öllum hlutum í einhverjum allélegasta leik sem karlalið Vals hefur spilað?  Umspil gegn 2. deildarliði Stjörnunnar þar sem úrslitin ráða því hvort liðið spilar í efstu deild.  Er erfitt að ná upp einbeitingu í slíku verkefni?

Fyrri hálfleikur var frá upphafi afar dauflegur frá hendi Valsliðsins.  Stjörnustrákarnir komu virkilega sprækir til leiks og voru mjög hreyfanlegir og ákveðnir í því að taka vel á okkar mönnum.  Þeir byrjuðu með nokkrum látum sem gjarnan fylgja ungum strákum.  En um miðjan hálfleik náðum við loksins að jafna og rúmlega það, því við komumst marki yfir, 9 - 8.  Þar með héldu flestir að við værum komnir í gang og nú yrði bara valtað yfir Stjörnuna.  En öðru nær.  Það var Stjarnan sem leiddi verðskuldað í hálfleik 13 - 14.

Stjarnan hóf seinni hálfleik á fljúgandi ferð og skyldi okkur eftir í reyk með sjö mörk á bakinu eftir um átta mínútur.  Þar með virtust úrslitin ráðin.  Á þessum kafla var ekkert í leik Valsliðsins sem gaf tilefni til að ætla að einhver viðsnúningur væri mögulegur.  Við vorum að skíttapa í versta leik sem Valur hefur spilað um langt árabil.  Það var hægt að hugga sig við það að við gætum ekki spilað ver og því óhugsandi að við fengjum enn verri útreið í Garðabænum í næsta leik.  En þau undur og stórmerki gerðust að leikurinn tók hægt og bítandi að snúast okkur í vil.  Við náðum að krafla í bakkann með því að koma muninum niður í fjögur mörk þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en þá hófst ótrúlegur kafli þar sem Stjarnan skoraði 1 mark en við kláruðum leikinn með síðustu sex mörkunum.  Þar með mörðum við sigur á Stjörnunni, 28 - 27.

Valsliðið lék sannast sagna afleitlega í leiknum.  Menn voru staðir og fyrirsjáanlegir í sókninni og stirðbusalegir í vörn.  Áberandi var strax í fyrri hálfleik hversu seinir menn voru að skipta út af.  Sóknarmennirnir virtust ekki hafa augu fyrir því að það væri verið að sækja á okkur í hraðaupphlaupi.  Í stað þess að spretta í vörn þá skokkuðu menn á bekkinn og vörnin var tveimur færri að takast á við mjög kvika Stjörnustráka.

En það verður þó að hrósa Fannari Erni Þorbjörnssyni fyrir dugnað og en hann var eini maðurinn sem lék nærri eðlilegri getu.  En Hlynur átti líka mjög góðar vörslur undir lok leiksins.  Aðrir voru í tómu tjóni.

En næsti leikur strákanna er í Mýrinni á sunnudagskvöldið kl. 19:30.  Ég ætla rétt að vona að Valsstrákarnir íhugi sinn gang fyrir þann leik mæti með hausinn stilltan á sigur og verði reiðubúnir til að leggja á sig það sem þarf til að klára svona verkefni.  Leikirnir vinna sig ekki sjálfir, jafnvel þó spilað sé gegn liði í 2. deild.  Reynsla vetrarins ætti að vera búin að kenna mönnum það.

Helstu tölur:  Hlynur varði 10 skot, Lárus 7.  Mörk Vals: Svenni 8, Fannar Þorbjörnss. 5, Finnur Ingi 5, Orri 3, Valdimar Fannar 2, Gunnar Malmquist 2, Vignir 2 og Hjalti 1.

Við mætum vitaskuld í laugardagsleikinn gegn Stjörnustelpum, en hann er klukkan 3 í Mýrinni Garðabæ.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson