Góður sigur á Skaganum

Valsmenn gerðu góða ferð á Akranes í gær er þeir unnu sannfærandi 1-3 sigur í rokinu á Skipaskaga. Haukur Páll Sigurðsson, Kristinn Freyr Sigurðsson og James Hurst komu Val í 0-3 áður en Þórður Birgisson minnkaði muninn í blálokin.

Hér að neðan er samantekt frá síðunni Valsarar.net en þeir hafa gefið okkur góðfúslegt leyfi til að birta samantektir frá þeim í sumar. Við viljum benda á að hægt er skoða síðuna þeirra á eftirfarandi slóð: http://valsarar.net/

Valsmenn gerðu góða ferð uppá Skipaskaga í kvöld þar sem þeir mættu Skagamönnum í miklum rokleik. Leikurinn var ekki uppá marga fiska lungann úr leiknum en strákarnir áttu þó flotta kafla sem skiluðu sér í 1-3 útisigri.

Sama byrjunarlið var og í fyrsta leik nema Nesta kom inn fyrir Stefán Ragnar. Liðið var því:

Fjalar

Jónas-MaggiLú-Nesta-Bjarni

Haukur-Andri

Williamson

Hurst-Kolli-Kiddi

Mikið rok var uppá Akranesi í kvöld og voru liðin lengi í hálofta boltum og var boltinn meira í loftinu heldur en á jörðinni fyrstu 10 mínútur leiksins. Fyrsta mark leiksins kom á 21. mínútu þegar Williamson tók hornspyrnu og sneri hann inn með hjálp vindsins beint á pönnuna á Hauki Pál sem stökk hæst allra manna í teignum og fastur skallinn söng í netinu. Nýi fyrirliðinn að byrja mótið svakalega vel. Lítið markvert gerðist eftir markið nema Kolli átti skalla og flott skot fyrir utan teig sem Páll Gísli varði vel.

Valsmenn byrjuðu svo með vindinn í andlitið í seinni hálfleik en það truflaði strákana ekki neitt. Eftir fjórar mínútur í seinni hálfleik áttu Bjarni og Williamsson flott spil við vítateig Skagamanna. Williamsson skaut úr þröngu færi sem Páll Gísli varði í varnarmann og boltinn datt dauður niður í markteignum þar sem Kristinn var fljótur að átta sig og setti boltann yfir línuna.

Næstu 20 mínútur voru eign Skagamanna, sem náðu þó ekki að skapa mörg færi og gerðu ekkert annað en að dæla boltanum uppí loftið þar sem var Nesta sterkur og tók þónokkrar karate-hreinsanir. Valsmenn komu sér aftur í leikinn og á 74. mínútu komst Kolbeinn einn gegn Páli, fór framhjá honum á vítateigslínu og renndi honum á Williamsson sem átti máttlaust skot sem var bjargað á línu.

Í kjölfarið fengu Valsmenn hornspyrnu sem Bjarni tók og aftur var Haukur mættur en Skagamenn náðu að bjarga af marklínu. Rúnar Már kom inná og var ekki lengi að stimpla sig inn. Vann boltann á eigin vallarhelmingi, óð upp völlinn og átti sendingu til hægri þar sem James Hurst var mættur inn í teiginn og átti flott skot sem endaði í fjærhorninu.

Skagamenn náðu svo að klóra í bakkann eftir langa sendingu úr vörninni sem skoppaði alla leið inn í teiginn þar sem Þórður Birgisson var mættur og kom boltanum framhjá Fjalari í markinu.

Gaman að sjá strákana byrja mótið svona vel á tveimur sterkum útisigrum, næsti leikur er svo Reykjarvíkurslagur þegar Fram kemur í heimsókn á fimmtudaginn og hefst sá leikur klukkan 19:15. Hvetjum við sem flesta til að mæta og styðja strákana. Boðið verður uppá sambabolta þar sem Vodafone völlurinn hefur aldrei verið betri.