Einn á lúðurinn - Pistill

Það er ekki nóg að taka við sigursæti í spá félaganna á haustfundi deildarinnar og setja síðan sjálfstýringuna í gang.  Þeir koma ekki að sjálfu sér sigrarnir.  Þetta fengum við Valsmenn að reyna þegar við heimsóttum FH-inga á afmælisdegi Ómars formanns handknattleiksdeildar.

Hann fór samt ágætlega af stað leikurinn fyrir okkur Valsmenn.  Við náðum þriggja marka forskoti eftir fáeinar mínútur og stuðningsmennirnir á pöllunum voru strax farnir að gæla við fullt hús í fyrstu viðureignum við Hafnarfjarðarliðin.  En FH-ingar gefast ekki svo auðveldlega upp og svöruðu með sex mörkum í röð.  Ekki bætti síðan úr skák þegar Geir Guðmundsson lá sárkvalinn á vellinum eftir aðeins 11 mínútna leik.  Geir var studdur af velli og lá flatur fyrir aftan varamannabekk Valsmanna og Valgeir
sjúkraþjálfari stumraði yfir honum.  Þetta virtist afleitt.  Við megum ekki við því að það fækki verulega í félagi örvhentra.  Geir þurfti því að yfirgefa vaktina sína fyrr en til stóð og Sveinn Aron kom inn á í hans stað.  En þeir Hlynur, Orri, Finnur Ingi, Guðmundur Hólmar, Bjartur og Atli héldu áfram sinni vakt.  En áfram hélt leikurinn og þá var komið að Hlyn Morthens að yfirgefa völlinn með beyglaðan ökkla um svipað leyti og fyrstu vakt lauk.  Þetta var afleitt.  Hlynur sem hafði byrjað leikinn með glæsibrag og varið 7 skot á fyrstu 17 mínútunum.

Þarna var orðið ljóst að vaktakerfi þjálfaranna var komið úr skorðum þar sem tveir leikmenn af fyrstu vakt virtust ekki líklegir til að koma meira við sögu.  Lárus kom því mun fyrr inn á völlinn en til stóð.  Með honum á vakt 2, seinni hluta fyrri hálfleiks, voru þeir Elvar, Vignir, Sveinn Aron, Ægir, Þorgrímur og Finnur í sókn en Alexander í vörn.  Þessi kafli byrjaði fremur illa þar sem FH-ingar voru í mjög öruggir með sig.  Spiluðu þétta vörn og að baki henni var markvörður þeirra í miklum ham.  Við lentum því fjórum mörkum undir
þegar skammt var til leikhlés en með þremur síðustu mörkum hálfleiksins tókst okkur að minnka muninn í eitt mark og bæta stemmninguna okkar megin á pöllunum.  Staðan í hálfleik 10 - 9 fyrir FH.

Í seinni hálfleik kom fyrsta vaktin aftur til leiks að undanskildum Hlyn markverði sem kom ekki meira við sögu.  Hins vegar kom Geir öllum að óvörum og spilaði stóran hluta af seinni hálfleik.  Valgeir sjúkraþjálfari hlýtur að vera með Galdragrip í töskunni sinni fyrst að honum tókst að gera Geir leikhæfan að nýju.  Seinni hálfleikur hófst með jöfnunarmarki Orra fyrir okkar hönd en til loka var frumkvæðið alltaf FH-inga en okkur tókst að jafna nokkrum sinnum en aldrei að komast yfir.  Sigur FH-inga, 24 - 21, var sanngjarn m.v. hvernig leikurinn spilaðist.

Þó svo að við höfum misst tvo öfluga leikmenn út af vegna meiðsla þá skýrir það ekki hvernig leiknum lauk.  Hlynur byrjaði vissulega mjög vel í markinu en Lárus hélt þeim sama dampi til til leiksloka og var líklega besti maður liðsins ásamt Guðmundi Hólmari í sókninni.  Þó svo að markvörður FH hafi staðið sig mjög vel þá er hann að verja svipaðan fjölda af skotum og okkar markmenn.  Því tel ég að markvarslan skýri ekki hvernig fór.  Öðru máli gegnir um varnarleik liðanna.  Mér fannst við sýna markahæsta manni FH full mikið örlæti þegar hann sótti að okkur.  Það var nokk sama hvað hann reyndi, uppstökk, fintur eða undirhandaskot, fyrirstaða varnarinnar var ekki mikil.  En þess á móti þá var FH vörnin mjög þétt og komst iðulega bæði inn í sendingar og blokkeraði skot okkar að FH markinu.

Ég geri mér grein fyrir því að margir Valsarar voru ósáttur við dómgæsluna í gær.  En það eykur bara á vandræði okkar að pirrast yfir hlutum sem við höfum enga stjórn á.  Bætum okkar leik, þar höfum við verk að vinna og höfum fulla stjórn á því hvernig til tekst. 

Hrósið fá félagarnir í Mulningsvélinni.  Tilvist þeirra og framganga eykur á gleðina.  Þó svo að ég hafi ekki náð orðaskilum í söngtextum þeirra nema að litlu leyti þá treysti ég því að þeir séu dannaðir í textasmíðum sínum.  Undirritaður varð þess heiðurs aðnjótandi að vera sessunautur Konna kóngs.  Um tíma gafst afar lítill tími til að fylgjast með leiknum þar sem kóngurinn þráspurði um heilsufar Hlyns markvarðar.  Ég mátti beita mínum innilegustu persónutöfrum til að róa Konna og sannfæra hann um að það liði ekki á löngu þar til við sæjum Hlyn í markinu að nýju.

Fáeinar tölur: 
Hlynur varði 7 skot, Lárus 16, þar af 2 víti.  Markaskorarar: Guðmundur Hólmar 6, Finnur Ingi 3, Orri 2, Ægir 2, Sveinn Aron 2, Geir 2, Elvar 1, Atli Már 1, Vignir 1, Þorgrímur 1.

Næsti leikur strákanna er gegn Fram í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda fimmtudaginn 3. október kl. 19:30 en fyrst spila stelpurnar gegn Selfyssingum kl. 13:30 á morgun, laugardaginn 28. september.

27. september 2013

Sigurður Ásbjörnsson