N1-deildarsætið tryggt – pistill

Ekkert lið í handbolta karla hefur hampað Íslands- og bikarmeistaratitlunum jafn oft og Valur.  Það hefur því ekki lagst sérstaklega vel í okkur gömlu hundana að þurfa að vera berjast við falldrauginn þetta vorið.  Deildin í vetur er búin að vera fáránlega jöfn og það er ekki langt síðan við unnum Hauka sem eru komnir í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.  Skömmu síðar spilum við gegn Stjörnunni sem lenti í 2. sæti í 1. deildinni og ef eitthvað er þá er Stjarnan að spila betur heldur en Haukarnir gerðu gegn okkur í síðasta leik.  Þetta er undarleg staða.  Við hefðum með smá heppni og betri frammistöðu í upphafi tímabilsins getað verið í úrslitum um titilinn.

Þeir Stjörnustrákar byrjuðu leikinn vel og skoruðu fyrstu tvö mörkin áður en Valdimar Fannar kom okkur á blað.  En Stjörnustrákarnir héldu sínu striki út hálfleikinn og bættu í fram á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks.  Staðan því 12 - 15 fyrir þá í hálfleik.

Þó svo að Stjarnan væri með meira forskot í þessum hálfleik heldur en þeir höfðu á Hlíðarenda þá var ég mun rórri.  Þrátt fyrir stöðuna þá vorum við augljóslega að spila mun betur en í síðasta leik.

Valsliðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og skoraði fyrstu sex mörk hálfleiksins.  Við vorum því komnir með þriggja marka forystu í stað þess að vera þremur undir líkt og í hálfleik.  Það tók Stjörnuna rúmt korter að komast á blað.  En þeir börðust grimmilega allt til loka og jöfnuðu í tvígang áður en yfir lauk.  En Finnur Ingi skoraði síðasta mark leiksins þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka.  Þrátt fyrir mikinn hamagang í lokin urðu mörkin ekki fleiri og leiknum lauk 23 - 22 fyrir Val.

Hlynur átti mjög góðan leik og varði 20 skot og átti að öðrum ólöstuðum stærstan hlut í sigri okkar. 

Finnur Ingi var manna ötulastur í sókninni og skoraði 8 mörk.  Finnur er án nokkurs efa besti sóknarmaður liðsins og hefur átt jafnbestu leikina yfir tímabilið.  Mér finnst hann líka hafa vaxið eftir þjálfaraskiptin í vetur.

Hjalti spilaði nær eingöngu í vörninni en stalst nokkrum sinnum fram í þeirri von að koma með klínu í netið.  Hjalti var góður í vörninni.  Ungu Stjörnustrákarnir áttu hálf bágt í návist hans.

Atli sýndi sitt rétta andlit í þessum leik.  Það var allt annað að sjá til Atla m.v. fyrri leik liðanna.  Hér spilaði hann á miðjunni og skipti iðulega við Valda í skyttunni.  Atli var mjög ógnandi og sýndi mikinn líkamlegan styrk þegar Stjörnustrákar reyndu að "teika" hann.

Valdimar Fannar var líklega að spila sinn besta sóknarleik í nokkurn tíma.  Valdi er mjög lúmskur þegar hann dansar sig inn að vörn andstæðinganna en hreyfir hendina síðan eins og elding.  Bang, - mark!  Í þessum leik var Valdi orðinn verulega pirraður eftir ítrekaða árekstra við sama Stjörnustrákinn.  En til allrar lukku náðu báðir að róa sig áður en kom til einhverra pústra.

Vignir hefur vakið athygli mína í undanförnum leikjum fyrir gríðarlegan hraða.  En í dag sýndi hann að það þarf ekki alltaf mikið pláss þegar maður fer inn úr horninu.  Þar sem ég sat skammt frá honum sóknarmegin þá var hann varla meira en skósólabreidd frá endalínunni þegar hann stökk inn úr horninu, hátt upp í loftið.  Einbeittur Stjörnumarkvörðurinn virtist vera að lesa Vigni þegar hann setur boltann á bak við markmanninn við nærstöng.  Virkilega vel gert.

Svenni átti ágætan leik í dag.  Við höfum oft séð hann með hærri nýtingu en hann má eiga það að það virðist ekki setja hann út af laginu þó að það mistakist eitt skot.  Margir leikmenn virðast vera lengi að jafna sig á einu klúðri, en það virðist ekki bíta á Svenna.  Slíkur eiginleiki er frábær ef menn kunna jafnframt að hemja sig.  En Svenni fær auðvitað sérstakt prik fyrir að hlaupa í skarðið fyrir Konna kóng eftir leik, sem merkilegt nokk lét sig vanta á leikinn í kvöld.  En ég held að Konni hefði orðið nokkuð sáttur við sigurhrópin hjá Svenna í leikslok.

Fannar Þorbjörnsson var að venju frábær í vörninni.  Bæði sem varnarmaður og ekki síður í þeirri áberandi rullu að halda hinum strákunum við efnið með bendingum og tiltali.

Tölfræðin hjá Orra hefur oft verið flottari en að mínu mati var Orri snuðaður um vítakast í tvö skipti.  Hann skoraði engu að síður þrjú mörk og var að venju öflugur í vörninn.

En strákunum öllum í Valsliðinu, þjálfarateyminu sem og okkur stuðningsmönnunum óska ég til hamingju með að hafa klárað þetta verkefni sómasamlega.  Það var ekki sjálfgefið að vinna þessa leiki og klára umspilið með lágmarksfjölda leikja og ég var um tíma orðinn talsvert smeykur.  Fyrir rúmum mánuði sagði Valdimar Fannar við mig að hann hefði lýst því yfir eftir Akureyrarleikinn að nú myndum við vinna hvern einasta leik fram að lokum tímabilsins.  En það er ekki fyrr en núna sem maður þorir að upplýsa um þessa yfirlýsingu Valdimars.  Það er góð regla að standa við orð sín.

Helstu tölur:  Hlynur varði 20 skot, þar af 1 víti.  Mörkin: Finnur Ingi 8, Valdimar Fannar 5, Svenni 4, Orri 3, Vignir 2 og Atli 1.

Þó svo að strákarnir séu búnir að spila sinn síðasta leik á þessu tímabili þá eigum við eftir að klára tímabilið með stelpunum.  En fimmti leikur þeirra gegn Stjörnunni fer fram í kvöld, mánudaginn 22. apríl kl. 20.  Þann leik ætlum við að klára og taka síðan enn eina rimmuna gegn Fram um Íslandsmeistratitilinn.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson