Valsstelpurnar í handbolta - Pistill

Valsstelpurnar hafa ekki tekið þátt í neinum haustmótum og því
rennum við dálítið blint í sjóinn um það hvernig horfi með fyrstu
leiki
liðsins. Þær náðu sér í smá forrétt þegar þær lögðu Fram með
einu marki í fyrsta stórleik haustsins, meistarar
meistaranna. Kvennaliðið er sem fyrr undir stjórn Stefáns
Arnarsonar en samstarfsmaður hans er okkar ástsæli og endurheimti
Óskar Bjarni Óskarsson.
Þau gleðitíðindi berast úr herbúðum Valsstelpna að þrír
lykilleikmenn eru að snúa aftur eftir barnsburð. Kristín
Guðmundsdóttir eignaðist sitt þriðja barn í byrjun árs, Rebekka Rut
sitt fyrsta í byrjun júlí og Anna Úrsúla (og Finnur Ingi vitaskuld)
sitt fyrsta í byrjun ágúst. Áhugamenn um merkur og sentimetra
verða að bera sig upp við foreldrana en þegar ég hef spurt mæðurnar
hvernig gangi þá
mætir mér sólskinsbros. Við samgleðjumst vitaskuld með ósk um
hamingju á stækkandi fjölskyldur og sendum gússí-gússí á
krílin. Það má alveg vekja athygli á því að stelpurnar eru að
skrifa nýja kafla í íþróttasöguna. Mér er til efs að það hafi
verið íþróttalið í fremstu röð á Íslandi sem hefur haft á að skipa
öðrum eins fjölda af mæðrum líkt og kvennalið Vals. Fyrir
fáum árum síðan var mjög algengt að konur lykju íþróttaferli sínum
á meðgöngu með fyrsta barn en Valsstelpurnar hafa hver á fætur
annarri sýnt fram á að það er vel hægt að stunda keppnisíþróttir í
fremstu röð eftir barnsburð.
Nokkrar stelpur úr þriðja flokki eru byrjaðar að banka á dyrnar en þær Guðrún Lilja Gunnarsdóttir, Morgan Marie Þorkelsdóttir og Vigdís Birna Þorsteinsdóttir sem komu við sögu í nokkrum leikjum í fyrra fá væntanlega að spila meira í vetur. Þess utan er Bryndís Wöhler sem er við það að vaxa upp úr þriðja í fantaformi og líkleg til að festa sig í sessi sem fastur leikmaður í liðinu.
En við sjáum á bak nokkrum leikmönnum sem voru með okkur í fyrra. Sonata er farin heim til Lithaugalands. Þorgerður Anna er komin í atvinnumennskuna til Noregs. Kolbrún, Drífa og Dagný eru í pásu en Heiðdís er farin í FH. Við þökkum þeim sem hafa sagt skilið við okkur innilega fyrir sitt framlag sem er ekki lítið. Kvennahandboltinn í Val hefur dregið marga silfurgripi í hús á síðastliðnum árum og stelpurnar hafa allar sem ein lagt sitt af mörkum við það.
Gherman Marinela Ana heitir nýjasti leikmaður okkar. Hún
er kölluð Mary og er mjög flottur leikmaður, hún sýnir léttan
skandinavískan fótaburð í vörninni en er líka öflug skytta.
Öll hennar tilþrif minna mig á góðan leikmann af Norðurlöndunum
fremur en t.d. þá rúmensku leikmenn sem spiluðu með Zalau gegn
okkur í fyrra vetur. Mary er uppalin í hlíðum
Karpatafjallanna í Rúmeníu en frægasti sveitungi hennar er án
nokkurs vafa Drakúla greifi. Það verður því fróðlegt að sjá
hvort hún geti bitið frá sér líkt og svartklæddi sveitunginn.
Við skulum fylgjast vel með varnartilbrigðum hennar, sérstaklega í
kvöldleikjunum. Það fylgir henni það
orðspor að hún sé öflug í vörninni og kannski er skýringin af
yfirskilvitlegum og ævintýralegum toga. Það er aðeins ein
leið að komast að hinu sanna, það er að mæta á leiki og fylgjast
með hvernig leikirnir ganga fyrir sig.
Mörgum okkar er í fersku minni þegar Hrafnhildur Skúladóttir,
fyrirliði stelpnanna, skammaði stuðningsmenn fyrir lélega
mætingu
þegar úrslitakeppnin stóð sem hæst síðastliðið vor. Þegar ég
sé Hrafnhildi í slíkum ham þá finnst mér að öllum (sérstaklega
karlmönnum) beri skylda til að hlýða. Að öðrum kosti megi
búast við snerru sem væri unnt að lýsa með tilvitnun í Njálu á borð
við Skaltu það muna, vesæll maður, meðan þú lifir
að kona hefur... Ykkur til frekari upplýsingar þá hef ég
séð til Hröbbu í þreksalnum og þar fer enginn aukvisi. En að
öllu gamni slepptu hvet ég ykkur til að Mæta á leiki stelpnanna sem
verðskulda góðan stuðning eftir frábæra frammistöðu á síðustu
árum. Fyrsti leikur þeirra er núna í Vodafonehöllinni á
laugardaginn 21. september kl. 13:30. Hittumst þar
öll!
Áfram Valur!
Sigurður Ásbjörnsson