Valsstrákarnir í handbolta - Pistill

Handboltastrákarnir okkar - pistill

Fullþroskuð ber og ryðlitað lauf þýðir bara eitt.  Handboltavertíðin er að fara af stað.  Sparki sumarsins er að ljúka og við Valsmenn
snúum okkur að vetrarverkefnunum.  Það verður að segjast eins og er að það er meiri eftirvænting fyrir Íslandsmótinu í
handbolta í okkar herbúðum heldur en verið hefur um langt árabil.  Til að finna sambærilega tilhlökkun þá dettur mér helst í hug spennan sem var þegar Ferguson kom í Hnappadalinn árið 1949.  Þá er ég vitaskuld ekki að tala um aðlaða eftirlaunaþegann og Valsmanninn Sir Alex.  Öðru nær, hér erum við að rifja upp þegar TE-20 dráttarvélin sem Harry Ferguson smíðaði, lagði undir sig landið og létti bændum búskapinn svo um munaði.

Tilefni væntinganna er augljóslega að Ólafur Stefánsson, einn dáðasti drengur Hlíðarenda, er kominn heim eftir 17 ára spilamennsku vítt og breytt um meginland Evrópu en þeirri spilamennsku lauk reyndar Persaflóamegin á Arabíuskaganum í Katar.  Ólafur hefur tekið við þjálfun karlaliðsins en með honum er Ragnar Óskarsson sem ólst upp í Breiðholtinu en spilaði lengi í Frakklandi og Danmörku.  Þó svo að hvorki Ólafur né Ragnar hafi fengist við handboltaþjálfun áður þá er engu að síður ljóst að þekking þeirra á handbolta er gríðarlega mikil og þeir búa yfir mikilli reynslu. 

Góðir menn laða að sér annað gott fólk og við sjáum að þessu sinni nokkra uppalda Valsmenn að nýju á heimaslóðum.  Elvar Friðriksson er kominn heim eftir að hafa spilað í Danmörku og Svíþjóð.  Ægir Hrafn Jónsson snýr aftur eftir að hafa spilað með Gróttu og Fram.  Ásbjörn Stefánsson dustaði rykið af töflunum og er mættur til leiks.  Þá njótum við góðs af því að strætó gengur núna á milli landshluta og tveir Akureyringar eru komnir til leiks við okkur.  En þeir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason settust upp í leið 57 og eru að liðnum nokkrum jarðgöngum og heiðum mættir í rauðar treyjur sem fer þeim afar vel.  En leið 57 gengur ekki barasta til suðurs heldur máttum við sjá á bak Gunnari Malmquist sem hélt á bernskuslóðirnar í Glerárhverfinu þar nyrðra.  En einnig hefur bæst í hópinn Júlíus Þórir Stefánsson.  En Júlíus er bróðir Finns Inga og spilar í vinstra horninu.  Þá búum við að miklum efniviði úr 2. flokki sem mun að öllum líkindum fá að spila eitthvað með meistaraflokki.  Þar má nefna Alexander Örn Júlíusson, Bjart Guðmundsson, Daða Gautason, Daníel Þór Ingason, Svein Aron Sveinsson og Valdimar Sigurðsson.  Daníel er nýr í okkar herbúðum, en hann er að skríða saman eftir meiðsli.  Valdimar og Daði eru ekki leikfærir vegna meiðsla.  Þá er vert að vekja athygli á  Sturlu Magnússyni úr þriðja flokki, en Sturla sem er línumaður hefur spilað með meistaraflokki í æfingamótum haustsins.  Þá eru þeir línumennirnir Hjálmar Þór Arnarson og Gunnar Harðarson frá vegna meiðsla.   Hjálmar er byrjaður á þrekhjólinu eftir krossbandaslitin en Gunnar verður að taka sér nokkra hvíld.

En við sjáum líka á bak nokkrum leikmönnum.  Eins og áður kom fram er Gunnar Malmquist farinn norður á Akureyri.  Agnar Smári Jónsson er ástfanginn í Eyjum.  Sigurður Ingiberg Ólafsson markmaður hefur sagt skilið við okkur að sinni.  Magnús Einarsson er í handboltafríi í bili en er að ljúka meistaraprófi í hagfræði í vor.  Hjalti Pálmason og Fannar Þorbjörnsson eru hættir í handbolta.  Valdimar Fannar er farinn í FH.  Nikola Dokic er farinn heim til Serbíu.  Við þökkum þessum leikmönnum fyrir sitt framlag í okkar hópi á Hlíðarenda og ég er illa svikinn ef þeir Agnar Smári og Gunnar Malmquist eiga ekki eftir að snúa aftur.  Ég er þess fullviss að það eru fleiri en ég sem muni taka þeim með opnum örmum.

Á leikmannakynningu sem haldin var í síðustu viku talaði Ólafur Stefánsson m.a. um að hann legði mikla áherslu á að leikmenn létu dómara algjörlega í friði og hvatti hann stuðningsmenn til að gera það einnig.  Leikmenn sem nöldra í dómurum eða fá brottvísun fyrir andmæli munu sæta sektum eða refsingu fyrir athæfið.  Jafnframt hvatti Ólafur stuðningsmenn til þess að sýna dómurum virðingu og helst ættum við að ímynda okkur að þeir væru synir okkar!  Nú reynir á hvort við getum sýnt þá háttvísi sem til er hvatt.  Ég vona að við getum öll hlýtt þessum tilmælum.  Einbeitum okkur að hvatningu og höldum okkar mönnum við efnið en látum dómarapörin í friði.  Þeir sem lenda í basli við að hemja sig verða að hafa upp á reiðistjórnunarnámskeiði á gulu síðum Símaskrárinnar.

Ég ætla rétt að vona að allir vitibornir menn hafi náð sér í ársmiða en það er auðvitað eina vitið að taka boltann með trompi og koma í
félagsskap með okkur sem reynum að mæta á hvern einasta leik.  Fyrsti leikur strákanna er á fimmtudagskvöldið kl. 20 þegar Haukar koma í heimsókn.

Tökum þetta með stæl frá byrjun og mætum í stúkuna á fimmtudaginn þegar Haukar sækja okkur heim.

Áfram Valur!

Sigurður Ásbjörnsson