Haustbragur í fyrsta leik - Pistill

Eyjastelpur komu í heimsókn í gær í fyrsta leik Olísdeildarinnar kvenna.  Við ættum sjálfsagt ekkert að vera að taka á móti þeim yfir höfuð þar sem ein stelpuskjátan úr þeirra hópi hafði af okkur bráðefnilegan hornamann og tók með sér út í Eyjar.  En okkur er víst ekki
stætt á því að skella í lás og verðum því að lifa við áhættuna sem fylgir gestaganginum.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Valsstelpur því þær skoruðu fyrstu fjögur mörkin áður en gestirnir komust á blað.  En sá munur hélst til hálfleiks en þá stóð 11 - 7 fyrir Val.  En Eyjastelpur neituðu að gefast upp í þeim seinni og um miðjan hálfleikinn var munurinn kominn niður í eitt mark 18 - 17.  En Valsstelpur kláruðu leikinn með því að skora níu mörk á síðasta korterinu en fengu eingöngu á sig þrjú á sama tíma.

Tölurnar benda til öruggari sigurs heldur en maður upplifði með því að fylgjast með leiknum.  Það verður að segjast eins og er að það er töluverður haustbragur á spili liðsins og helsta einkenni þess á undanförnum árum, hraðaupphlaupin,
sáust varla.  Megin einkenni þess sem ég kalla haustbrag er einfaldlega þegar ryþminn í liðinu er ekki í lagi.  Boltalausar hreyfingar, tímasetning og staðsetningar eru með dálitlum byrjendabrag.  Menn voru ekki að grípa það sem virtust fremur auðveldar sendingar,
langar sendingar rötuðu ekki rétta leið og leikmenn voru hálf dormandi þegar þeir áttu að hirða frákost eftir markvörslu eða stangarskot.  Þá er það óboðlegt að nýta eingöngu eitt af þremur vítaköstum en á sama tíma fengu ÍBV sex víti og skoruðu úr þeim öllum.

En því fer fjarri að stelpurnar hafi verið með allt niður um sig.  Það var eitt og annað sem gladdi augað í þessum leik.  Íris Ásta er
í betra formi en ég hef séð hana um langt skeið.  Sem dæmi um hennar framlag má nefna að þegar leið á leikinn þá voru dómararnir komnir með hendur á loft og Eyjastelpur virtust vera að vinna boltann fyrir leikleysu okkar.  Við fengum fríkast og stelpurnar stilltu upp fyrir Írisi.  Sú var ekki að hika heldur kom á fullu gasi og stökk hátt upp og lét vaða á markið svo flísaðist úr innanverðri stönginni og sönglaði í netmöskvunum.  Klassa tilþrif!

Líklega var Karólína að spila einn af sínum bestu leikjum um langa hríð.  Karólína var ásamt Hrafnhildi markahæst með sjö mörk en þess utan var Karólína frábær í vörninni.  Þar fékk hún verðugt verkefni að halda aftur af hornamanni ÍBV og það leysti hún óaðfinnanlega.  Þá var mjög gaman að sjá hversu vel þær Karólína og Írist Ásta spiluðu saman í vörninni.  Þær voru harðákveðnar í því að enginn færi í gegn á þeirra vakt.

Þá hvet ég stuðningsmenn til að gefa Bryndísi Elínu góðan gaum í vetur.  Þar fer stelpa sem er nýkomin úr þriðja flokki og er mjög vaxandi leikmaður.  Bryndís spilar á línunni og átti mjög góðan leik gegn ÍBV.  Bryndís á eftir að ná betra samspili við útileikmennina en þegar hún náði haldi á boltanum þá þurfti ekkert að ræða framhaldið. 

Í lok leiksins komu þær Morgan og Vigdís Birna inn á.  Báðar voru ákveðnar í því að standa fyrir sínu en bráðræði beggja var full mikið.  Vigdís var send í kælingu þegar hún braut fullgrimmilega af sér að mati dómaranna.  Þar með þurfti hún að verja 40% af sínum spilatíma í afplánun á bekknum.  Morgan ætlaði sér að skora en bæði vítið sem hún tók og uppstökksskotið fóru framhjá.  Kapp er best með forsjá og hvet ég stelpurnar til að fylgjast með og leita ráða hjá reynsluboltum liðsins en fara ekki framúr sér í kappseminni.  En nógu vel þekki ég til beggja stelpnanna úr yngri flokkunum til að vita að þær eiga bjarta framtíð í handboltanum.     

Broskallinn J fær Jenný fyrir að reyna að breyta leiknum í skotbolta þegar hún kastaði boltanum í dómarann sem stóð við punktalínuna skammt fyrir framan hana. 

Flottastu tilþrifin áttu þær Hrafnhildur og Karólína.  Tilþrifin höfum við oft séð áður þegar Valsliðið er í sínu besta spilformi. 
Hrafnhildur fær boltann frá Rebekku úr vinstra horninu og virðist ætla að senda hann áfram á miðjumanninn.  En Karólína sér að varnarmenn ÍBV eru fremur framarlega og hún hleypur því á bak við þær eftir línunni.  Í stað þess að gefa boltann inn á miðjuna þá sendir Hrafnhildur beint inn á línuna þar sem Karólína er á ferðinni á hárréttum tíma og notar kraftinn úr hlaupinu um leið og hún grípur boltann og setur hann í mark Eyjastelpna.  Frábært spil og vel gert hjá báðum.

Helstu tölur: 
Jenný varði 18 skot, Sigríður 1. 
Mörk Vals: Hrafnhildur 7, Karólína 7, Íris Ásta 3, Bryndís 3, Rebekka 2,
Kristín 2, Ragnhildur Rósa 2 og Heiða 1. 
Bókfærðar stoðsendingar skiptust þannig: Hrafnhildur 8, Kristín 4,
Ragnhildur 3, Íris Ásta 2 og Karólína 1. 
En það er ábyggilegt að það vantar margar stoðsendingar í bókhaldið hjá mér.

Áfram Valur!

22. september 2013

Sigurður Ásbjörnsson