Sigurviljinn á sínum stað – pistill

Ertu franskbrauð eða ertu rúgbrauð?  Þannig spurðu krakkar hvorir aðra um það leyti sem Hrafnhildur Skúladóttir kom í heiminn.  Ekki svo að skilja að Hrafnhildur hafi verið örlagavaldur strax við fæðingu heldur var þetta partur af leik sem ungir krakkar léku sér við í þá daga.  Leikurinn fólst í því að koma aftan að einhverjum stökkva upp á bakið á honum og ætlast til að viðkomandi sýndi fram á að hann gæti borið mann á bakinu án þess að kikna undan farginu.  Ef hann kiknaði þá var hann franskbrauð en ef hann gat borið mann án vandræða þá var hann rúgbrauð.

Leikur dagsins, fjórða viðureign Vals og Stjörnunnar, var líkt og brauðkennda álagsprófið í den, - spurningin um það úr hverju ertu gerð stelpa?  Eflistu við mótlætið eða hrynurðu saman?  Þrír leikir að baki og tveir síðustu voru fremur slappir.  Erum við á leiðinni út úr þessari keppni eða ætlum við að sýna úr hverju við erum gerðar?

Leikurinn fór fremur rólega af stað í fyrri hálfleik.  Við leiddum og áttum allt frumkvæði fyrstu 10 mínútur leiksins.  Næstu 10 mínútur voru í eigu Stjörnunnar en síðustu 10 mínúturnar voru okkar.  Staðan í hálfleik var 11 - 9 fyrir Val.

Við stuðningsmennirnir sem stungum saman nefjum í hálfleik vorum þrátt fyrir augljós batamerki ekki alls kostar sáttir við leik okkar stelpna og þá helst hvernig þær fóru með dauðafæri.  Við náðum m.a. að klúðra tveimur vítum og áttum nokkur dauðafæri sem fóru forgörðum.

Í seinni hálfleik var mun betra að sjá til Valsstelpnanna.  Þær áttu allt frumkvæði og mættu harðákveðnar í því að bæta í frekar en að halda því sem var fengið.  Eftir um 10 mínútna leik var Valsliðið komið með sex marka forystu, 17 - 11.  En þá tók sig upp gömul grimmd í kolli Hrafnhildar því hún skoraði næstu þrjú mörk þar sem hún kom á brunandi utanaf velli, stökk upp og bombaði í mark.  Það á enginn roð í kellu þegar hún er í þessum ham.  Og ekki leiðist okkur stuðningsmönnunum í stúkunni að sjá hana hlaupa til baka með hnefann á lofti að senda okkur baráttukveðju með bros á vör.  Stjörnumenn sáu sitt vænsta og reyndu að hemja skytturnar okkar með því að taka þær Hrafnhildi og Þorgerði úr umferð.  Það hægði vissulega á sókn Valsstelpna en góður varnarleikur þeirra gerði það að verkum að bilið á milli liðanna breyttist lítt.  Leiknum lauk með verðskulduðum sigri Vals, 26 - 22.

Liðsheildin skóp án nokkurs vafa þennan sigur.  Það sást einkum á varnarleik liðsins að stelpurnar voru ákveðnar í því að leggja Stjörnuna að velli.  Stelpurnar unnu vel saman í vörninni, voru mun fljótari til baka í vörnina heldur en í undanförnum leikjum og það fór ekki fram hjá neinum að mórallinn var góður.

Þær voru virkilega flottar stöllurnar í hornunum þær Karólína og Dagný.  Í senn voru þær markahæstar og með góða nýtingu.  Þá var Drífa gríðarlega flott í miðri vörn.  Hún er eins og allir vita ekki mesta tröllið á vellinum en á móti kemur að fótavinnan, þ.e. stað- og tímasetningar eru alveg til fyrirmyndar.  Fáránlegt að hugsa til þess að Drífa byrjaði aftur að spila handbolta eftir áramótin eftir að hafa verið frá æfingum og keppni í nokkur ár.

Auðvitað fór eitt og annað úrskeiðis og sókn Valsstelpnanna í stangir Stjörnunnar voru ótrúlegar. Fréttaritarinn hélt sérstakt stangarbókhald að þessu sinni.  Það fer hér á eftir:

  • Hrafnhildur skýtur á markið úr víti.  Stöngin-stöngin út.
  • Hrafnhildur skýtur á markið úr uppstökki.  Stöngin og aftur fyrir.  Þetta gerðist tvisvar.
  • Sonata svífur inn af línunni.  Stöngin-stöngin út.
  • Dagný komin í gegn og skýtur á markið.  Stöngin út.
  • Þorgerður skýtur á markið.  Stöngin yfir.
  • Sonata skýtur á markið.  Stöngin út.

Samtals sjö skot í stangir ef ég hef náð þeim öllum á blað.  En það segir okkur líka að við vorum að skapa fleiri færi heldur en þau sem eru bókfærð sem mörk og vörslur.

Ég er illa svikinn ef stelpurnar hafa ekki verið sáttar við stuðninginn sem þær fengu á vellinum í dag.  Fyrir aftan mig heyrðist kveðið dimmri röddu.  Ég hélt að þar væri komið ákvæðaskáld í stuðningsmannahópinn. En ákvæðaskáld eru þeirrar náttúru að hlutir fara samkvæmt þeirra fyrirmælum.  Í gömlum bókum má finna frásagnir af ákvæðaskáldum sem hafi lægt öldur og vind, kveðið burt þoku og sitthvað fleira í þeim dúr.  Ég átti því fullt eins von á því að sjá Stjörnustelpurnar breytast í mýs og héra eða annað sem hæfir slíkum mætti.  En þegar ég leit um öxl þá var það Jói bakari sem kvað svo digrum rómi.  Þegar ég spurði hann að því að leik loknum hvaða kveðskapur væri þar á ferð, sagði Jói mér að þetta væri úr kvæði um Afríku Kobba eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Við Jói urðum samferða eftir leikinn fram á gang og á leiðinni fór hann með fjölda erinda úr þessum kvæðabálki, eða eins og samfylgdin entist okkur.  En kvæðið byrjar svo:

Á barkskipi sigldi ég suður í lönd.
Í særóti fórst það við Afríkuströnd.
Skipverjar fórust, um fimmtíu manns.
Ég fletti mig klæðum og synti til lands.
Og þetta var upphaf á frægari ferð
en fyrr var af nokkrum í heiminum gerð.

Ég hvet ykkur til að leita í kvæðið uppi ef þið hafið aðgengi að ljóðum Davíðs.  Ég er búinn að sannreyna að þetta er kröftugur og kyngimagnaður kveðskapur.  Dálítið gamaldags en mjög flottur engu að síður.

En að síðustu hvet ég Valsstelpurnar til að kveða Stjörnustelpur í kútinn í eitt skipti fyrir öll á þessu vori.

Helstu tölur:  Jenný varði 15 skot.  Mörk Vals: Karólína 6, Dagný 6, Hrafnhildur 5, Þorgerður 4, Ragnhildur 2, Sonata 2 og Heiðdís 1.

Úrslitaleikurinn er síðan á mánudagskvöldið kl. 20:00 (samkvæmt heimasíðu HSÍ) í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda.  En áður en að því kemur þurfum við að skjótast í Mýrina á sunnudagskvöldið kl. 19:30 og tryggja strákunum áframhaldandi sæti í N1 deildinni.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson