Flott byrjun - Pistill

Við Valsmenn höfum hreinlega verið að fara úr límingunum af tilhlökkun yfir komandi handboltavertíð.  Á fyrsta leikdegi var fjöldi sjálfboðaliða mættur til að sinna sínu verkefni löngu áður en nokkur leikmaður eða þjálfari sást á svæðinu.  Undirritaður hugsaði sem svo fyrir leik kvöldsins að Haukar myndu áreiðanlega leggja okkur að velli í þessari fyrstu viðureign Íslandsmótsins.  Við ættum lítinn möguleika gegn þeim núna og tap í fyrstu umferð væri í fullu samræmi við það sem þjálfarinn hafði lagt upp með.  Þ.e. vegna þess að við erum að fara að gera hlutina öðru vísi þá töpum við gegn mörgum liðum í byrjun móts en þegar líður á tímabilið þá koma sigrarnir einn af öðrum.  Síðar getum við farið að safna titlum.  En í millitíðinni hefur ýmislegt gerst.  Strákarnir lögðu Hauka á Hafnarfjarðarmótinu og stóðu sig vel á því móti.  Þá stóðu þeir uppi sem sigurvegarar á Opna Norðlenska og Reykjavíkurmótinu.  Að síðustu hafa síðan birst hinar ýmsu spár um sætaskipan í lok móts og þær hafa nánast allar sett Valsliðið í efsta sæti.  Mér fannst allt að því óþægilegt að hafa allar þessar velgengnisspár hangandi yfir mér en hið jákvæða er að stemmningin á Hlíðarenda hefur verið mjög skemmtileg.

En hvað felst í þessum nýja handbolta?  Það er verkefni okkar handboltaáhugamanna að skoða í vetur hvað í því felst.  Sumt hefur verið upplýst, annað kvisast út en svo verðum við bíða og sjá hvernig málin þróast.

Það tóku líkast til allir eftir því í gærkvöldi að Valsliðinu var skipt út af í heilu lagi á korters fresti.  Það er ekki þannig að við séum að skipta liðinu í A og B lið sem fái ólík verkefni.  Við erum með eitt og sama liðið en þeir sem á annað borð komast í lið, þeir fá að spila.

Á fyrstu vakt voru þeir: Hlynur, Finnur Ingi, Geir, Elvar, Guðmundur Hólmar, Vignir og Orri.  Þessir strákar spiluðu fyrstu 15 mínúturnar og þegar þeir luku sinni vakt var staðan 5 - 2 fyrir Val.

Næstu vakt skipuðu þeir: Hlynur, Bjartur, Alexander (vörn), Júlíus (sókn), Ægir, Sveinn Aron, Þorgrímur og Geir.  Þeir spiluðu seinni 15 mínúturnar í fyrri hálfleik.  Þegar þeir luku sinni vakt var staðan 10 - 10.

Í upphafi seinni hálfleik byrjaði fyrsta vaktin aftur að því undanskyldu að nú kom Hlynur á bekkinn en Lárus kom í hans stað í markið.  Síðan var skipt að nýju um miðjan seinni hálfleik með nánast sama hætti og í fyrri hálfleik.

Valsliðið er búið að nota þetta vaktakerfi í haustmótunum og flestir hafa talið að þetta hefði eingöngu verið gert til þess að skoða form leikmanna áður en alvaran hefst.  En þetta er það fyrirkomulag sem þjálfararnir leggja upp með í vetur.  Allir skulu fá sín tækifæri.  Í þessu felst augljóslega að ábyrgðinni er dreift á allt liðið.  En við sáum líka í gær að það er tekið tillit til aðstæðna.  Dæmi um slíkt er t.d. að Lárus náði sér ekki á strik í markinu og þess vegna kom Hlynur inn í síðasta fjórðungi.  Einnig spilaði Geir mjög mikinn hluta af leiknum en það var vegna þess að það var fremur fámennt í félagi örvhentra í liðinu í gærkvöldi.  Þá má nefna að Þorgrímur náði sér aldrei alveg á strik og þess vegna var hans spilatími fremur stuttur.  En við dreifum álaginu og andstæðingar okkar fá nánast óþreytt lið á korters fresti.  Ungu mennirnir

fengu sína eldskírn í gær og það var sérstakt ánægjuefni að sjá Bjart Guðmundsson spila svo stóra rullu í sínum fyrsta stórleik.  Bjart hef ég haft fyrir augunum í yngri flokkunum í mörg undanfarin ár.  Ég hef séð hann spila allar stöður á vellinum nema mark.  En í gærkvöldi spilaði hann hálfan stórleik sem liðsstjórnandi og fórst vel úr hendi stórt verkefni á stóru sviði.  

Tilfellið er að þeir 684 áhorfendur sem mættu á leikinn í gærkvöldi fengu fullt fyrir peninginn.  Leikurinn byrjaði í töluverðri taugaveiklun þar sem bæði lið fóru illa með fyrstu sóknirnar.  En síðan voru það Valsstrákarnir sem náðu nokkra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik en það var eingöngu markvörður Hauka sem hélt þeim inni í leiknum.  Geir Guðmundsson var markahæstur Valsmanna, sennilega vegna þess að hann fékk lengstan spilatíma.  En það verður ekki af honum tekið að hann er flottur sóknarmaður.  Hann munar ekkert um að stökkva hæð sína í öllum herklæðum en hann virkar sem dálítil ótemja.  En það er verkefni þjálfaranna að temja hann og aðra kappsama kiðlinga í vetur.  Ef það er ástæða til að taka einhvern út úr leiknum í gærkvöldi þá er það sennilega okkar ástsæli Hlynur Morthens sem varði alla bolta nema einn síðustu 10 mínútur leiksins, en við það breyttist staðan úr 20 - 21 fyrir Hauka í lokatölurnar 27 - 22 fyrir Val.  En stóra myndin af fyrsta leik Valsliðsins í Olísdeildinni er sú að strákarnir sem liðsheild lögðu Haukamenn næsta örugglega 27 - 22.  Tölur um markvörslu og markaskorun dreifast á 11 leikmenn en þeir þrír sem eftir standa af leikmönnum á leikskýrslu áttu sinn þátt í því hvernig til tókst.

Helstu tölur:  Hlynur varði 15 skot, Lárus 1.  Mörk: Orri 4, Finnur Ingi 2, Elvar 5, Guðmundur Hólmar 5, Vignir 1, Bjartur 2, Ægir 1, Sveinn Aron 1 og Geir 6.

Stemmningin hjá okkur Valsmönnum var mjög góð og nýstofnuð stormsveit stuðningsmanna, mulningsvélin, lét vel í sér heyra við taktfastann undirleik Baldurs bongó.

Eftir leik spurði ég Ólaf þjálfara hvort framkoma Valsliðsins bæði leikmanna og stuðningsmanna í garð dómara hefði verið með þeim hætti sem hann hafði óskað eftir.  "Ég var nú bara með fókusinn á vellinum.  Ég held að bekkurinn okkar hafi verið nokkuð spakur en ég tók eftir því að þeir (Haukarnir á bekk og í stúku) voru að mótmæla.  En hvernig var þetta í stúkunni?" spurði Ólafur.  Eftir smá spjall við nokkra sjálfboðaliða í leikslok var það niðurstaðan að það hafi almennt verið góður andi í stúkunni eins og hjá strákunum á vellinum.  Varðveitum góðan anda á leikjum og sjáum til þess að Valsmenn geti verið stoltir af samherjum sínum hvort sem þeir eru inn á vellinum eða í stúkunni.

Næst eiga strákarnir að spila gegn FH í Kaplakrika á næsta fimmtudag kl. 19:30 en fyrst mætum við á leikinn hjá stelpunum gegn ÍBV á morgun, laugardag kl. 13:30.

Áfram Valur!

20. september 2013

Sigurður Ásbjörnsson