Takk stelpur – pistill

Það var tómarúm í manni í gær þegar ljóst var að Valsstelpurnar væru úr leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta.  Margir detta umsvifalaust í "hvað ef" gryfjuna:

  • ef við hefðum verið duglegri að hvetja stelpurnar...
  • ef dómarinn hefði tekið eftir skrefunum sem tiltekinn leikmaður Stjörnunnar ...
  • ef við hefðum nýtt betur dauðafærin...
  • ef við hefðum varist betur...
  • ef markvarslan hefði verið betri...

En við lendum í tómu öngstræti í slíkum pælingum.  Ef ég gæti, ef ég mundi, átján fætur á einum hundi.  Þessar hugrenningar færa okkur ekkert annað en leiðindi.  Ef þið viljið dvelja í leiðindum þá ætla ég ekki að reyna að stoppa ykkur.

Ég er hins vegar fullur af stolti og þakklæti.  Því Valsstelpurnar:

  • eru Reykjavíkurmeistarar.
  • eru bikarmeistarar.
  • eru deildarmeistarar.
  • hafa í sínum hópi bestu handknattleikskonu ársins 2012 að mati HSÍ.
  • hafa í sínum hópi íþróttamann Vals 2011, 2012 og 2013.
  • hafa í sínum hópi frábæra landsliðsmenn
  • hafa samtals sjö sinnum verið valdar menn umferðanna í deildinni í vetur
  • hafa þjálfara sem var valinn besti þjálfari deildarinnar í bæði fyrri og seinni hluta tímabilsins.

Auðvitað hefði maður viljað klára úrslitakeppnina á sigri.  En það er undarlegt í ljósi afreka stelpnanna í vetur að þær gangi inn í sumarið með hangandi haus á meðan karlaliðið sé í sigurvímu eftir að hafa bjargað sér frá falli. 

Ég vil enda þennan pistil á smá ávarpi með nafnakalli:

Jenný, Sigríður, Heiðdís, Ragnhildur Rósa, Karólína, Drífa, Dagný, Hrafnhildur, Rebekka, Aðalheiður, Bryndís, Þorgerður, Hildur, Sonata, Guðrún Lilja, Kristín, Anna Úrsúla, Kolbrún, Íris Ásta, Morgan, Vigdís Birna, Stefán, Atli og Valli sjúkraþjálfari.  Takk fyrir mig.  Það er búið að vera algjör unun að fylgjast með ykkur í vetur.  

Ég hlakka til að sjá ykkur allar á næsta tímabili.  Þá stöndum við saman um að gera enn betur.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson