Sigur í kaflaskiptum leik - Pistill

Leikjaröðunin í Olísdeildinni er þannig að ætla mætti að áhugamaður í landafræði hefði fengið að tímasetja í hvaða röð við mættum liðunum í deildinni.  Eyjastelpur voru okkar fyrstu mótherjar en nú var komið að liði Selfoss.  Ég er þess viss að ef Þór Þorlákshöfn eða Hamar í Hveragerði ættu lið í deildinni þá væru þau næstu mótherjar okkar.  Þema septembermánaðar er augljóslega Sunnlendingar.

Ég fann að því eftir fyrsta leik Valsstelpna að það væri haustbragur á leiknum.  Vel slípað spil og hraðaupphlaup yrðu að bíða um sinn.  Enn eigum við verk að vinna og ég er þess viss að Valsstelpurnar vilja gleyma þessum leik hið fyrsta, a.m.k. fyrri hálfleik.  Selfyssingar voru fyrri til að skora og komust í 2 - 1 á þriðju mínútu og héldu þeirri forystu þar til á tíundu mínútu að Valsstelpur jöfnuðu.  En í sjö mínútur var samfelld leikleysa í boði.  Því næst tók við fjögurra mínútna handbolti þar til allt var í dvala í aðrar sjö mínútur.  En á síðustu 10 mínútum leiksins skoruðu Valsstelpurnar sjö mörk gegn þremur mörkum Selfyssinga.  Valsstelpur leiddu því 12 - 7 í hálfleik.  Ef Jenný hefði ekki verið í fantaformi í markinu eins og raunin var þá hefðum við verið í virkilega vondum málum.  Fyrri hálfleikur var með því slappasta sem stelpurnar hafa boðið upp á.  Nýtnin
afleit, lítil ógnun í sókninni, fjöldi langra sendinga enduðu víðs fjarri sprettfiskunum okkar, menn voru algjörlega sofandi gagnvart fráköstum og Jenný fékk á sig þrjú skot í sömu sókninni einfaldlega vegna þess að okkar stelpur hirtu ekki fráköstin.  Slíkt er ömurleg
upplifun fyrir markmann og ef einhver hefur unnið til þess að liðið standi á bak við sig þá er það Jenný.

Ekki veit ég hvað Stefán og Óskar sögðu eða gerðu við stelpurnar í hálfleik.  Voru þær reknar í kalda sturtu?  Eða gefið rótsterkt tyrkneskt kaffi þar sem maður þarf að tyggja korginn í lokin?  Ég hef ekki grænan grun hvað fram fór en það skilaði a.m.k. árangri.  Það var allt annað upp á teningnum í seinni hálfleik.  Valsliðið var algjörlega óþekkjanlegt m.v. spilamennskuna í fyrri hálfleik.  Spilið var miklu hraðara og allar stelpurnar með einbeitinguna eins og best gerist.  Selfyssingar skoruðu fyrsta markið en það varð bara til að ræsa stórskotaliðið.  Valsstelpurnar skoruðu níu mörk í röð og breyttu stöðunni úr 12 - 8 í 21 - 8.  En á þessum sama kafla virtist allt sem fór aflaga í fyrri hálfleik ganga upp.  Langar sendingar rötuðu í lúkur sprettfiskanna okkar, við stukkum á lausa frákastsbolta og það tók sig upp gamalkunnugt bros á stelpunum.  Það var augljóslega gaman að spila handbolta.  Þegar leið á leikinn fengu ungu stelpurnar að taka þátt.  Þær Morgan, Vigdís Birna og Guðrún Lilja skoruðu sitt markið hver.  Morgan fékk lengstan spilatíma af þeim og átti nokkur skot á markið sem voru fremur fyrirsjáanleg og öll varin uppi af Selfossmarkverðinum.  Morgan sem er efnileg skytta þarf að rækta með sér fjölbreytileikan í skotum, þ.e. bæði hvenær, hvernig og hvar hún lætur vaða á markið.  Hún hefur mikið til að byggja á en verður líka að ná takti við spilamennsku liðsins í heild.  Vigdís Birna hefur það fram yfir hinar tvær að hún er öflug í vörninni og vílar ekki fyrir sér að takast á við miklu stærri og reyndari skrokka.  Guðrún Lilja er hins vegar hröðust þeirra þremenninga enda skoraði hún úr hraðaupphlaupi.

Mary er augljóslega að ná takti við liðið.  Hún skoraði fyrsta mark liðsins gegn Selfossi, ákveðin í því að sýna að hún hefði sitthvað til málanna að leggja í sókninni.  Þá sýndi hún flott tilþrif í stöðu hægri skyttu þegar hún sótti að vörninni og læddi boltanum með ósýnilegri sendingu niður í hornið á Karólínu sem þakkaði pent með laglegu marki.

Jenný átti einn af sínum frábæru dögum í rammanum.  Hún átti að vísu nokkrar afleitar sendingar fram í fyrri hálfleik en markvarslan var glæsileg.  Hún varði samtals 21 skot í leiknum en þar af 15 í fyrri hálfleik.  Tvisvar bjargaði hún okkur frá því að fá horn gegn okkur (ég hef aldrei skráð slíkt sem varið).  Sigríður kom inn á undir lok leiksins og fékk fljótlega á sig mörk úr skotum sem virtust fremur auðvarin.  En þegar hún varði þá hrökk hún svohressilega í gang að hún var farin að verja skot sem voru á leiðinni framhjá markinu.  Samtals varði hún 6 skot sem er mjög gott á svo stuttum spilatíma.

En það rættist ótrúlega vel úr þessum leik eftir afleita byrjun og þegar upp er staðið þá er hver einasti leikmaður á blaði með eitthvað framlag.  Það er vitaskuld gaman að sjá og vitaskuld vil ég dæma stöðu liðsins eftir því sem það gerði best í leiknum. 

Helstu tölur: 
Jenný varði 21 skot, Sigríður 6. 
Mörk Vals: Hrafnhildur 7, Karólína 6, Hrafnhildur 4, Rebekka 4, Mary 3, Íris Ásta 2, Bryndís 2, Kristín 2, Heiða 2, Guðrún Lilja 1, Morgan 1 og Vigdís Birna 1. 

Næsti leikur stelpnanna er laugardaginn 5. október 2013 gegn Aftureldingu á útivelli.  En áður en til þess kemur taka strákarnir á móti Fram í Vodafonehöllinni Hlíðarenda á fimmtudaginn 3. október.

Áfram Valur!

29. september 2013

Sigurður Ásbjörnsson